2003-02-27 00:01:00# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[24:01]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er mjög algeng aðferð í rökræðum hjá mönnum sem treysta sér illa í rökræðuna sjálfa að nota þá aðferð að gera andstæðingum sínum upp skoðanir, skálda til um framgang mála, sérstaklega ef þeir taka til sögulegra tilvitnana, og ræða svo hlutina út frá því. Þá er bara ekki hægt að rökræða við menn. Það er ekki hægt að rökræða við hv. þm. Kristján Möller um pólitíska sögulega atburði þegar hann fer jafngróflega rangt með hlutina og hann var margber af að gera hér áðan og væri auðvelt að sanna í lengra máli, t.d. um þær aðstæður sem uppi voru varðandi stóriðjubrölt Jóns Sigurðssonar og félaga í Alþýðuflokknum á sínum tíma. Það skal ég gera við betra tækifæri.

Ég hef gaman af að takast á við pólitíska andstæðinga eða keppinauta ef umræðan byggir á rökum og er uppbyggileg, hvort sem það eru í sjálfu sér beinir pólitískir andstæðingar eða einhver sem mann greinir á um skoðanir við í tilteknu máli, þó samherjar séu að öðru leyti í pólitík, eins og við eigum víst að heita að sumu leyti, ég og hv. þm. Kristján Möller, því að báðir erum við í stjórnarandstöðu og á leið saman í framboð í nýju kjördæmi. En stundum þarf maður nú ekki á andstæðingum að halda.