Þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 18:51:36 (3634)

2003-02-06 18:51:36# 128. lþ. 74.20 fundur 142. mál: #A þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[18:51]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem upp í andsvar við hv. þm. Ástu Möller vegna þess að mér fannst seinni ræða þingmannsins lúta að því sem í raun og veru er, hún dregur í land með þessa tillögu og tillagan er því óþörf. Vegna þess að ef við tökum umræddan túr frá Akureyri er það skilningur hennar samkvæmt seinni ræðunni að þjónustugjöldin eigi að vera í formi þeirrar þjónustu sem veitt er.

Ef ég mundi stoppa í Mývatnssveit og vera þar yfir nótt borgaði ég þjónustugjald á tjaldstæðinu ef ég væri þar, ekki statt? Eða á hótelinu eða ef ég fengi mér kaffi.

Ef ég héldi svo lengra áfram og færi austur um og niður í Ásbyrgi og vildi vera þar aðra nótt borgaði ég þjónustugjald á tjaldstæðunum þar sem mér er veitt gistiþjónusta og þar sem ég get notið þess að þvo af mér þvott og því um líkt. Ég held að hv. þm. sem standa að þessu ættu að vita að slík þjónusta er til staðar úti um allt land og fyrir hana er greitt. Við greiðum líka fyrir einkaþjónustu sem er innan þessara náttúrusvæða. Ef ég fæ mér kaffi á Hótel Reynihlíð greiði ég fyrir það, og ef ég fæ mér kaffi eða kaupi eitthvað í verslun í Ásbyrgi greiði ég fyrir það og það er þjónusta við mig sem er á svæðinu.

En það er fáránlegt að eiga að kaupa dagskort í Víkurskarði til þess að fara í sunnudagstúrinn minn austur um sem ég fer mörgum sinnum á ári, maður er nú að tala um það sem maður þekkir langbest, til að skoða og njóta þessara staða. Vegna þess að ef ég stoppa ekki og ef ég tek nesti með mér þá er engin þjónusta við mig. Hv. þm. talar um að hún sé ekki að tala um glápgjald. Hvernig er þetta þá hugsað?

Þjónustugjöld í því formi sem hv. þm. talar um í seinni ræðu sinni eru þar sem þjónusta er veitt.