Samræmd stúdentspróf

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 14:34:52 (4010)

2003-02-19 14:34:52# 128. lþ. 83.4 fundur 541. mál: #A samræmd stúdentspróf# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., KolH
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[14:34]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegur forseti. Auðvitað má gagnrýna menntmrn. fyrir eitt og annað í framkvæmd þessari við að koma á samræmdum stúdentsprófum. Það má t.d. nefna hversu langan tíma það hefur tekið frá stefnumörkuninni sem gerð var snemma á síðasta áratug og reyndar frá 1996 er nú liðinn dágóður tími frá því að þetta var lögfest. Gagnrýna má ráðuneytið fyrir það að málþingin sem hafa verið haldin um þetta mál, annað 1997 og hitt árið 2001, voru bæði lokuð. Og svo má gagnrýna ráðuneytið fyrir að reglugerðin var ekki send út fyrr en í lok maí eða byrjun júní eða við lok starfstíma skólanna.

En mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji í alvöru að miðstýring af þessu tagi sé ekki hættuleg auknu sjálfstæði skólanna, sem manni hefur nú fundist vera og er yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að eigi að auka, og hvort hann haldi að stöðluð próf af þessu tagi séu hluti af þeim framtíðarskóla sem mikið er talað um nú um stundir.