Reynslulausn

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 15:39:53 (3942)

2003-02-18 15:39:53# 128. lþ. 81.18 fundur 517. mál: #A reynslulausn# þál. 21/128, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[15:39]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þessa þáltill. sem ég styð heils hugar enda er ég einn af flm. Ég þakka 1. flm., hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur, fyrir það frumkvæði sem hún tók í þessu máli.

Ég vona hins vegar að nefndin sem við erum að gera tilögu um að fari í saumana á þessu máli vinni á hraðvirkari hátt en ýmsar nefndir gera í kerfinu. Vísa ég þar í nefnd sem hefur endurskoðun laga um meðferð opinberra mála m.a. með höndum og vísa ég þar í þingmál sem ég hafði frumkvæði að hér í fyrra, þar sem ég vildi láta endurskoða ákvæði þess efnis að Hæstiréttur geti tekið nánast á geðþóttavísu ákvörðun um hvort máli úr undirrétti er vísað til Hæstaréttar. Þetta á við um mál sem eru undir tiltekinni sektarsummu sem er þó allhá. Við urðum sammála um það í allshn. að vísa málinu til þessarar nefndar til skoðunar. Ég hef innt hæstv. dómsmrh. eftir því hvað líði vinnunni í þeirri nefnd. En hún hefur ekki getað gert annað en að reyna að reka á eftir nefndinni og geri ég það hér með, nota ég tækifærið til þess.

Um efnisatriði þessa máls hefur hv. þm. Þorgerður K. Gunnarsdóttir flutt ágæta ræðu hér þannig að ekki þarf að endurtaka það. Það sem mér finnst vera grundvallaratriði í þessu er að framkvæmdarvaldið á ekki að geta tekið ákvörðun sem breytir dómi eða niðurstöðu dóms. Að sjálfsögðu á að vísa málinu aftur inn á það svið til að breyta dómnum. Þetta finnst mér vera grundvallaratriðið í þessu máli, sem ég styð.