Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 18:33:56 (4105)

2003-02-26 18:33:56# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[18:33]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Það er ekkert nýtt að heyra þau kankast á, fulltrúa Samfylkingarinnar og hæstv. iðnrh., hrósa hvert öðru í hástert fyrir þessar álversframkvæmdir sem þau vilja koma á koppinn. En það var fróðlegt að heyra fulltrúa Samfylkingarinnar segja að það hafi verið hið besta mál að losna við Norsk Hydro út úr dæminu því að ég man ekki betur en það hafi þótt ákjósanlegt meðan sá kostur var uppi. Það minnir okkur á það að við erum í rauninni aldrei búin að standa frammi fyrir fjárhagslega og efnahagslega uppgerðu máli af hálfu ríkisstjórnarinnar heldur einfaldlega pólitískri ákvörðun sem hún var staðráðin í að koma í gegn hvað sem tautaði og raulaði. Þetta hafa verið yfirlýsingar hæstv. iðnrh. alveg frá því að þetta ferli hófst og undir það hefur hv. þm. Einar Már Sigurðarson tekið öllum stundum.

Þetta er eitt mesta deilumál sem uppi hefur verið í íslensku þjóðfélagi í langan tíma. Þar vega að sjálfsögðu þyngst deilur um umhverfismál, þau gríðarlegu spjöll sem verða á náttúru landsins og þær deilur hafa skipt þjóðinni í tvær fylkingar. Við höfum lagt áherslu á að þjóðinni verði gefinn kostur á því að ganga að kjörborðinu og greiða atkvæði um þessar afdrifaríku ákvarðanir en enn sem komið er hefur því verið hafnað og að öllum líkindum mun ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn ekki breyta afstöðu sinni að því leyti þó að við munum að sjálfsögðu láta á það reyna.

Hv. þm. Einar Már Sigurðarson lét að því liggja að í rauninni væri þessi umræða til lítils vegna þess að málið væri þegar í höfn, þetta væri allt frágengið. Þá spyr maður sjálfan sig hvort það sé þá grín að leggja þetta frv. fyrir Alþingi sem er forsenda þessara framkvæmda. Það er ekki hægt að ráðast í þessar framkvæmdir án þess að Alþingi staðfesti frv. Það eru reyndar fleiri en við í þessum sal sem hafa uppi efasemdir. ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, hefur óskað eftir upplýsingum um samningana við Alcoa og við höfum krafist þess að Alþingi yrði upplýst um hvaða gögn hafa verið send til ESA. Ég hef tekið það upp í efh.- og viðskn. þingsins og óskað eftir því að fá gögnin þar á borðið en því hefur verið neitað nema við séum reiðubúin að undirgangast það að láta ekki uppskátt það sem okkur verður sagt um þessi efni. Í fyrramálið verður fundur í efh.- og viðskn. þar sem ég mun fara fram á að iðnrn. færi rök fyrir því að sveipa þetta mál leyndarhjúpi. Ég vil fá að vita og við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði viljum fá að vita hvað valdi því að það á að leyna þjóðina þessum upplýsingum. Um hvað er verið að fjalla? Verið er að fjalla um niðurgreiðslur og stuðning við álfyrirtækið Alcoa og við viljum fá að vita í hverju þessi stuðningur, sem ESA er hugsanlega að gera athugasemdir við, er fólginn. Er það losunarkostnaðurinn? Er það sá stuðningur sem við erum að veita álfyrirtækinu? Er það það sem ESA hefur efasemdir um? Eru efasemdir um að það samræmist markaðsreglum Evrópska efnahagssvæðisins að láta nánast ókeypis land undir þessar framkvæmdir? Það er niðurgreiðsla. Það er stuðningur við álfyrirtækið Alcoa að láta það fá ókeypis land undir mótorinn fyrir verksmiðjuna vegna þess að þessi virkjun, Kárahnjúkavirkjun, er reist til þess eins að knýja eina verksmiðju og hún á að fá landið ókeypis undir mótorinn. Það er hugsunin. Er það þetta sem ESA er með efasemdir um eða eru það hafnirnar, eru það vegagerð og hafnir? Telja menn það ekki samræmast markaðsreglum hins Evrópska efnahagssvæðis? Er það þessi stuðningur við Alcoa-fyrirtækið sem verið er að fetta fingur út í eða er það vaxtastuðningurinn, eru það niðurgreidd lán sem verið er að gera athugasemdir við? Ég veit það ekki. Hæstv. ráðherra neitar að upplýsa okkur um það í þingsal en krefst þess að verði eitthvað sett á borð fyrir alþingismenn, þá lofi þeir því, þá heiti þeir því að leyna þjóðina þeim upplýsingum. Nú getur það verið vissulega uppi í stöku tilvikum að eðlilegt sé að biðja þingnefndir um trúnað. Það getur verið eðlilegt undir sérstökum kringumstæðum að biðja um trúnað þó að ég hafi efasemdir um það í þessu máli sérstaklega. En sú hætta er fyrir hendi varðandi upplýsingar sem okkur eru kunnar að það gæti orðið erfitt að ræða þær opinskátt í opinni, lýðræðislegri umræðu ef við hefðum áður verið beðin um trúnað í þingefnd um þessar sömu upplýsingar þannig að við óttumst að þetta gæti verið hamlandi fyrir umræðuna.

