Þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 18:55:33 (3636)

2003-02-06 18:55:33# 128. lþ. 74.20 fundur 142. mál: #A þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum# þál., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[18:55]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held enn og aftur að hv. flm. þessarar tillögu séu ekki nógu kunnugir því hvernig ferðaþjónustan fer fram, vegna þess að ef ég vil t.d. fá leiðsögn um Dimmuborgir skulum við segja, þá á ég þess kost að kaupa mér rútuferð með leiðsögn um Dimmuborgir. Það er ekkert mál.

En það sem ég er að tala um er að það er náttúrlega fáránleg staða ef ætti að innheimta í Víkurskarði þúsund krónur á haus til að fara sunnudagsrúntinn sem tilfallandi er um þessi náttúruverndarsvæði. Það er heilmikill peningur. Og hvers vegna í ósköpunum ætti að fara að innheimta peninga þegar, eins og hv. þm. Ásta Möller bendir á, þar er engin þjónusta, ekki salerni t.d., á þessum stöðum?

Þjónustugjöldin eru innheimt, eins og ég sagði, á öllum þessum stöðum. Ég get jafnvel farið til bæjarins Akureyri. Þar eru tjaldstæði innan bæjar og þar eru innheimt þjónustugjöld. Þú borgar þig inn á tjaldstæði eða borgar þig inn á hótel, þú borgar fyrir að nota þvottavél o.s.frv.

Mér finnst miðað við hugsun þingmannsins núna í seinni ræðunni og það sem hv. þm. hefur talað um, að það sé ástand sem í raun veru er til staðar vegna þess að það borga allir fyrir þessa þjónustu. Þú getur fengið þér kaffi á nokkrum stöðum alla leiðina, úr því að við tölum um þennan umrædda demantshring okkar Norðlendinga, og auðvitað eru það þjónustugjöld sem leggja sig alla vega, t.d. með aðgangi að salerni ef þú ferð inn á hótelin, veitingastaðina eða skálana til þess að kaupa þér þjónustu.

(Forseti (HBl): Ég vil biðja hv. þm. að segja hv. þm. Ég tók það svo að hv. þm. notaði þú sem óákveðið fornafn en ...)

Virðulegi forseti. Þetta var vegna þess að við horfðumst svo sterkt í augu, ég og hv. þm. Ásta Möller.