Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 14:07:42 (4069)

2003-02-26 14:07:42# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[14:07]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst virðingarvert að Samfylkingin skuli tala skýrt í þessu máli. Ég er ósammála Samfylkingunni og sannast sagna hefði ég trúað því og vonast alla vega til þess að náttúruverndar- og umhverfissjónarmið væru sterkari innan Samfylkingarinnar en raun ber vitni, þannig að við hefðum í sameiningu getað staðið vaktina fyrir náttúruna og komið í veg fyrir að dýrmætum náttúruperlum yrði fórnað fyrir hagsmuni Alcoa-fyrirtækisins. Ég segi þetta vegna þess að ég trúi því að hagsmunir Íslendinga verði fyrir borð bornir. Það er fyrst og fremst Alcoa sem kemur til með að hagnast á þessu ævintýri.

Ég spyr hv. þm. og formann Samfylkingarinnar: Hvað finnst honum um þau sjónarmið sem fram hafa verið sett af hagfræðingum að þungaiðnaður sem þriðjungur af efnahagsstarfseminni í landinu, sem er framtíðarsýn Framsóknarflokksins og Samfylkingin hefur nú tekið undir, muni draga úr stöðugleika í efnahagslífinu þegar fram líða stundir? Ég vísa í grein sem birtist í Viðskiptablaðinu í desembermánuði árið 2001 þessu máli til stuðnings.