Það var einhver sem sagði í umræðunni í dag að það væri illa komið þegar þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs væru farnir að hengja sig í ESA og hið Evrópska efnahagssvæði sem eins konar haldreipi í þessu máli, fólk sem margt hvert hafði og hefur ákveðnar efasemdir um samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði og það á vissulega við um sjálfan mig. En þá vil ég segja þetta að ástæðan fyrir því að við mörg hver gagnrýndum EES-samninginn á sínum tíma var að við værum að afsala okkur ákveðnu valdi til að ráða okkar málum sjálf. Út á það gekk gagnrýni okkar. Og það er þannig að ef maður gerir samning, það á við um einstaklinga og það á við um ríki, þá ber að sjálfsögðu að virða þann samning og nú viljum við einfaldlega fá að vita, út á hvað gengur þessi gagnrýni ESA? Getur komið til þess að við verðum skaðabótaskyld ef niðurstaða ESA kemur ekki innan fáeinna daga, ekki áður en samningar eru undirritaðir? Getur svo farið að við yrðum hreinlega skaðabótaskyld? Þarf þá að ganga frá verkinu? Þetta eru spurningar sem er ósvarað.

Það er margt athyglisvert sem fram hefur komið við umræðuna sem ég alla vega staldra við og það er hvernig meiri hluti virðist vera að myndast í þinginu fyrir stóriðjustefnu Framsfl. Ég heyri ekki betur en Samfylkingin sé að taka undir þá stefnu. Það stefnir í að þungaiðnaður verði meira en þriðjungurinn af efnahagsumsvifum þjóðarinnar innan fáeinna ára. Vilja menn þetta? Viljum við fara út á þá braut? Ég fæ ekki betur heyrt en formaður Samfylkingarinnar á góðum stundum hafi talað um nauðsyn þess að efla fjölbreytni í atvinnulífinu. En síðan kemur hann hér og tekur undir með formanni Framsfl. um að við eigum að gera þungaiðnað að kjölfestu í íslensku atvinnulífi. (Gripið fram í: Hvaða vitleysa er þetta.) Þetta er rétt, þetta er staðreynd og ég á eftir að fara mun nánar yfir það.

Það er annað sem ég vil líka gera athugasemdir við. Í áliti fulltrúa Samfylkingarinnar sem styður þessar framkvæmdir, t.d. þegar vikið er að ruðningsáhrifum svonefndum í atvinnulífinu af völdum stóriðjunnar, þá segja fulltrúar Samfylkingarinnar í iðnn., hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir og Bryndís Hlöðversdóttir, að hætt sé við því að atvinnustarfsemi sem hafi ekki eins mikla framleiðni og stóriðjan verði látin víkja. Ég held að dæmið snúist ekki um þetta. Dæmið snýst um það að fyrirtæki sem jafnvel hafa miklu meiri framleiðnimöguleika en stóriðjan þurfi að víkja vegna þess stuðnings sem ríki og sveitarfélög veita þessari atvinnustarfsemi. Það er þetta sem hagfræðingar hafa verið að benda á.

Síðan finnst mér að maður hljóti að vekja athygli á nálgun Samfylkingarinnar á málinu, ekki aðeins því sem sagt var fyrir fáeinum mánuðum og ég held lögð fram tillaga um, að þessar virkjunarframkvæmdir séu ákjósanleg umgjörð fyrir þjóðgarð. En hér er talað um annað, að hér sé einstakt tækifæri til byggðarannsókna, einstakt tækifæri sem okkur gefst til byggðarannsókna að fá hingað inn þennan risa frá Ameríku, Alcoa-fyrirtækið, sem reyndar er uppvíst að hrikalegri framkomu í garð verkamanna sem starfa í þriðja heiminum og reyndar í Bandaríkjunum einnig, hrikalegri framkomu, þeir hafa barist gegn því að verkamenn í fátækum ríkjum þar sem fyrirtækið hefur verksmiðjur fái að mynda verkalýðsfélög og gengið mjög hart fram í því efni. En þegar það kemur hingað til Íslands þá gefst einstakt tækifæri til byggðarannsókna.

[18:45]

Á þessu vildi ég vekja máls í upphafi, herra forseti, áður en ég vík að áliti 2. minni hluta efh.- og viðskn. þar sem ég á sæti en þetta mál fór fyrst og fremst til umfjöllunar í iðnn. þingsins sem síðan skaut því til umhvn. og efh.- og viðskn. eftir að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs höfðu sett fram kröfu um að svo yrði gert því náttúrlega átti að sópa málinu í gegnum þingið umræðulítið og helst án umræðu eins og hv. þm. Einar Már Sigurðarson lét í veðri vaka að hefði verið heppilegast í ræðu sinni áðan. Málið væri í rauninni frágengið, við þyrftum ekki að vera að eyða tíma okkar í það. Þess vegna ætlaði hann ekki að hafa um þetta langt mál.

