Milliliðalaust lýðræði

Þriðjudaginn 18. febrúar 2003, kl. 16:28:06 (3951)

2003-02-18 16:28:06# 128. lþ. 81.20 fundur 577. mál: #A milliliðalaust lýðræði# þál., HBl
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 128. lþ.

[16:28]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Mér þótti athugasemd hv. 13. þm. Reykv., Ögmundar Jónassonar, athyglisverð í ljósi þess að hún skýrir með margvíslegum hætti hvernig stjórnmálamenn taka á málum og ég vil segja eins og hann að það verður fróðlegt að fylgjast með framhaldi þess máls.

Annars kvaddi ég mér hljóðs, herra forseti, til að vekja athygli á þrem atriðum. Í fyrsta lagi vakti ég athygli á því hér áður að í greinargerð með þessari þáltill. er sérstaklega vikið að atkvæðagreiðslu um framtíðarstað flugvallarins í Vatnsmýrinni sem, eins og ég sagði, fyrrverandi borgarstjóri vitnaði mjög til í ræðu sinni í Borgarnesi fyrir skömmu og, eins og ég sagði, kallaði allsherjaratkvæðagreiðslu og talaði um það sem mikla fyrirmynd að því hvernig stjórnmálamenn ættu að haga sér, hvernig þeirra vinnubrögð skyldu vera. Nú var það svo um þessa atkvæðagreiðslu að fyrir fram var sagt að hún væri síður en svo bindandi. Það var líka um þessa atkvæðagreiðslu að segja að það lítill hluti Reykvíkinga tók þátt í henni að jafnvel þótt menn hefðu fyrir fram gert því skóna að hún væri bindandi hefðu menn auðvitað, heiðarlegir stjórnmálamenn, sagt eftir á að eins og þetta mál væri vaxið væri ekki hægt að taka mark á því í þeim skilningi að það væri augljóslega vilji Reykvíkinga sem fram kom í atkvæðagreiðslunni. Þess vegna finnst mér það sýna alvöruleysi og kæruleysi þegar flm. þessarar tillögu vitna sérstaklega til þessarar atkvæðagreiðslu til þess að færa rök fyrir því að beinar atkvæðagreiðslur, það sem þeir kalla milliliðalaust lýðræði, séu það sem við eigum að taka upp.

[16:30]

Við erum hér að tala um grafalvarlegt mál og óhjákvæmilegt er að gera kröfu til þess ef slíkt verður tekið upp að kjósendur viti hverju sinni um hvað sé að tefla, þetta sé ekki leikaraskapur og þetta sé ekki eitthvað sem gert er í flaustri til þess að reyna að koma sér undan ábyrgð sem stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar hljóta að bera, eins og tilfellið var um atkvæðagreiðsluna um flugvöllinn í Reykjavík.

Ég áttaði mig satt að segja ekki alveg á því hvað hv. þm. átti við þegar hann talaði um að það ætti að færa flugvöllinn frá einum stað til annars í Reykjavík. Það er nú búið að reisa Kjarvalsstaði á Klambratúni, ég veit ekki hvar hann ætlar að klambra niður þessum flugvelli, en auðvitað fer vel um flugvöllinn þar sem hann er núna.

Í annan stað vil ég vekja athygli á því að þau ummæli sem hér er vitnað til og talin spakleg og höfð eru eftir fyrrverandi formanni krata eins og hann sagði oft sjálfur, Jóni Baldvini Hannibalssyni sendiherra, með leyfi hæstv. forseta:

,,Íslendingar ættu að geta hugsað sér að verða tilraunastofa í frekari þróun lýðræðislegra stjórnarhátta ...`` --- verða tilraunastofa.

Það er undarlegt að taka þessi orð upp og þá hugsun sem þarna er á bak við sem eitthvað eftirsóknarvert. Og þarf miklu meiri skýringa við ef taka á alvarlega. Orðalagið sjálft er með þeim hætti að það er ekki traustvekjandi, má vera að meira búi þarna undir en maður sér í fljótu bragði, en að gera íslensku þjóðina að einhverri tilraunastofu, gera Ísland að einhverri tilraunastofu í stjórnarháttum. Það mátti lesa úr Borgarnessræðunni að sá ótti væri vakandi hjá Samfylkingarmönnum að Ísland gæti orðið að verstöð Evrópusambandsins --- verstöð Evrópusambandsins --- þ.e. önnur tilraunastofan til. Það ætla ég að vona að verði aldrei að Ísland verði að verstöð Evrópusambandsins. En þannig eru nú orðalepparnir í þessu sambandi.

Í þriðja lagi finnst mér eftirtektarvert að verið sé að efla beint lýðræði með því að Alþingi verði eitt kjördæmi. Þetta er auðvitað algjörlega út í bláinn. Algjörlega út í bláinn. Við getum auðvitað velt því fyrir okkur hvað mundi gerast og hið augljósa er að Alþingi breyttist í málstofu Stór-Reykjavíkur með þeim hætti. Ef við rifjum upp hverjir hafa átt sæti á Alþingi síðan það var endurreist, þá hafa menn auðvitað komið víða að, en það hefur alltaf styrkt þingmenn ef þeir eru oddamenn á ákveðnum stöðum á landinu og þurfa að bera ábyrgð sem slíkir og vakið athygli á þeim málflutningi sem þeir hafa og þeim málum sem þeir flytja.

Ef við á hinn bóginn ætlum að breyta Alþingi í sextíu og þriggja manna málstofu sem öll skuli ákveðin af Reykvíkingum, þá mundi þessi stofnun auðvitað í fyrsta lagi setja mikið niður og í öðru lagi væri búið að hrifsa lýðræðið frá fólki á fámennari stöðum. Þetta hefur á hinn bóginn lengi verið óskastaða Alþýðuflokksins. Og auðvitað er Samfylkingin með sínum hætti ekki annað en gamlir smákratar. Þetta hefur verið óskastaða Alþýðuflokksins að reyna að breiða yfir staðarleg og byggðarleg einkenni, reyna að slétta landið út og má með margvíslegum hætti sjá í þeim málflutningi sem nú er hafður uppi, eins og þegar formaður Samfylkingarinnar segir að það sé óþolandi óréttlæti hvernig vegafé sé skipt nú í því átaki sem verið er að gera í vega- og samgöngumálum, þá má með þessum og ýmsum öðrum hætti finna hversu kalt andar til strjálbýlisins einmitt frá Samfylkingunni.

Sá málflutningur að vera nákvæmlega sama um það hvort strjálbýlið hafi nokkuð um það að segja hvar flugvöllurinn sé sem það á að nota, að ekki þurfi einu sinni að tala við fólk úti á landi um það ef hann verður lagður niður. Það er þessi hugsunarháttur sem endurspeglast líka hér sem spillir því góða máli sem hér er verið að taka upp, því vitanlega er það fróðlegt og merkilegt ef menn mundu taka þá hugmynd upp hvort við ættum oftar að nota þjóðaratkvæði en við höfum gert.