Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 16:40:32 (3866)

2003-02-13 16:40:32# 128. lþ. 79.11 fundur 298. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (aðild að stéttarfélagi) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[16:40]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Í rauninni er ég mjög fylgjandi félagafrelsi, að einstaklingar geti valið um félög. Þetta frv. fjallar hins vegar um það hvort launafólki beri að greiða stéttarfélagsgjald til þess félags sem semur fyrir hönd þess sem skapar því þau kjör sem það býr við. Það er staðreynd að með félagslegu átaki hefur okkur tekist að bæta ýmis réttindi launafólks hvort sem um er að ræða lífeyrisréttindi, veikindaréttindi, fæðingarorlof eða náttúrlega launakjörin svo dæmi séu tekin. Fyrir þessa vinnu greiða menn afgjald, stéttarfélagsgjald til viðkomandi félags. Og það sem hv. þm. er að leggja til er að þeir sem þóknast að greiða ekki til þessa starfs eigi að geta komist upp með það jafnvel þó þeir þiggi öll þau kjör sem í boði eru, jafnvel þó þeir njóti allra þeirra réttinda sem í boði eru.

Ég held sannast sagna að flest fólk sé það stolt að það vilji leggja til þessarar sameiginlegu baráttu. En ég óttast það hins vegar að sérstaklega á atvinnuleysistímum fyrirfinnist óprúttnir vinnuveitendur og atvinnuveitendur sem vilji nýta sér slík ákvæði til að útiloka fólk frá stéttarfélagsaðild og ég tek í rauninni alveg undir það með hv. þm. að með þessu er verið á ákveðinn hátt að þröngva fólki inn í félög. Ég tek alveg undir það, en mér finnst það eðlilegt. Ég lít á stéttarfélögin og verkalýðshreyfinguna sem mikilvægan þátt í lýðræðsþjóðfélagi okkar.