Í umsögn 2. minni hluta efh.- og viðskn. er fyrst vikið að skattaívilnunum sem Alcoa-fyrirtækinu eru veittar. Gagnvart hinum erlenda eiganda álverksmiðjunnar er að finna undantekningar frá íslenskum skattalögum. Þannig er kveðið á um það að fyrirtækið greiði 18% tekjuskatt eins og önnur fyrirtæki í landinu og verði þetta tekjuskattshlutfall lækkað, þá skuli fyrirtækið njóta góðs af því. Verði tekjuskattshlutfallið hins vegar hækkað skal þetta tiltekna fyrirtæki undanþegið því að tekjuskattshlutfallið skal aldrei vera hærra en 18%. Með öðrum orðum er hér verið að setja þá reglu að Alcoa skuli greiða sama tekjuskatt og íslensk fyrirtæki gera, en fari svo á komandi árum að tekjuskatturinn verði hækkaður þá skal eitt vera tryggt með lögum, með samningum og lögum, og það er það lagafrv. sem liggur núna fyrir þinginu, að sú hækkun skuli ekki ná til Alcoa. Alcoa skal undanþegið. En Alcoa þarf að búa við rekstraröryggi kunna þá einhverjir að segja. En á það ekki við um önnur fyrirtæki? Á það ekki við um atvinnureksturinn almennt í landinu og á það ekki við um einstaklingana? Viljum við ekki vita nokkurn veginn að hverju við göngum í okkar kjörum þegar við tökum lán, þegar við kaupum húsnæði eða færum út kvíarnar í atvinnurekstri og tökum á herðar okkar fjárskuldbindingar? Vilja ekki allir búa við slíkt rekstraröryggi? Nei, Alcoa skal veitt undanþága að þessu leyti, ívilnun að þessu leyti sem öðrum atvinnufyrirtækjum á Íslandi er ekki veitt.

Varðandi heimild til að draga eftirstöðvar rekstrartapa frá skattskyldum tekjum skal hið sama gilda um þetta erlenda álfyrirtæki og um íslensk fyrirtæki, og hér vitna ég, með leyfi forseta, í frv.: ,,þó þannig að því skal ávallt heimilt að draga frá skattskyldum tekjum eftirstöðvar rekstrartapa síðustu níu almanaksára``. Ef árum verður fækkað, sem heimildin tekur til, mun það ekki gilda um Alcoa. Varðandi heimildir til skattfrádráttar eru þannig einnig ívilnandi ákvæði. Þarna eru því komin tvö dæmi þess að Alcoa er undanþegið óvissuþáttum sem annar atvinnurekstur í landinu þarf að búa við.

Hinn erlendi eignaraðili kemur til með að greiða 5% skatt af þeim hagnaði sem rennur úr landi. Það mun vera í samræmi við tvísköttunarsamninga sem Ísland á aðild að. Þess má geta að skattlagning á hagnað fyrirtækja í Bandaríkjunum er mun hærri en hér á landi eða 35%. Þannig er ljóst að hagnaðurinn af stóriðjufyrirtækinu verður fyrst og fremst skattlagður í móðurlandinu.

Í efh.- og viðskn. þingsins kom fram að ekki hefur farið fram á því könnun hvernig skattlagningu almennt er háttað í frumframleiðsluríkjum bandarískra auðhringa. Menn hafa ekkert grafist fyrir um það hvernig skattlagningu á fyrirtækjum á borð við Alcoa er farið í þeim ríkjum þar sem þau eru, hvorki í Evrópu, Bandaríkjunum né annars staðar í heiminum. Staðreyndin er sú að þessi fyrirtæki eru að leita frá Bandaríkjunum og frá Evrópu bæði vegna mjög hás raforkuverðs en einnig vegna skattlagningar, þau eru að leita inn á svæði þar sem skattar eru lægri.

Álfélaginu og eigendum þess er heimilaður skattfrádráttur í samræmi við 31. gr. laga nr. 75/1981, og hér vitna ég í frv., með leyfi forseta: ,,eins og sú grein hljóðar á samningsdegi, á upphafstímabili samningsins``. Aftur hér fær fyrirtækið skuldbindingu um að það verði undanþegið hvers kyns íþyngjandi ákvæðum sem kynnu að verða sett í lög síðar. Það sem hins vegar er umhugsunarvert í þessu efni er sá háttur sem fjölþjóðleg fyrirtæki eru sögð tíðka að skjóta sér undan sköttum með því að skilgreina arðinn sem vaxtagreiðslur af eigin fjárfestingu. Flókið samspil dótturfyrirtækja sem kaupa og selja hvert af öðru og veita lánafyrirgreiðslu er vel þekkt leið til undanskots frá sköttum. Strangar fyrirbyggjandi reglur hvað þetta snertir hafa sums staðar fælt fjölþjóðleg fyrirtæki frá fjárfestingum. Ekkert virðist hafa komið upp á hér á landi sem Alcoa teldi líklegt til að spilla samningsferlinu að þessu leyti.

