Samræmd stúdentspróf

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 14:30:19 (4009)

2003-02-19 14:30:19# 128. lþ. 83.4 fundur 541. mál: #A samræmd stúdentspróf# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[14:30]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Í 24. gr. laga um framhaldsskóla frá árinu 1996, með síðari breytingum, er kveðið á um að stúdentspróf skuli vera samræmd í tilteknum greinum. Það er því langt síðan þessi ákvörðun var tekin. Í bráðabirgðaákvæði sömu laga segir að samræmd lokapróf skuli komin til framkvæmda á skólaárinu 2003--2004. Reglugerðin um samræmd stúdentspróf í framhaldsskólum er því sett á grundvelli laga um framhaldsskóla, nr. 80/1996.

Reglugerðin gerir ráð fyrir að samræmd stúdentspróf verði haldin í þremur námsgreinum, íslensku, ensku og stærðfræði. Um er að ræða lykilgreinar til undirbúnings námi á háskólastigi. Í bráðabirgðaákvæði er þó kveðið á um að einungis verði haldið samræmt stúdentspróf í íslensku í janúar 2004. Samræmd stúdentspróf koma því ekki til fullra framkvæmda fyrr en í upphafi ársins 2005 þar sem prófið í íslensku er valkvætt og nemendur þurfa ekki að taka það. Með því að hafa einungis próf í íslensku á árinu 2004 er farið hægt af stað með framkvæmd reglugerðarinnar. Skólum og nemendum er þannig veittur aðlögunartími, auk þess sem reynslu er aflað. Ég legg áherslu á að það er mikils virði að fá reynslu af þessu fyrirkomulagi.

Þegar reglugerðin verður komin til fullra framkvæmda þurfa nemendur að þreyta samræmd próf í tveimur námsgreinum sem þeir ákveða sjálfir, en mega taka öll þrjú prófin. Má gera ráð fyrir að nemendur kjósi almennt að þreyta þau tvö próf sem eru í kjarna þeirrar námsbrautar sem þeir stunda nám á.

Lengi hefur verið gagnrýnt að einkunnir á stúdentsprófum í framhaldsskólum séu ekki sambærilegar og því er það í raun réttlætismál fyrir nemendur að fá að þreyta samræmd próf. Á þann hátt er mögulegt að leggja hlutlægt mat á frammistöðu þeirra, auk þess sem prófin gefa fræðsluyfirvöldum mikilvægar upplýsingar um skólakerfið og almennan námsárangur nemenda. Prófin geta einnig verið tæki fyrir kennara og skóla til að meta kennslu sína og skipuleggja starf sitt. Auk þess auðvelda prófin viðtökuskólum réttláta inntöku nemenda.

Við undirbúning reglugerðarinnar hafði menntmrn. samráð við helstu hagsmunaaðila, málþing og kynningarfundir voru haldnir, auk þess sem reglugerðardrögin voru send helstu hagsmunaaðilum til umsagnar sl. vor. Það voru m.a. Kennarasamband Íslands, Félag framhaldsskóla, skólameistarar og aðrir stjórnendur, starfsnefnd háskólastigsins, Félag framhaldsskólanema og Námsgagnastofnun.

Umsagnir bárust frá öllum nema Félagi framhaldsskólanema og var tekið tillit til ýmissa athugasemda sem fram komu. Bréf frá ráðuneytinu var sent öllum framhaldsskólum ásamt reglugerðinni í byrjun janúar 2003. Þar kom m.a. fram að prófdagur í íslensku árið 2004 yrði 8. janúar. Jafnframt var óskað eftir því að reglugerðin yrði kynnt nemendum og kennurum. Námsmatsstofnun mun halda kynningarfundi um samræmdu prófin með öllum framhaldsskólum á landinu og hefjast þessir fundir strax nú á vormissiri.

Menntmrn. hefur ákveðið að gera þá breytingu á reglugerðinni að ákvæði um lágmarkseinkunn á samræmdu stúdentsprófi verði fellt burt. Einnig mun koma skýrar fram en áður í reglugerðinni að nemendum sem útskrifast með stúdentspróf vorið 2004 og haustið 2004 sé ekki skylt að þreyta samræmt stúdentspróf í íslensku í janúar 2004.

Ég held að það sé líka gott fyrir þingmenn að huga að því hvernig þjóðir í Evrópu haga þessum málum, þ.e. hvort þær styðjast við próf í framhaldsskólum sem eru samin í skólunum sjálfum og eiga þar uppruna, eða hvort þessar þjóðir styðjast við utanaðkomandi mat á skólastarfinu. Og þegar það er skoðað kemur í ljós að það fyrirkomulag sem hér tíðkast á Íslandi, um að prófin séu yfirleitt samin innan skólanna, flokkast til undantekninga. Flestar þjóðir í Evrópu notast við utanaðkomandi mat á skólunum til þess að gera sér betur grein fyrir því hvernig til tekst með skólastarfið. Þetta er atriði sem ég held að sé rétt að hafa í huga við þessa umræðu.