Úrskurður ráðherra um Norðlingaölduveitu

Miðvikudaginn 05. febrúar 2003, kl. 16:04:22 (3508)

2003-02-05 16:04:22# 128. lþ. 73.95 fundur 407#B úrskurður ráðherra um Norðlingaölduveitu# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 128. lþ.

[16:04]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Fernt er mér efst í huga við þennan úrskurð um Norðlingaölduveitu.

Í fyrsta lagi að náttúruverndarsinnar á Íslandi eru í sókn. Þessi úrskurður hefði aldrei verið kveðinn upp ef ekki hefði risið í landinu alda til varnar umhverfinu. Þetta er mjög mikilvægur varnarsigur fyrir náttúruverndarsinna. Gagnvart nýjum áformum um virkjanir í landinu er greinilegt að ríkisstjórnin telur sér ekki lengur fært annað en að hlusta á þann stóra og vaxandi hóp náttúruverndarsinna sem segja: Hingað og ekki lengra. Þeim blöskrar hvernig þessi ríkisstjórn hefur reynst reiðubúin og er enn reiðubúin að fórna dýrmætum náttúruperlum þessa lands. Það vil ég segja að þessi úrskurður er sjálfsagður og eðlilegur og hefði reyndar þurft að ganga miklu lengra. Hann er engin syndaaflausn fyrir náttúruspjöllin sem Framsfl. og ríkisstjórnin er að vinna á landi okkar.

Í öðru lagi hlýtur sú spurning að vakna hvort ekki sé löngu tímabært að stjórnvöld endurmeti alla okkar afstöðu til raforkuframleiðslu og nýtingar á raforku í landinu. Eigum við að verða land þungaiðnaðar? Viljum við það? Ég held ekki.

Í þriðja lagi þarf að koma böndum á Landsvirkjun. Hún er vægast sagt farin að haga sér á óábyrgan hátt og er engu líkara en henni sé orðið tamara að standa vörð um erlenda stóriðjuhagsmuni en efnahagslega hagsmuni Íslendinga, að ekki sé minnst á langtímahagsmuni sem snúa að umhverfi og náttúru landsins.

Í fjórða lagi hlýtur að vakna sú spurning hvort eitthvað sé að hjá Landsvirkjun og iðnrn. þegar svo mikill munur er á lausnum þess fyrirtækis og þess ráðuneytis og síðan annarra aðila sem að málinu koma. Vísa ég þar til mats hæstv. heilbrrh. Getur verið að ótvíræður kostur sé að fá utanaðkomandi aðila til að leita leiða við nýtingu orkulinda á umhverfisvænan hátt? Ef svo er þarf að stokka upp frá grunni aðkomu okkar að þessum málum. Slíkt væri í samræmi við áherslu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Við höfum talað fyrir grundvallarafstöðubreytingu á þessu sviði.