2003-02-27 01:15:13# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[25:15]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að kvóti hefur auðvitað verið að færast til á þessu landsvæði eins og öðrum. Trillur hafa verið að detta út eins og hún orðaði það og störfum að fækka hjá stórum fyrirtækjum, það er hárrétt, það er að gerast alls staðar. Það hefur náttúrlega verið gríðarleg tæknivæðing í þessari grein, sem betur fer, og gerir það kannski að verkum að þau fyrirtæki eru sterk og öflug vegna þess að þau hafa verið að hagræða og tæknivæða sig. Það er alls staðar að gerast. Að efla þurfi smábátaflotann er auðvitað mál heimamanna. Það hafa menn verið að gera í öðrum landshlutum. Og eins og hv. þm. sagði er það ekki okkar stjórnmálamannanna að koma með þetta, heimamenn eiga auðvitað sjálfir að hafa frumkvæði að því.

En ég kom því ekki að í fyrra andsvari mínu að mig langaði að spyrja hv. þm. út í eitt sem hún sagði í ræðu sinni. Hún vitnaði í hinn öfluga stuðning Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi við þetta álver og Kárahnjúkavirkjun og sagði eitthvað á þá leið að það væri stuðningur við Framsfl. og nefndi í því sambandi hæstv. umhvrh., iðnrh. og Halldór Ásgrímsson utanrrh. Mig langaði að biðja hv. þm. að útskýra það aðeins nánar hvað hún átti við með þeim orðum. Ég minni á það í leiðinni að sveitarstjórn Fjarðabyggðar hefur verið gríðarlega öflug í stuðningi við þetta verkefni og minni á það líka að hennar menn hafa ráðið ríkjum á Norðfirði í gegnum tíðina, í Neskaupstað, og reyndar verið í forustu í þessu nýja sameinaða sveitarfélagi, Fjarðabyggð. Þeir hafa verið alveg rosalega öflugir í stuðningi við þetta verkefni og sótt það af miklum krafti. Ég man ekki betur en að þar séu alveg löðrandi vinstri menn í forustu.