Samræmd stúdentspróf

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 14:27:32 (4008)

2003-02-19 14:27:32# 128. lþ. 83.4 fundur 541. mál: #A samræmd stúdentspróf# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[14:27]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Herra forseti. Ákveðið hefur verið að skylda íslenska framhaldsskólanema til þess að taka svokölluð samræmd stúdentspróf. Óhætt er að fullyrða að sú ákvörðun er umdeild og hefur sætt talsverðri gagnrýni í skólasamfélaginu á undangengnum vikum og mánuðum. Megintilgangur þessara prófa er sagður vera sá að jafna aðstöðu nemenda og gera þeim og viðtökuskólunum kleift að bera frammistöðu nemenda saman á jafnréttisgrundvelli þannig að háskólar geti tekið mið af einkunum þegar teknir eru inn nýir nemendur að hausti eða um áramót. Það er hins vegar ljóst að í háskólum fer fram sérhæft nám sem t.d. ekki er kennt á framhaldsskólastigi og í því ljósi orkar þessi gjörningur tvímælis í augum margra.

Sterk rök eru fyrir því, herra forseti, að mínu mati að fresta samræmdum prófum um óákveðinn tíma, endurskoða framkvæmd þeirra og gera skólunum kleift að undirbúa þau betur. Ekki var ljóst fyrr en seinni partinn í desember í hvaða námsgreinum yrði prófað og með hvaða hætti. Því var vonlaust að hefja kynningu á samræmdu prófunum innan skólasamfélagsins fyrr en nú í janúar. Það er til að mynda óréttlátt að nemendur sem nú þegar hafa lokið öllum náms\-áföngum í íslensku, hófu t.d. nám haustið 2000 og luku síðasta áfanga haustið 2002 og stefna að því að ljúka stúdentsprófi vorið 2004, þurfi að þreyta samræmt stúdentspróf löngu seinna, þ.e. í janúar 2004.

Við það að fresta upptöku samræmdra prófa væri hægt að lagfæra margt í framkvæmd þeirra sem ætti að verða til þess að sátt náist um samræmdu prófin, t.d. að taka falleinkunn út þannig að um viðbótarupplýsingar sé að ræða sem raskar ekki brautskráningu nemenda, sem eitt dæmi. Þá má nefna að bekkjaskólar þurfa svigrúm til að aðlaga kennslu sína að því að einingafjölda í viðkomandi greinum sé náð þegar prófið á að fara fram í janúar 2004, eins og er tilfellið varðandi íslenskukennslu í Menntaskólanum í Reykjavík.

Herra forseti. Í þessu ljósi spyr ég hæstv. menntmrh.:

Mun ráðherra endurskoða eða afturkalla ákvörðun sína um boðuð samræmd stúdentspróf á vorönn 2004 í kjölfar eindreginna mótmæla nemendafélaga, skólastjóra og kennara gegn framkvæmdinni og fresta samræmdum stúdentsprófum um óákveðinn tíma?