Með öðrum orðum, það virðist engin könnun hafa farið fram á skattalegu umhverfi stóriðjufyrirtækja á borð við Alcoa þótt eftir því væri gengið í efh.- og viðskn. og lagt til að slík athugun yrði gerð en þetta er staðreynd sem ég hef vikið að, að þessi fjölþjóðlegu fyrirtæki koma sér hjá því að greiða skatta í frumframleiðsluríkjunum annars vegar með því að mynda mörg dótturfyrirtæki sem lána hvert öðru og í stað þess að taka hagnaðinn út eru þau stöðugt að greiða hvert öðru vexti af lánum sem telst til kostnaðar fyrirtækjanna. Síðan eru margvíslegar millifærslur á milli dótturfyrirtækjanna sem eru þess valdandi að fyrirtækin komast hjá því að greiða skatta.

Að ýmsu leyti er skattlagningu á álfyrirtækinu öðruvísi háttað en hjá íslenskum fyrirtækjum og hefði verið æskilegt að fyrir lægi nákvæmt mat á þessum mismun. Stuðningur við erlend stóriðjufyrirtæki með skattaívilnunum hefur verið verulegur í tímans rás og má nefna að Eftirlitsstofnun EFTA hefur metið skattaívilnanir til Norðuráls sem beina styrki. Og í greinargerðinni sem fylgir umsögn 2. minni hluta efh.- og viðskn. er vitnað í plagg frá Eftirlitsstofnun EFTA hvað þetta snertir.

Samkvæmt frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að skattar eða gjöld verði lögð á raforkunotkun félagsins eða losun á lofttegundum eða öðrum úrgangsefnum. Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a. um þetta efni, með leyfi forseta: ,,Hvað varðar skatta og gjöld vegna losunar lofttegunda eða annarra úrgangsefna þá gerir fyrirliggjandi stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum ekki ráð fyrir því að slíkir skattar eða gjöld verði lögð á gróðurhúsalofttegundir.`` Síðan er klykkt út, með leyfi forseta:

,,Af hálfu viðsemjenda ríkisstjórnarinnar er talið mikilvægt að jafnræðis sé gætt við álagningu slíkra skatta eða gjalda ef til þess kemur.``

Við þessum tilmælum varð ríkisstjórnin því að í sjálfum frumvarpstextanum segir, með leyfi forseta: ,,að skattar eða gjöld verði ekki lögð á raforkunotkun félagsins og útblástur lofttegunda eða aðra losun úrgangsefna, nema slíkir skattar og gjöld séu lögð með almennum hætti á öll önnur fyrirtæki hér á landi, þar með talin álfyrirtæki.``

Víða erlendis fer fram umræða þess efnis að leggja beri sérstakan skatt á mengandi stóriðjufyrirtæki en með þessu lagaákvæði yrði Alcoa undanþegið slíkri skattlagningu. Þá aðeins yrði heimilt að skattleggja þetta fyrirtæki í samræmi við þá umhverfisstefnu sem kynni að verða ofan á í framtíðinni að öll önnur fyrirtæki hér á landi yrðu látin greiða samsvarandi skatt.

Þarna teljum við að ríkisstjórnin sé að gera mjög afdrifarík mistök. Þarna er ríkisstjórnin á engan hátt í takt við tímann eins og hér hefur verið rakið.

Ríkisskattstjóri gerir í álitsgerð sinni athugasemdir við ónákvæmni í textagerð frumvarpsins. Reyndar er margt ónákvæmt í þessu máli öllu eins og við höfum margoft komið inn á. Að öðru leyti er rétt að staðnæmast við þá ábendingu skattyfirvalda að þau frávik sem gerð eru frá almennum skattalögum eru talin óæskileg, og þá vísa ég í þær undantekningar sem ég hef vikið að. Um þetta segir í bréfi ríkisskattstjóra til efnahags- og viðskiptanefndar, með leyfi forseta: ,,Frá sjónarhóli skattframkvæmdar má almennt segja að óæskilegt sé að láta sérreglur gilda um tiltekna skattaðila, en með hliðsjón af því hvernig þetta mál er vaxið þykir ekki ástæða til að gera það að sérstöku umfjöllunarefni að öðru leyti.`` Samningurinn við Alcoa byggist á þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að veita frávik frá almennum skattalögum. Ég ítreka þessa afstöðu ríkisskattstjóra sem telur að slík frávik séu óæskileg. Í ljósi þessa er rétt að leggja áherslu á eftirfarandi sem ég hef hér vikið að:

1. Það vantar heildstætt mat á frávikum frá venjulegum skattareglum.

2. Ákvæði um að ekki megi hækka tekjuskatt er vafasamt og setur slæmt fordæmi.

3. Takmarkanir á umhverfisskatta eru mjög vafasamar. Mjög erfitt er að setja CO2-skatt á alla notendur. Hins vegar mun myndast markaður með CO2-kvóta ef hann verður almennur. Hér er um verulega ívilnun að ræða og er fráleitt að samþykkja að ekki megi setja mengunargjald á stórnotendur CO2-kvóta.

