Þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum

Fimmtudaginn 06. febrúar 2003, kl. 18:59:44 (3638)

2003-02-06 18:59:44# 128. lþ. 74.20 fundur 142. mál: #A þjónustugjald á fjölsóttum náttúruverndarsvæðum# þál., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 128. lþ.

[18:59]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Þetta var um margt merkileg og ágæt ræða. Hv. 19. þm. Reykv. er skynsamur þingmaður og mér finnst eins og hún hafi verið að bakka svolítið út úr þessari tillögu vegna þess að hv. þm. talaði um að þetta væri sett svona fram til að vekja umræðu um málið, enda hefur verið fjörleg umræða um það.

Hv. þm. talaði mjög mikið um salernisaðstöðu og þess háttar. Í Þórsmörk t.d. er auðvitað salernisaðstaða sem fólk er ekkert endilega að borga fyrir. Fegursta kamarstæði landsins er á Emstrum ef ég þekki rétt. Mér finnst sjálfsagt að koma sunnlenskum perlum inn í umræðuna af því að norðanmenn hafa mjög verið að guma af náttúrunni þar.

Hv. þm. vitnaði einnig í orð hæstv. umhvrh. þar sem talað er um framtíðina og að hugsanlega gæti orðið gjaldtaka í framtíðinni, eins og hæstv. umhvrh. talaði, en við vitum í raun og veru ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Eins og fram hefur komið í umræðunni er alveg nauðsynlegt að skapa aðstöðu, byggja upp aðstöðu þar sem hægt er að selja inn á. Við erum í sjálfu sér ekkert svo ósammála um það en tillagan er á engan hátt tímabær.

Það hefur líka komið fram í umræðu hér og það höfum við séð, t.d. við sem sitjum í umhvn. sem höfum komið bæði í Skaftafell og í þjóðgarðinn á Snæfellsnesinu, að þar hafa sjálfboðaliðar unnið mjög merkilegt og gott starf og fyrir það eigum við að vera þakklát. Það eru erlendir sjálfboðaliðar sem koma á hverju einasta ári og vilja njóta þess að vera á Íslandi. Þeir vinna mjög gott starf í þessum efnum. En við getum verið sammála um að vissulega vantar meiri peninga inn í þjóðgarðana okkar en það er á engan hátt tímabært að setja upp gjaldtöku. Þess vegna er ég svolítið glaður yfir því að hv. þm. skuli vera að bakka út úr tillögunni.