Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 15:25:28 (4087)

2003-02-26 15:25:28# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[15:25]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru peningar, segir hæstv. iðnrh., sem koma til baka í orkuverðinu. Þá vil ég fá svör við því, skýr og klár: Eru 3,2 milljarðarnir sem talið var að hefðu farið í undirbúning Fljótsdalsvirkjunar á sínum tíma, innifaldir í þeim undirbúningskostnaði sem Landsvirkjun leggur til grundvallar þegar hún verðleggur orkuna? Telur hæstv. ráðherra að við munum fá þá peninga til baka líka?

Og varðandi þau störf sem verða til í álverinu, hæstv. ráðherra segist ekki vera að setja krónu í þau. Auðvitað er verið að setja innlent fjármagn í framkvæmdina við Kárahnjúkavirkjun og auðvitað eru þessar tvær framkvæmdir, Kárahnjúkavirkjun og álverið, algjörlega spyrtar saman og ein heild og ekki hægt að greina þær neitt að eins og kemur fram í frv. þar sem Kárahnjúkavirkjun er gerð að beinni forsendu fyrir álverinu. Það er því auðvitað eðlilegt að spyrja: Er rétt að búa til störf á Austurlandi, sem verða svona dýr, með því að senda reikninginn í raun og veru á þjóðina, framtíðarþjóðina sem þarf að borga hann með orkunotkun sinni? Því auðvitað sjá allir sem kynna sér þá skýrslu sem hagfræðingarnir, sem ég tiltók áðan, hafa verið að kynna okkur að arðsemin af þessari framkvæmd er ekki mikil, hún er mínus og getur brugðið til beggja vona með kostnaðinn við Kárahnjúkavirkjun, þar sem t.d. almennur kostnaður við jarðgöng er á heimsvísu vanur að fara 30--50% fram úr áætlunum. Það er ekki reiknað með slíku varðandi framkvæmdina við Kárahnjúkavirkjun.

Varðandi upplýsingarnar sem ESA bað um til ráðuneytisins, og sem ráðuneytisstjórinn telur að varði við almannahagsmuni og muni valda tjóni ef ég fái að sjá þessar upplýsingar, þá hefur hæstv. ráðherra ekki svarað því hvert væri tjónið, og hverjir eru þessir gífurlegu almannahagsmunir sem verið er að verja.