[19:00]

Á fundi efh.- og viðskn. mánudaginn 10. febrúar sl. komu fram mjög miklar efasemdir um þær forsendur sem lagðar eru til grundvallar arðsemismati virkjanaframkvæmdanna. Þorsteinn Siglaugsson hagfræðingur sem var í hópi þeirra sem sóttu þennan fund greindi frá mjög ítarlegri skýrslu um samanburð á kostnaðaráætlunum og endanlegum niðurstöðum í sambærilegum framkvæmdum erlendis. Ég vil vísa í samanburðartöflu sem er birt með umsögn 2. minni hluta efh.- og viðskn. sem Þorsteinn tók saman og byggir á þessari erlendu samanburðarskýrslu sem Bent Flyvbjerg er skrifaður fyrir og heitir: Underestimating Costs in Public Works Projects. Það er byggt einnig á svörum Landsvirkjunar og borgarhagfræðings við fyrirspurn sem fram hefur komið í stjórnsýslu Reykjavíkurborgar.

Á fundi efh.- og viðskn. hinn 13. febr. sl. bar ég upp þá tillögu að fenginn yrði óháður aðili til að gera sjálfstæða rannsókn á þeirri áhættu sem fylgdi þessum stóriðjuáformum. Slíkur aðili skyldi meta líkur á mögulegum umframkostnaði við Kárahnjúkavirkjun. Í því sambandi var vísað í framangreindar kannanir og röksemdafærslu sem m.a. hafði komið fram hjá Sveini Aðalsteinssyni viðskiptafræðingi og mjög misvísandi upplýsingar sem fram höfðu komið frá framkvæmdaraðilum auk þess sem ýmsum spurningum hefur ekki verið svarað.

Tillaga um óháða könnun var borin undir atkvæði og var fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs einn um að styðja hana. Fulltrúar annarra flokka í nefndinni sáu með öðrum orðum ekki ástæðu til að styðja tillögu þess efnis að gerð yrði sjálfstæð rannsókn á þeirri áhættu sem fylgdi þessum stóriðjuáformum.

Ég vek athygli á því að við umræðuna hér í dag hafa menn vísað aftur og ítrekað í hina traustu útreikninga og niðurstöður Landsvirkjunar og það hafa verið fengnir aðskiljanlegir aðilar til þess að fara yfir þessa útreikninga. En þá vill eitt gleymast. Það eru sjálfar forsendurnar sem byggt er á. Það eitt hafa hinir óháðu aðilar verið að gera að skoða hvernig útreikningarnir eru framkvæmdir, útreikningarnir sem hvíla á þessum forsendum. Það eru forsendurnar sjálfar sem eru hins vegar umdeildar og umdeilanlegar. Hverjar eru þær? Hvað ræður því hvort þessi framkvæmd verður arðbær eða ekki? Hvað ræður því?

Það er aðallega tvennt: Hver er stofnkostnaðurinn? Hvað kostar að reisa virkjunina? Og í öðru lagi: Hvað fáum við fyrir okkar afurð, fyrir raforkuna? Þetta eru þeir tveir þættir sem ráða því hvort framkvæmdin verður arðsöm eða ekki, þ.e. hvað kostar að reisa mótorinn og á hvaða kjörum við fáum lánin sem við þurfum að taka til að ráðast í framkvæmdina og hvað við síðan fáum fyrir raforkuna.

Þessir þættir báðir eru háðir geysilegri óvissu og samanburðarskýrslan sem ég vísaði í, sem Þorsteinn Siglaugsson hagfræðingur lagði fyrir nefndina og er byggð á rannsóknarvinnu Bents Flyvbjergs og síðan svörum frá Landsvirkjun og innlendum aðilum, sú tafla sem hann lagði fram sýnir fram á að áhættuþátturinn er vanmetinn af hálfu Landsvirkjunar. Hann er stórlega vanmetinn.

Við óskuðum þess vegna eftir því í ljósi þessara nýju upplýsinga og þessara upplýsinga að fenginn yrði óháður aðili til að fara yfir málið. Því var hafnað. Við vorum ein um það, fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í efh.- og viðskn., að greiða þeirri tillögu atkvæði að málið yrði kannað af óháðum aðila.

Í kjölfarið sendi þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs út fréttatilkynningu þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

,,Á fundum efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis um stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi hefur komið fram að mat Landsvirkjunar á líkum á umframkostnaði við Kárahnjúkavirkjun er grundvallað á afar veikum forsendum. Ekkert tillit er tekið til reynslu af alþjóðlegum verkefnum af sambærilegri stærð.

