Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 26. febrúar 2003, kl. 23:59:41 (4130)

2003-02-26 23:59:41# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[23:59]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég spurði bara einfaldrar spurningar --- umburðarlyndi, víðsýni, smáflokkar eða annað slíkt, við verðum að hafa á bak við eyrað hvað hv. þm. vill ræða af því.

Ég spurði bara einfaldrar spurningar. Ég þakka hv. þm. að vera hér viðstaddur og skal endurtaka þá spurningu. Ég lýsti því einfaldlega að hv. þm. sat í ríkisstjórn árið 1991 sem landbrh. og samgrh., þá var hann stuðningsmaður byggingar álvers en barðist fyrir því að álver yrði ekki byggt á Keilisnesi heldur austur á landi, á landsbyggðinni.

Ég þakka hv. þm. fyrir að hafa haft þá skoðun á sínum tíma. Ég hefði gert nákvæmlega það sama. Ég sagði reyndar í ræðu að ég væri sennilega að berjast gegn byggingu álvers ef byggja ætti það hér á höfuðborgarsvæðinu og sporðreisa þjóðfélagið enn þá meira.

En ég vil nota tækifærið og spyrja hv. þm.: Hvað hefur breyst í afstöðu hans á þessum tíu árum sem liðin eru frá því að hann var stuðningsmaður byggingar álvers fyrir austan en ekki á Keilisnesi? Nú er verið að tala um að byggja álver á Reyðarfirði. Hvað hefur breyst?