Sementsverksmiðjan hf.

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 14:53:13 (4019)

2003-02-19 14:53:13# 128. lþ. 83.5 fundur 554. mál: #A Sementsverksmiðjan hf# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[14:53]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Já, það eru vonbrigði að ég skuli ekki geta talað skýrar í þessu máli. Ég get raunar skilið að hv. þm. hefðu gjarnan viljað það. Ég vil þó halda því fram og endurtaka það sem ég sagði áðan, að við erum að vinna að málefnum verksmiðjunnar og í rauninni er það forgangsverkefni. Ég er alveg sammála því sem hefur komið hér fram að við höfum ekkert mikinn tíma og þess vegna er þetta mjög brýnt mál.

Ég vil taka undir það sem kom fram hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni, að áframhaldandi framboð á sementi er höfuðatriði. Það er grundvallaratriði að þarna verði áfram boðið upp á sement og að ekki verði einokun á markaðnum. Hvort fleiri aðilar komi að þessari verksmiðju, þá er það mál sem vissulega kemur til greina. Samkvæmt lögum er heimilt að selja 25%. Einnig mætti hugsa sér að auka þarna hlutafé. Ég ætla ekki að útiloka það heldur.

Ég vil bara fullvissa hv. þingmenn um það að þó að svör mín séu kannski rýr þá lít ég þetta mál mjög alvarlegum augum. Við erum að vinna að því í ráðuneytinu að leysa það.