Samræmd stúdentspróf

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 14:36:10 (4011)

2003-02-19 14:36:10# 128. lþ. 83.4 fundur 541. mál: #A samræmd stúdentspróf# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., EMS
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[14:36]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Það er rétt hjá hæstv. menntmrh. að nokkuð er um liðið síðan sú ákvörðun lá fyrir að taka ætti upp samræmd stúdentspróf í framhaldsskólum. Það hins vegar eitt og sér réttlætir ekki þá ákvörðun. Hún hlýtur að vera jafnumdeild nú eins og hún var þegar hún var tekin. Og það er auðvitað eðlilegt að menn velti því fyrir sér hvort það sé forgangsmál nú um stundir að taka upp samræmd stúdentspróf í framhaldsskólum.

Þess vegna, herra forseti, er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. ráðherra hver sé áætlaður kostnaður við framkvæmdina af samræmdum stúdentsprófum. Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort þeim fjármunum sé ekki betur varið í skólakerfinu, sérstaklega í framhaldsskólunum. Því eins og þingheimur veit hefur verið mikil umræða um það undanfarin ár að þar sé verulegur fjárskortur.

Einnig er spurning hvort eðlilegt sé að það sé endilega afgreitt í framhaldsskólunum að koma á réttlátari inntöku í háskóla í landinu, hvort ekki sé eðlilegt að háskólarnir annist sjálfir það mat sem þeir vilja hafa á því sem nemendur þurfa að hafa lokið áður en þeir fá inngöngu í háskóla.