Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 11:22:18 (4150)

2003-02-27 11:22:18# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[11:22]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Tónninn í ræðu hæstv. utanrrh. var ekki tónn hófsemdar heldur mikilla öfga ef ræðan er mátuð inn í yfirlýsingar utanríkisráðherra margra annarra ríkja, einkum í Íraksmálinu. Hún rímaði hins vegar fullkomlega við George Bush Bandaríkjaforseta og á tímabili fannst mér þetta nánast vera Bush í íslenskri þýðingu að öðru leyti en því að Bush hefði aldrei sagt að innrásin í Íran frá Írak árið 1980 hafi komið mönnum að óvörum. Hún kom Bandaríkjamönnum ekki að óvörum því Bandaríkjamenn studdu Íraka í stríðinu við Íran nánast allan stríðstímann frá 1980 til 1988.

Hæstv. utanrrh. segir nú að okkur stafi ógn af Írak. Hann hefur sagt opinberlega að tíminn sé að renna út. Nú spyr ég hæstv. ráðherra: Hver er sú ógn sem heimsbyggðinni stafar af Írak sem réttlætir hernaðarárás Bandaríkjanna og stuðningsmanna þeirra á alþýðu Íraks?