2003-02-27 01:13:15# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[25:13]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Sem betur fer eru nokkur sterk sjávarútvegsfyrirtæki á Austurlandi en kvótinn hefur verið að færast til, m.a. með samruna fyrirtækja, trillurnar hafa þurrkast út og mikið óöryggi ríkir á Austurlandi sem annars staðar við sjávarsíðuna. Fólk veit ekki hvort það heldur þeim kvóta sem það hefur í dag, hvort það hefur hann á morgun. Þó að fyrirtækin séu öflug hefur störfum hjá þessum stóru fyrirtækjum fækkað og það þarf að efla aftur smábátaflotann, bátaflotann og koma landvinnslunni aftur í gang.

Hvað varðar uppbyggingu fyrirtækja að frumkvæði heimamanna vantar ekki að Austfirðingar hafi hugmyndir um nýsköpun og fyrirtækjarekstur. En það er hjá þeim eins og öðrum, að það er erfitt að fá til þess stuðning. Það er erfitt að fá lánsfé og styrk til að koma fyrirtækjum á laggirnar. Það má nefna mörg slík fyrirtæki og er mjög auðvelt að fá þessar upplýsingar hjá atvinnuþróunarfélögunum.

Það er ekki hlutverk okkar stjórnmálamannanna að koma með eitt stykki fyrirtæki. Við eigum að stuðla að því að þeir sem hafa vilja og getu til að koma af stað rekstri hafi möguleika til þess. Það er okkar hlutverk.