Samkvæmt alþjóðlegri rannsókn á 258 stórverkefnum af svipuðum toga og Kárahnjúkavirkjun er, fara jarðganga- og brúarverkefni að meðaltali um 33% fram úr upphaflegri kostnaðaráætlun. Samkvæmt annarri alþjóðlegri rannsókn á stíflugerðarverkefnum fara þau að meðaltali 56% fram úr áætlun. Samkvæmt þessu væri eðlilegast gera ráð fyrir að endanlegur kostnaður við Kárahnjúkavirkjun gæti orðið að minnsta kosti 130 milljarðar króna í stað tæplega 100 milljarða eins og nú er ráð fyrir gert. Þetta hefði það í för með sér að tekjur af virkjuninni stæðu ekki undir vaxtagreiðslum, heldur þyrftu eigendur að greiða beint með henni, eða ná tapinu til baka með hærra orkuverði til almennings og fyrirtækja. Slíkt stæðist ekki lög.

Landsvirkjun gerir hins vegar ráð fyrir að afar litlar líkur séu á að verkefnið fari fram úr kostnaðaráætlun. Sú forsenda byggist á reynslu af fimm litlum verkefnum á tímabilinu 1996--2001. Í matsskýrslu Sumitomo Mitsui sem lögð er til grundvallar því áliti að verkefnið sé arðbært segir hins vegar um þetta efni að áhættumatið sé byggt á öllum fyrri verkefnum Landsvirkjunar, ,,.. the previous construction projects of Landsvirkjun``. Að meðaltali eru þessi verkefni aðeins 6% af stærð Kárahnjúkavirkjunar og mun einfaldari. Ekkert tillit er tekið til reynslunnar af stórvirkjunum á borð við Búrfell, Sigöldu, Kröflu eða Blönduvirkjun og engin athugun hefur farið fram á sambærilegum verkefnum erlendis.

Því er ljóst að áhættumat Landsvirkjunar er byggt á afar veikum grunni. Það hlýtur að vera grundvallarforsenda fyrir því að ráðist verði í verkefnið, að trúverðug athugun á reynslu af sambærilegum verkefnum fari fram.``

Þetta sagði í ályktun sem þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sendi frá sér.

Það vekur sérstaka athygli, að svo virðist sem Sumitomo gangi út frá því, að listi yfir fimm tiltölulega smáar framkvæmdir sé tæmandi yfir allar framkvæmdir Landsvirkjunar.

Í þessu samhengi er jafnframt rétt að vekja athygli á svörum Landsvirkjunar varðandi misræmi í kostnaðartölum á milli umræddrar skýrslu og ársskýrslu Landsvirkjunar fyrir 2001. Í svari við fyrirspurn borgarfulltrúa um þetta misræmi er einu svarað um viðmiðunargengi varðandi þessar tölur, en öðru þegar undirritaður spyr --- og ég birti fylgigögn með minnihlutaálitinu. Í svarinu til borgarfulltrúa sem birt er 14. janúar sl. segir, með leyfi forseta:

,,Nokkur umræða hefur verið um meint ósamræmi á milli framsetningar á stofnkostnaði í ársskýrslu Landsvirkjunar 2001 annars vegar og skýrslu Sumitomo Mitsui Banking Corporation hins vegar. Hefur því verið haldið fram að í ársskýrslunni sé stofnkostnaður framkvæmda vegna sölu til Reyðaráls áætlaður 118 milljarðar króna á meðan sami kostnaður sé talinn 102 milljarðar króna í skýrslu Sumitomo.``

Síðan segja þeir að þarna sé um misskilning að ræða. Engu að síður, eins og fram kemur í gögnum sem ég birti með álitinu, er öðru haldið fram í svari til mín.

Ég ætla ekki að lesa upp þessi mismunandi svör. En mér finnst það vera mjög alvarlegt mál ef Landsvirkjun hefur gefið bankanum sem á að meta útreikninga Landsvirkjunar misvísandi upplýsingar. Ég hef kallað eftir því að Landsvirkjun geri rækilega grein fyrir því misræmi sem fram kemur í þeim svörum sem hafa verið veitt, annars vegar mér og hins vegar inn í borgarkerfið.

Hvað hafa menn verið að deila um í borginni? Það vakti mikla athygli þegar fulltrúar Sjálfstfl., Framsfl. og einhverjir fulltrúar Samfylkingar þar greiddu því atkvæði að borgin gengist í ábyrgð fyrir þessa samninga. Þar voru menn fyrst og fremst að deila um það eða ræða hvort líkur væru á því að bókhaldslegt tap yrði á framkvæmdinni, þ.e. hverjar líkurnar væru á því að hreint tap yrði af framkvæmdinni, að við ættum ekki fyrir skuldunum, að við fengjum ekki nægilegt verð fyrir orkuna til þess að greiða skuldirnar, vexti og afborganir af lánunum. Í þessari margfrægu eigendaskýrslu töldu þeir sérfræðingar sem fóru þar í saumana á málum að ekki væru miklar líkur á þessu. Það töldu þeir. Hins vegar þótti mér mjög undarlegt ósamræmi á milli niðurstaðna og þess sem sagt var í skýrslunni sjálfri, því að þar kom fram að ef stofnkostnaðurinn yrði hækkaður, ef hann hækkaði af ófyrirsjáanlegum ástæðum, segjum um 30%, þá væri öll framkvæmdin komin í bullandi mínus, þá væri orðið bókhaldslegt tap á framkvæmdinni. Engu að síður sögðu þeir í niðurstöðum sínum að þeir teldu að ekki yrði mikil hætta á því að reyna þyrfti á þessa ábyrgð eignaraðilanna. Þeir töldu svo ekki vera.

