2003-02-27 01:18:43# 128. lþ. 84.1 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 128. lþ.

[25:18]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Frá því í morgun hefur verið deilt um frv. ríkisstjórnarinnar um heimild til að reisa álver í Reyðarfirði. Þingið hefur skipst í tvær fylkingar, annars vegar eru þingmenn Sjálfstfl., Framsfl. og Samfylkingar sem hafa stutt frv. ríkisstjórnarinnar og hins vegar eru þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem hafa verið á öndverðum meiði. Um hvað er deilt? Um hvað hafa þessar deilur staðið hér í dag? Þær hafa í fyrsta lagi staðið um náttúruvernd, um umhverfisvernd í víðum skilningi og um nýtingu öræfanna norðaustur af Vatnajökli. En þær hafa einnig staðið um stefnu í atvinnumálum, um stefnu í efnahags- og atvinnumálum. Og sannast sagna kom mér á óvart að þeir sem stundum hafa látið í veðri vaka að þeir væru fylgjandi fjölbreytni í atvinnulífinu, vildu styrkja og styðja við bakið á smáum og meðalstórum fyrirtækjum, og vísa ég þar til þingmanna Samfylkingarinnar, hafa í þessari umræðu tekið höndum saman með ríkisstjórnarflokkunum, Sjálfstfl. og Framsfl., í stuðningi við stóriðjuáform hæstv. utanrrh. og formanns Framsfl., Halldórs Ásgrímssonar. Þar hafa þeir aðilar verið á einu máli og við verið ein um hitt, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, að tala máli fjölbreytni í efnahags- og atvinnulífi og standa vaktina fyrir náttúru landsins. Þetta hafa verið mjög skýrar línur sem hér hafa komið fram.

Hér hefur verið rætt um efnahagsmál, um efnahagslegar afleiðingar þessara stóriðjuáforma ef þeim yrði hrint í framkvæmd, og talað hefur verið um ýmislegt sem lýtur að umhverfisvernd. Ég er ekki sérfróður um efnafræði, síður en svo, og það eru aðrir í mínum flokki sem hafa talað af miklu meira viti en ég get gert um mengunarvarnir og ýmislegt sem lýtur að þeirri hlið mála og það hefur verið gert hér í dag, og vísa ég í ræður hv. þingmanna Kolbrúnar Halldórsdóttur og Árna Steinars Jóhannssonar.

Mér hefur verið bent á gögn sem eru komin frá Alþjóðabankanum þar sem settar eru fram ráðleggingar um mengunarvarnir, hvaða lágmarksstöðlum beri að fylgja. Þar er m.a. vikið að brennisteinsdíoxíði, hve mikið sé ásættanlegt að hleypt sé frá verksmiðjum af því tagi sem við erum að reisa hér. Í þessum gögnum kemur fram að að mati Alþjóðabankans sé ásættanlegt að einu kílói af brennisteinsdíoxíði sé hleypt út fyrir eitt áltonn. Samkvæmt því sem mér hefur verið tjáð, þá hafi náðst samningar við Norsk Hydro á sínum tíma um að hleypa út 230 tonnum miðað við 420 þús. tonna álver. Það hefði þýtt 180 tonna losun í álveri af þeirri stærð sem Alcoa hyggst reisa í Reyðarfirði, 320 þús. tonna álveri. Samkvæmt þessu eru þeir samningar sem stóð til að gera við Norsk Hydro undir því hámarki sem Alþjóðabankinn ráðleggur.

En um hvað er verið að semja? Verið er að semja um heimild til Alcoa að losa ekki 320, heldur 3.600 tonn, eftir því sem mér hefur verið tjáð. Ég spyr, er þetta rétt? Ég spyr fulltrúa í umhvn. þingsins. Ég beini þeirri spurningu til hæstv. umhvrh. Hún er að vísu ekki hér á staðnum. Það er enginn fulltrúi stjórnarliðsins úr umhvn. á staðnum til að svara fyrir, og reyndar eru ekki margir þingmenn hér á svæðinu úr stjórnarliðinu þótt ýmsir hafi ástæðu til að vera fjarri, og ætla ég ekki að fetta fingur út í það. En mér kemur í hug sú tillaga sem flutt var á þingi Framsfl. nýlega, að ráðherrar ættu ekki að hafa þingskyldur, ættu ekki að koma úr þingliðinu, þeir ættu að koma utan frá eða þá segja af sér þingmennsku þegar þeir settust á ráðherrastóla. Ég hef sannast sagna meiri áhyggjur af þeim almennu þingmönnum sem eiga að sitja hér á þinginu. Ég velti því fyrir mér hvað kunni að vera til ráða. Ef til vill væri hugmynd að ráða statista fyrir þingmenn Framsfl. til að sitja í sætum þeirra þegar þeir hvíla lúin bein eða eiga ekki kost á að sækja þingfundi. Ef salurinn væri fullur af staðgenglum þingmanna Framsfl, þá gæti maður a.m.k. lifað í þeirri trú eða þeirri von skulum við segja að þeir sýndu þeim stórmálum sem hér eru til umræðu einhvern áhuga.

