Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 15:39:17 (4095)

2003-02-26 15:39:17# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[15:39]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki rétt sem hæstv. umhvrh. segir, að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð sé á móti Kyoto-bókuninni. Hitt er rétt að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur gagnrýnt framgöngu stjórnvalda hvað varðar íslenska ákvæðið svokallaða. Við höfum kallað það undanþáguákvæði. Ég get alveg skýrt það í einni setningu fyrir hæstv. umhvrh. hvers vegna Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er andsnúin þessu sérstaka undanþáguákvæði sem kallað er íslenska ákvæðið. Það er vegna þess að þetta ákvæði opnar leið fyrir stóriðju af því tagi sem Framsfl. hefur verið að leiða inn í landið og kemur til með að leiða inn í landið á næstu árum fái hann áfram að ráða.

Ég vék að því í máli mínu að útblásturinn frá stóriðjuverunum sem eru í farvatninu, stækkunarhugmyndum Ísals og stækkunarhugmyndum Norðuráls, yrði gífurlegur. Hann yrði jafnvel hærri en tölurnar sem verið er að blása út af brennisteini í Noregi og í Danmörku. Það er nákvæmlega af þessum ástæðum sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð gagnrýnir íslenska ákvæðið í Kyoto-bókuninni. Við viljum standa vörð um hreinleika þessa lands og lofthjúpsins yfir okkur. Við teljum að við eigum að nýta auðlindir á hálendi Íslands með því að vernda þær. Við teljum landnýtingu sem felst í vernd aldrei hafa komið á dagskrá hjá Framsfl. og auðvitað gagnrýnum við fyrst og fremst það.