Um þetta snýst þessi deila. Hún snýst um það hvort við eigum fyrir skuldunum. Hins vegar snýst hún um hitt, þ.e. að þeir sem telja að ekki verði bókhaldslegt tap á þessu eru engu að síður margir á þeirri skoðun að þetta verði ekki arðsöm framkvæmd, að arðsamara væri að beina fjárfestingum inn á allt aðrar brautir.

Í áliti mínu, 2. minni hluta efh.- og viðskn., vík ég að niðurgreiðslu framkvæmdanna, opinberri niðurgreiðslu. Á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar er sem kunnugt er einkavæðing almannaþjónustunnar og þar með stoðkerfa samfélagsins. Á öllum sviðum er verið að búa í haginn fyrir einkavæðingu. Í lok síðasta árs var veitt lagaheimild til að hlutafélagavæða Norðurorku og fyrir þinginu liggur frumvarp um heimildir til sveitarfélaga að breyta vatnsveitum í hlutafélög. Í þessu ljósi hafa menn metið fyrirhugaðar framkvæmdir og aðkomu Landsvirkjunar og borið saman aðkomu fyrirtækis í almannaeign og hins vegar ef um engan stuðning væri að ræða af hálfu hins opinbera.

Ég vil vekja athygli á því að í raforkulagafrv. sem liggur núna fyrir þinginu er talað um það alveg hreint út að breytingar sem eru fyrirhugaðar hér í raforkumálum hafi það fyrst og fremst að markmiði að markaðsvæða allan þennan geira. Þá fara menn að spyrja út í þann stuðning sem Landsvirkjun hafi nú og bera saman aðkomu fyrirtækis í almannaeign og hins vegar ef um engan stuðning væri að ræða hjá hinu opinbera.

Landsvirkjun greiðir ekki skatta og nýtur ríkisábyrgðar af lánum, og getur því boðið upp á ódýrari raforku en ella.

Rask á landi er ekki metið til fjár og landið er látið stóriðjuverkefninu ókeypis í té, sem telja verður fráleitt í ljósi sívaxandi gildis óspjallaðrar náttúru sem framtíðarauðlindar. Hér er ekki vísað til lands sem fasteignar í hefðbundnum skilningi heldur öllu fremur landslags sem ekki er á fasteignamarkaði, en er verðmætt í augum margra. Enginn vafi leikur á að aðrir landnýtingarmöguleikar en virkjun í þágu stóriðju eru fyrir hendi sem lúta að ferðaþjónustu. Óspjallað land verður sífellt verðmætara og sjaldgæfara í Evrópu. Fáir staðir eru aðgengilegri frá meginlandi Evrópu fyrir ferðamenn sem vilja sjá óbyggðir en Ísland.

[19:15]

Að engu leyti er hugað að umhverfiskostnaði, losunarsköttum eða kostnaði við landið. Varðandi aðra landnýtingarmöguleika má m.a. benda á að athugun Nele Lienhoop, nema í umhverfisfræðum í Skotlandi, sýnir að Íslendingar væru tilbúnir að greiða um 400 millj. kr. á ári í auknum sköttum fyrir að eiga svæðið norðan Vatnajökuls sem þjóðgarð. Hún beitti spurningakönnun, skilyrtu verðmætamati sem svo er nefnt. Þetta er meistaraprófsverkefni sem ítarlega var greint frá í fjölmiðlum sumarið 2001. Viðhorf af þessum toga eru mjög að festast í sessi og gera meira vart við sig.

Hvorki Landsvirkjun né stjórnvöld hafa gert neina athugun á raunverulegu virði þess ríkisstyrks sem felst í niðurgreiddum vöxtum. Samkvæmt leiðbeiningum norska fjármálaráðuneytisins ber að gera kröfu um 4,5 prósentustiga álag á ríkistryggða vexti þegar um virkjanaframkvæmdir er að ræða þar í landi. Tæpast þarf um það að deila að áhætta við byggingu og rekstur Kárahnjúkavirkjunar er a.m.k. jafnmikil og við byggingu og rekstur álvers.