Ég ætla ekki að hafa langt mál að þessu sinni um frv., við eigum eftir að fara í 3. umr., en þó ætla ég að víkja örfáum orðum að þeim þætti sem lýtur að atvinnusköpun. Ég hef verið að skoða tölfræði yfir störf í atvinnulífinu síðustu áratugina. Árið 1970 voru unnin 81.674 ársverk á Íslandi. Árið 2000 voru unnin 139.816 ársverk í landinu. Ársverkum hafði á því tímabili fjölgað um 60 þús. Ef við förum enn skemur aftur í tímann, til ársins 1990, voru unnin 124.914 ársverk á Íslandi. Tíu árum síðar, árið 2000, voru ársverkin 139.816. Ársverkum hafði á því tímabili, á þessum tíu árum, fjölgað um 15 þús., að meðaltali um 1.500 ársverk á ári hverju. Við erum að tala um fjölgun ársverka langt innan við 1.000 og eigum þá eftir að skapa rúmlega 14 þús. störf til að fylla upp í kvótann á næsta áratug. Þetta er verkefnið fram undan. Menn eru með á prjónunum áform um að spýta inn í atvinnulífið geysilegum fjármunum í atvinnusköpunarskyni, í því skyni að skapa störf í landinu.

Ég hef hlýtt á erindi sem hagfræðingar hafa flutt um þetta efni, þar á meðal Þorsteinn Siglaugsson hagfræðingur, en honum reiknast til að hvert starf í tengslum við Kárahnjúkavirkjun nemi um 445 millj. kr. Hann hefur bent á annað mjög athyglisvert dæmi í samanburðarfræðum sínum. Hann hefur bent á Háskólann á Akureyri. Háskólinn á Akureyri er með í þjónustu sinni 150 fasta starfsmenn en 536 einstaklingar koma alls að starfi í skólanum. Rekstrarkostnaður er um 600 millj. kr. Og hann hefur leikið sér að því að taka þetta saman og færa þetta yfir á núvirtan rekstrarkostnað háskólans og reiknast þá til að tilkostnaðurinn við hvert starf ef litið er á heildarmannafla, væri 36 millj. en ef aðeins væri litið á fasta starfsmenn, þá eru það 80 millj. kr.

Og eitt af því merkilegasta sem mér fannst koma fram á mjög athyglisverðri ráðstefnu sem Vinstri hreyfingin -- grænt framboð efndi til ekki alls fyrir löngu um fjölbreytni og nýsköpun í atvinnulífinu, þá var sagt réttilega að þegar við hefðum ráðist í fjárfestingar á liðnum árum og áratugum og þekking hefði ekki verið til staðar hefðu markmiðin yfirleitt ekki náðst, dæmin ekki gengið upp. En þegar fjárfest hefði verið í nauðsynlegri þekkingu hefðum við haft árangur af erfiði okkar. Hér er ég að taka dæmi um atvinnusköpun, um arðvænlega atvinnusköpun á sviði menntunar sem verður til fyrir mun minna fé.

Herra forseti. Mig langar að lokum til að víkja örlítið að greinaskrifum í Viðskiptablaðinu sem var að koma út í dag, nýju Viðskiptablaði sem kom út í dag. Þar er því haldið fram í heilsíðugrein að ruðningsáhrif stóriðjuframkvæmda á næstu árum muni halda útflutningsgreinunum í spennitreyju. Og hverjir eru að tala? Hverjir eru að halda þessu fram? Því miður eru ýmsir komnir í harkalega mótsögn við sjálfa sig vegna þess að aðilar vinnumarkaðar eru núna farnir að gráta þá framkvæmd sem þeir áður hafa stutt.

[25:30]

Í þessari grein sem Gústaf Steingrímsson ritar segir m.a. í upphafsorðum, með leyfi forseta:

,,Þau ruðningsáhrif sem óhjákvæmilega fylgja stóriðjuframkvæmdum fyrir austan munu koma hvað harðast niður á útflutningsgreinum á Íslandi, eins og sjávarútvegi og ferðaþjónustu, á næstu árum. Þannig hníga mörg rök að því að aðlögun efnahagslífsins að þessum gríðarlega miklu framkvæmdum muni birtast einna skýrast í mikilli styrkingu krónunnar sem mun án efa hafa mjög neikvæð áhrif á framlegð áðurnefndra greina.``

Síðan fjallar hann nánar um þetta og fer inn á fund Samtaka atvinnulífsins sem haldinn var fyrir helgi og bar yfirskriftina ,,Áhrif hágengis á þjóðarhag``. Þar er m.a. vitnað í Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, sem flutti erindi og var ekki bjartsýnn á framtíð íslenskra útflutningsfyrirtækja eins og hún lítur út í dag. Það er vitnað í orð aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, með leyfi forseta:

,,Þau fyrirtæki sem munu leggjast af eða flytjast úr landi af völdum væntra hárra vaxta á framkvæmdatíma Kárahnjúkavirkjunar og væntra áhrifa gjaldeyrisinnstreymis til hækkunar á gengi krónunnar munu ekki lifna við eða flytjast til landsins aftur. Það tekur ekki langan tíma að gera að engu uppbyggingarstarf margra ára og áratuga. Áhrif langvarandi hágengis á sjávarútveg verða óhjákvæmilega þau að fiskvinnslan flyst frekar út á sjó og útflutningur óunnins sjávarfangs til vinnslu erlendis eykst,`` sagði Hannes.

