Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 16:44:53 (3868)

2003-02-13 16:44:53# 128. lþ. 79.11 fundur 298. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (aðild að stéttarfélagi) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[16:44]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki einhlítt alveg hvernig stéttarfélagsgjöldin eru innheimt. Sum stéttafélög taka fast gjald af félagsmönnum sínum, önnur taka hlutfall af launum og það er bara hluti af samstöðuhugsun okkar að þeir sem eru betur aflögufærir greiða meira en hinir sem hafa minna fé á milli handa. Þetta er hluti af samstöðuhugsun sem er einkennandi fyrir störf í verkalýðshreyfingunni.

Að það sé almennt viðhorf að fólk fái ekkert fyrir sinn snúð, það held ég að sé rangt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal. Það er að vísu minni hluti fólks sem þarf verulega á þjónustu stéttarfélaganna að halda þegar brotið er á því fólki og þarf að leita fyrir dómstóla en almennt held ég að allir njóti góðs og uppskeri vel af starfi stéttarfélaganna því að stöðugt er þar verið að vinna að margvíslegum réttarbótum fyrir launafólk. Að tengslin við stéttarfélögin séu að rofna held ég að sé ekki rétt. Ég held að þetta byggist á ákveðinni vanþekkingu á starfinu sem fram fer innan stéttarfélaganna. Hv. þm. gerir sér greinilega ekki grein fyrir því mikla félagsstarfi sem þar fer fram.

Að þetta sé allt gert á Alþingi og þurfi enga baráttu í þjóðfélaginu. Ég held að það sé ekki rétt. Þær réttarbætur og kjarabætur sem unnist hafa og eru settar í lög koma hingað inn á Alþingi iðulega eftir mikla baráttu launafólks. Ég nefni þar t.d. lífeyrisfrv. af því að hv. þm. er upptekinn af lífeyrisréttindum. Þau komu hingað fyrir þingið og náðu fram að ganga eftir mikla baráttu stéttarfélaganna en gegn mjög harðri og miklum andróðri ýmissa þingmanna og ég held að hv. þm. Pétur H. Blöndal hafi verið þar fremstur í flokki ef ég man rétt.