Þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 18:19:01 (3626)

2003-02-06 18:19:01# 128. lþ. 74.20 fundur 142. mál: #A þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum# þál., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[18:19]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það er mjög mikilvægt að fá þetta þingmál fram vegna þess að það gefur tilefni til umræðu sem þarf að fara fram í þjóðfélaginu áður en endanlegar ákvarðanir eru teknar. Eins og hér hefur komið fram gengur þáltill. út á að ákveða fyrirkomulag innheimtu sérstaks þjónustugjalds á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum.

Ég hef um þetta miklar efasemdir og er þessu reyndar mjög andvígur. En þannig er að það er þegar fyrir hendi lagastoð til að innheimta slík gjöld. Í 32. gr. laga um náttúruvernd er veitt heimild til að ákveða gjald fyrir veitta þjónustu og aðgang að náttúruverndarsvæðum, og í greinargerð með frv. er vísað í nefnd sem var sett á fót haustið 1999 til þess að fara í saumana á þessu máli. Samkvæmt nefndinni komu nokkrir staðir til greina sem hugsanleg gjaldtökusvæði. Ásbyrgi, Skaftafell, Dimmuborgir og Gullfoss voru nefnd í því sambandi.

Það kemur jafnframt fram í greinargerðinni að meiri hluti þessarar nefndar var mjög andvígur því að innheimta slík þjónustugjöld. Og eftir því sem ég best veit hefur hvergi verið tekin ákvörðun um innheimtu.

Það er alveg rétt sem kom fram í máli hv. þm. Ástu Möller að það er mikilvægt að fá fjármagn til þess að standa straum af kostnaði við aðstöðu við ferðamannastaði en ég er þeirrar skoðunar að þetta eigi að koma af almennu skattfé. Mér finnst vel koma til greina að íhuga einhverja gjaldtöku sem þá tekur til ferðamennskunnar í heild sinni en ekki sértæka gjaldtöku á ferðamannastöðum. Leiðina til að hafa hag af ferðamennskunni tel ég liggja fyrst og fremst í gegnum atvinnurekstur sem þróast við náttúruperlur, og ég vil nefna t.d. veitingarekstur við Geysi sem ég veit ekki betur en að gangi mjög vel. Þar er risin mjög vönduð þjónustuaðstaða og stórt veitingahús sem menn koma á og það er svona sem ég tel að ferðamennskan eigi að innheimta peninga.

Litlir peningar, segir hv. þm., það er ekki verið að tala um að taka hátt gjald. Ég held að það snúist ekki bara um það hversu hátt gjaldið er, þó að það geti að sönnu skipt máli, heldur það yfirbragð sem verður yfir stöðunum eftir að farið er að innheimta gjaldið. Staðreyndin er sú að menn hrífast mjög, ekki síst aðkomumenn til landsins, af hinu villta og ósnortna í náttúru okkar, og menn hrífast af því að geta farið inn á Geysissvæðið eða að Gullfossi án þess að vera látnir greiða fyrir það. Ég þekki ekki sjálfur hvernig þessu er háttað erlendis. Það hefur verið vísað til Kanada og annarra staða, ég geri mér grein fyrir því að það er mismunandi háttur hafður á. En hitt man ég vel þegar ég einhvern tíma keypti mig inn á foss í Wales á Bretlandi, mér fannst fossinn ekkert sérstakur og ég er ekki í nokkrum vafa um að hann var orðinn að einhverju öðru en hann var áður en gjaldið var innheimt.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta þingmál. Mér finnst mjög mikilvægt að fram fari umræða í þjóðfélaginu um þetta efni, hvort við eigum að fara út á þessa braut. Mér finnst skipta mjög miklu máli að við ræðum í þaula hvað við viljum gera og að því leyti fagna ég því að fá þingmál sem gefur tilefni til slíkrar umræðu. Sjálfur er ég því mjög andvígur að við förum inn á þessa braut.