Réttarstaða fólks í hjúskap og óvígðri sambúð

Miðvikudaginn 19. febrúar 2003, kl. 15:48:36 (4040)

2003-02-19 15:48:36# 128. lþ. 83.9 fundur 562. mál: #A réttarstaða fólks í hjúskap og óvígðri sambúð# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 128. lþ.

[15:48]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessar yfirgripsmiklu upplýsingar. Það var mikilvægt að skýrslan var unnin fyrir Alþingi.

Það er hárrétt sem hæstv. dómsmrh. bendir á, að opinber fjölskyldustefna var mjög alhliða samþykkt á Alþingi. En ég er einungis að spyrja um afmarkaðan þátt þeirrar samþykktar. Ég hef spurt um aðra þætti áður og mun halda því áfram því að það gengur mjög seint að hrinda þeirri samþykkt í framkvæmd.

Í nál. félmn. segir að nefndin vilji leggja áherslu á að upplýsingar og fræðsluefni um samanburð á réttarstöðu fólks í hjúskap og óvígðri sambúð þurfi að liggja fyrir --- ekki skýrsla, heldur upplýsingaefni.

Þegar ég spurði hæstv. þáv. dómsmrh. Þorstein Pálsson að því á sínum tíma, árið 1999, svaraði hann því til að unnið væri að samningu sérstakra upplýsingarita um réttaráhrif hjúskapar annars vegar og réttarstöðu karls og konu í óvígðri sambúð hins vegar. Hann sagði að í ritinu um réttarstöðu karls og konu í óvígðri sambúð yrði auk ítarlegrar umfjöllunar um réttarstöðu þeirra meðan sambúðin varir fjallað um réttarstöðu þeirra við slit á sambúð og við andlát sambúðarmaka.

Í því svari sagði, með leyfi forseti --- ég er að lesa útdrátt úr munnlegu svari hæstv. ráðherra:

,,Drög að þessum ritum liggja nú fyrir og verða þau gefin út þegar þau hafa verið fullunnin.``

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að þó yfirlitið sé ágætt hjá hæstv. dómsmrh. og það sé til sé skýrsla á neti Alþingis og víðar þá eru þessi upplýsingarit afar mikilvæg fyrir fólk, að upplýsingar liggi fyrir um stöðu þeirra.