Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fimmtudaginn 13. febrúar 2003, kl. 16:47:12 (3869)

2003-02-13 16:47:12# 128. lþ. 79.11 fundur 298. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (aðild að stéttarfélagi) frv., Flm. PHB
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 128. lþ.

[16:47]

Flm. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Vegna þess sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði áðan um vanþekkingu mína á þessum málum vil ég geta þess að ég var forstjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna í sjö ár og átti þátt í því að forrita félagsgjöldin og orlofsheimilagjöldin og sjúkrasjóðsgjöldin inn í innheimtukerfi lífeyrissjóðsins. Ég hafði það fyrir sið, herra forseti, að ég bauð 50 félagsmönnum lífeyrissjóðsins í kaffi 3--4 sinnum á ári, valdi þá handahófskennt út úr sjóðfélagaskránni, bauð þeim í kaffi, borgaði fyrir þá ferðir og vinnutap og spjallaði við þá um lífeyrissjóðinn, spurði hvað þeir vissu um lífeyrissjóðinn og stéttarfélagið. Það var ótrúlegt sem kom út úr því. Ég ráðlegg hv. þingmanni að gera það sama, að bjóða til sín af handahófi einhverjum opinberum starfsmönnum og vita hvað þeir vita um stéttarfélagið.

Það kom nefnilega í ljós að mjög fáir vissu nokkuð um lífeyrissjóðinn. Það er reyndar dálítið langt síðan en ég hugsa að það hafi ekki breyst neitt voðalega mikið. (ÖJ: Jú, jú.) Mjög fáir vissu eitthvað um lífeyrissjóðinn, t.d. vissu þeir ekki að hann borgar örorkulífeyri sem er framreiknaður og getur verið um 60% af launum. Það var dálítið merkilegt að heyra umræðuna um örorkulífeyrinn í dag í ljósi þess. Eitthvað fleiri vissu um stéttarfélagið en ekkert voðalega miklu fleiri, og flestir litu á félagsgjaldið sem skatt. Ég hef því dálitla þekkingu á þessu þó að hún sé orðin gömul og farin að ryðga. (ÖJ: Hvenær var þetta?) Þetta hefur verið 1980--1985. En þá gerði ég þetta, að bjóða fólki í kaffi, og það var mjög lærdómsríkt. Þá fær maður afstöðu fólks. Af því að þetta var slembival fékk ég afstöðu fólks til lífeyrissjóðsins, stéttarfélagsins og sjúkrasjóðsins og alls þess sem verið var að innheimta, orlofsheimilasjóðs, félagsheimilasjóðs o.s.frv.

En hv. þm. svaraði því ekki hvort félagsgjaldið, þetta sem menn verða að greiða hvort sem þeir eru í félaginu eða ekki og getur þá varla verið félagsgjald --- það er varla félagsgjald sem menn eru að borga til einhvers félagsskapar sem þeir eru ekki félagar í. Ég spyr: Er þetta þjónustugjald eða er þetta skattur? Eða er þetta eitthvað annað?

Ég vildi gjarnan spyrja hv. þingmann að því hvernig honum litist á það ef félagsfundur teldi nauðsynlegt að hækka félagsgjaldið upp í 50% eða 100% af launum. Það er svo merkilegt við lögin að það stendur ekkert í þeim um hámark þessa gjalds og félagsfundur getur ákveðið gjaldið; félag sem maðurinn er ekki félagi í getur ákveðið gjald á manninn allt upp í 100% og jafnvel meira en það af tekjum og launaskrifstofa ríkisins yrði að innheimta það. Hvað mundi hv. þm. segja ef hann kæmi í pontu og svaraði þessu?