Friðrik Már Baldursson sagði í erindi sem hét Náttúran, stóriðja og nýskipan raforkumála sem flutt var á ráðstefnu viðskipta- og hagfræðideildar í október 2001, með leyfi forseta:

,,Í áhættunni felst kostnaður sem taka verður með í reikninginn. Samningar um raforkuverð til stóriðju tengja t.d. yfirleitt raforkuverðið hlutfallslega við markaðsverð á áli. Það þýðir að tekjuáhætta í virkjun fyrir álver er ákaflega svipuð og í álverinu sjálfu.``

Sá helmingsmunur sem er á ávöxtunarkröfu til álvera og kröfu Landsvirkjunar til fjárfestingar í Kárahnjúkavirkjun hlýtur að túlkast sem beinn ríkisstyrkur. Sá styrkur nemur a.m.k. um 3--4 milljörðum kr. á ári. Skattfrelsi, ókeypis land og lánsábyrgð er ekki metið til fjár né tap annarrar nýtingar vegna ferðamanna. Þessi sérstaða skekkir samkeppnisstöðu Landsvirkjunar gagnvart öðrum atvinnurekstri og gefur villandi upplýsingar um arðsemi og fórnarkostnað framkvæmda Landsvirkjunar. Styrkinn sem felst í lánsábyrgðum má meta sem muninn á vaxtagreiðslum á lánum vegna virkjunarinnar með og án ábyrgða.

Fram kom í máli fjármálastjóra Landsvirkjunar á orkuþingi Samorku haustið 2001 að fyrirtækið hefði kannað hvaða vexti þyrfti að greiða af lánum vegna Kárahnjúkavirkjunar ef hún nyti ekki opinberra ábyrgða. Fram kom að vextirnir mundu hækka mikið frá því sem nú er en engin tala hefur þó heyrst í því sambandi. Stjórnvöld hafa ekki lagt fram yfirlit um fjárhæð skattastyrkja vegna Kárahnjúkavirkjunar og Fjarðaáls. Þau hafa ekki lagt fram fjárhagslegt mat á stuðningnum sem felst í opinberum lánsábyrgðum. Þau hafa ekki heldur metið landið sem spillist við virkjunina til fjár. Meðan þær liggja ekki fyrir geta landsmenn ekki tekið upplýsta afstöðu til mestu framkvæmdar í sögu sinni.

Hvað er verið að segja? Í raun er ljóst að ef stefna ríkisstjórnarinnar um markaðsvæðingu og einkavæðingu raforkugeirans hefði náð fram að ganga væri stuðningurinn sem hér hefur verið tilgreindur ekki fyrir hendi. Framkvæmdin væri þess vegna þeim mun óhagkvæmari fyrir kaupanda orkunnar. Framkvæmdin hefði orðið dýrari sem þessu nemur. Ef fyrirtækið væri komið á markað hefði ekki verið ráðist í þessa framkvæmd vegna þess að hún hefði verið talin óarðbær. Hún gengi ekki upp á markaði. Ég var að gagnrýna þetta í upphafi máls míns í minnihlutaáliti Samfylkingarinnar þar sem segir að fyrirtækjum sem eru óarðbærari, hafa minni arðsemi en virkjunarframkvæmdin yrði rutt til hliðar, þ.e. sú hætta væri fyrir hendi.

Ég er að segja: Það er hætta á því að atvinnurekstri sem er arðbærari en stóriðjuframkvæmdin verði rutt til hliðar, að arðbærari atvinnurekstri verði rutt til hliðar af þessari framkvæmd sem er óarðbær fyrir íslenska þjóð. Álfyrirtækið kemur náttúrlega til með að mala gull. Það hefur aldrei komist í annað eins og Framsfl. á Íslandi. Það er slíkur happafengur að hafa fundið þennan flokk sem lýsir því yfir í ræðu og riti að það sé mikið traust á Íslendingum sem Alcoa sýni að koma hingað. Það er vegna þess að við erum að láta þetta fyrirtæki fá raforku á útsöluprís. Þeir hafa aldrei séð annað eins. Þeir eru að pakka saman heima fyrir, draga saman seglin þar, loka verksmiðjum til að flytja starfsemi sína hingað þar sem sköttum er haldið í lágmarki og raforkan er á útsöluprís. Hún er svo ódýr að það er ekki þorandi að segja þjóðinni frá því.

Það er ekki þorandi að segja almennum raforkukaupendum á Íslandi frá því hver gjafaprísinn er til erlenda álfyrirtækisins. Umræðan hér á Alþingi og í þjóðfélaginu snýst um spurninguna: Eigum við fyrir skuldunum? Verður bókhaldslegt tap á framkvæmdinni eða ekki? Mun ábyrgðin falla á eignaraðilana, Reykjavíkurborg, Akureyri og ríkið? Eða sleppum við? Síðan leyfa menn sér að koma í ræðustól á Alþingi og segja að það sé þess virði að fórna einhverjum vermætustu náttúruperlum landsins og veraldarinnar vegna þess að efnahagslegur ávinningur sé svo mikill. Um leið eru menn að deila um það hvort okkur muni takast að skrapa upp í skuldirnar, upp í afborganir af lánum sem eru nauðsynleg til að ráðast í þessar framkvæmdir. Þetta eru mótsagnirnar í umræðunni.

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill spyrja hv. þm. hvort hann hyggist ljúka ræðu sinni innan fimm mínútna.)

Það mun ég ekki gera.

(Forseti (ÁSJ): Þá vill forseti biðja hv. þm. um að gera hlé á ræðu sinni þegar vel stendur á.)

Það er sjálfsagt að gera hlé á ræðu minni núna.