Síðan er vitnað í forstjóra Marels, Hörð Arnarson, sem sagði fyrirtæki í samkeppni við erlenda aðila ekki geta hækkað verð og þess vegna kæmi styrking krónunnar þeim illa. ,,Eina leiðin til að lækka kostnað í íslenskum krónum er að flytja starfsemina utan eða færa innlendan kostnað í erlendan gjaldmiðil því að tæki eins og framvirkir gjaldeyrissamningar eru eingöngu skammtímalausn.``

Og áfram er haldið. Það er vitnað í Gunnar Rafn Birgisson, framkvæmdastjóra ferðaþjónustufyrirtækisins Atlantik, sem sagði ferðaþjónustuna ekki vera í sömu sporum og mörg önnur útflutningsfyrirtæki þar sem hún hefði ekki möguleika á að flytja framleiðsluna úr landinu. Hann segir orðrétt, með leyfi forseta: ,,Gera má ráð fyrir að Íslandsferð kosti 25--30% meira í erlendri mynt árið 2003 en sama ferð gerði árið 2002`` o.s.frv.

Það er haldið áfram að vitna í hvern forstöðumann fyrirtækja á fætur öðrum.

Síðan er vitnað í starfsmenn greiningarstöðva bankanna, m.a. Eddu Rós Karlsdóttur hjá Búnaðarbankanum sem segir reyndar að sér finnist gagnrýnin á Seðlabankann vera nokkuð hörð og jafnvel ósanngjörn.

Hún segir, með leyfi forseta:

,,Í mínum huga ræður Seðlabankinn ekki við þetta hagstjórnarverkefni einn. Þar þurfa að koma fleiri að, eins og ríki og sveitarfélög, og það er ekki sjálfgefið að það sé Seðlabankans að hafa frumkvæði að því. Þar sem þessar framkvæmdir og þessi eftirspurnarhnykkur er svona fyrirsjáanlegur finnst mér mikilvægt að stjórnvöld setjist niður og íhugi aðgerðir til að sporna við þenslu hér á landi.``

Þetta er það sem menn eru að segja núna í atvinnulífinu.

Annars staðar í blaðinu fjallar hagfræðingur, kennari við Háskóla Íslands og starfsmaður við Hagfræðistofnun Háskólans, Ásgeir Jónsson, um gengishækkun krónunnar. Hann víkur að því í grein sinni að sér finnist svolítið sérstakt hve bágborin fagleg umræða um þjóðhagsleg áhrif Kárahnjúkavirkjunar hafi verið:

,,Það er í raun ekki fyrr en Seðlabankinn gaf út Peningamál sín nú í febrúar að áhrif framkvæmdarinnar voru kortlögð miðað við frjálsa og opna fjármagnssamninga.``

Síðar segir hann í greininni á þá leið að það sé alleinkennilegt að sjá að sömu hagsmunaaðilar sem fögnuðu virkjunarframkvæmdunum --- og hér vitna ég orðrétt, með leyfi forseta, í hagfræðinginn --- ,,... að sömu hagsmunaaðilar sem fögnuðu virkjunarframkvæmdum fyrir austan með lúðraþyt og söng skuli nú vera að barma sér yfir háu gengi krónunnar en hátt gengi er óumflýjanlegur fylgifiskur framkvæmdanna. Loks er það undarlegt hve mörgum virðist vera það kappsmál að kenna Seðlabankanum um gengishækkun síðustu vikna, jafnvel þótt bankinn sverji og sárt við leggi sakleysi sitt, og það með réttu.``

Þetta eru tilvitnanir í hagfræðinga og sérfræðinga í efnahagsmálum um afleiðingar af stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Og hér hefur hver þingmaðurinn á fætur öðrum úr stjórnarliðinu og Samfylkingu, úr hópi þeirra aðila sem styðja stóriðjustefnu Framsfl., komið upp og réttlætt náttúruspjöllin á Austurlandi norðan Vatnajökuls í ljósi hins mikla efnahagslega ávinnings af framkvæmdunum. Hvað skyldu þessir aðilar hugsa þegar þeir lesa greiningu sérfræðinga efnahagslífsins á þessum sömu afleiðingum og gefa fyrirtækinu öllu falleinkunn?

Mér finnst það vera umhugsunarvert þegar aðilar vinnumarkaðar leyfa sér að styðja við framkvæmdina löngu áður en samningar liggja fyrir og löngu áður en séð verður hvort þessi framkvæmd er arðvænleg eða ekki. Og núna, þegar hinar illu afleiðingar eru að koma í ljós, nauðsyn þess að skera niður opinberar framkvæmdir, nauðsyn þess að ryðja öðrum atvinnurekstri úr vegi með hækkandi vöxtum, rísa menn loksins upp en taka aðeins á afleiðingunum, sjúkdómseinkennunum, en ekki sjúkdómnum sjálfum.