Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 11:29:40 (4154)

2003-02-27 11:29:40# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[11:29]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ræða hæstv. utanrrh. var yfirgripsmikil eins og vænta mátti. Hann fór yfir stöðuna og skilgreindi vel hvar Íslendingar standa í hinu alþjóðlega samhengi. Nú er það svo að hæstv. utanrrh. hefur verið í þessu embætti í átta ár og það rifjaðist ekki upp fyrir mér fyrr en undir ræðu hæstv. ráðherra. Það er þess vegna ekki óeðlilegt að hann fari með þessum hætti yfir sviðið þegar að kosningum dregur og reyni að gera grein fyrir því hvað áunnist hefur í tíð hæstv. ráðherra.

Oft hefur slegið í brýnu milli mín og hæstv. ráðherra og hann hefur stundum notað tækifærið til að fara nokkuð hörðum orðum um mig og minn flokk. Ég minnist þess að á flokksþingi Framsfl. um síðustu helgi skammaði hann Samfylkinguna eins og hundahjörð. Ég get samt sem áður sagt það, herra forseti, þegar ég horfi öfgalausum augum yfir feril hæstv. ráðherra að ég hygg að hann geti unað nokkuð sáttur við þá þróun sem undir stjórn hans hefur orðið á utanríkisstefnu og starfsemi Íslendinga erlendis. Hæstv. ráðherra má heldur ekki gleyma því að hér í þessum sölum hafa forustumenn flestra stjórnmálaflokka a.m.k. reynt að þjappa sér á bak við utanríkisstefnu eftir því sem hægt er. Lítil þjóð þarf á því að halda að það sé sem mest eining um utanríkisstefnuna hverju sinni.

[11:30]

Ég sé að hv. þm. Ögmundur Jónasson, hinn öfgalausi félagi vor, er farinn úr þingsölum. En ég vil samt sem áður segja að eitt af því sem ég er þakklátur hæstv. utanrrh. fyrir er að hann hefur tekið öfgalaust á ýmsum málum sem ég og minn flokkur höfum borið fyrir brjósti. Ég nefni þá sérstaklega málefni Palestínu til að mynda. Og af því Írak bar á góma þá fannst mér líka hæstv. ráðherra hér fyrr á árum hafa tekið vel á málefnum Íraks þegar við vorum að reifa hugmyndir um að berjast fyrir afnámi viðskiptabanns á Írak.

Herra forseti. Eðlilega fór hæstv. ráðherra vítt yfir. Hann talaði um ESB og Atlantshafsbandalagið. Það eru kannski helst þessi tvö efni sem mér finnst að hæstv. ráðherra hefði mátt dvelja svolítið meira við. Það er svo að utanríkismál eru einhver mikilvægustu svið lítillar þjóðar og á tímum eins og okkar eru þau samofin öryggismálum. Öryggi Íslands hefur verið tryggt með tvíhliða samningi við Bandaríkin frá 1951. Þegar sá samningur er skoðaður er hann eigi að síður giska lítt útfærður. Hann hefur í raun verið framkvæmdur á grundvelli bókana eins og hæstv. ráðherra gat um. Síðasta bókunin er frá árinu 1996. En ef ég man rétt rann gildistími þeirrar bókunar út fyrir tveimur árum. Mig langar þess vegna að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað líður viðræðum um endurnýjun þessarar bókunar? Hverjar hafa undirtektir Bandaríkjamanna verið? Og er hæstv. ráðherra sáttur við þá stöðu sem nú ríkir?

Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra greindi frá því að Evrópusambandið er í vaxandi mæli að taka að sér öryggishlutverk í Evrópu. Hann sagði frá því að það væri skoðun hans og lægi ljóst fyrir að Evrópusambandið mundi innan tíðar taka yfir öryggismál á Balkanskaga. Það liggur alveg fyrir að Evrópusambandið er að þróast með þeim hætti að það er í vaxandi mæli að taka að sér hlutverk varna og öryggis í Evrópu og mun eins og málið er að þróast leggja töluverða áherslu einmitt á þann þátt sem hefur komið æ gleggra fram í dagsljósið á síðustu árum sem er að sjálfsögðu varnir gegn hryðjuverkum. Mig langar því að spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann telji að í framtíðinni muni varnir Íslands með einhverjum hætti tvinnast saman við varnir Evrópusambandsins og hvort hann telji það æskilegt.

Herra forseti. Eins og ég gat um áðan hef ég og minn flokkur verið ánægður með þau viðhorf sem hæstv. ráðherra hefur tjáð gagnvart Palestínu. Samfylkingin hefur tekið upp málstað Palestínumanna aftur og aftur hér á hinu háa Alþingi. Við vitum öll hvernig ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs er, það er uggvænlegt. Það liggur við að við sjáum á hverjum einasta degi að Ísraelsmenn fari með vopnavaldi á hendur Palestínumönnum, þeir brjóta alþjóðlega samninga og þeir brjóta líka þær óskráðu siðareglur sem hafa ríkt milli manna, milli þjóða. Eða hvar höfum við séð það gerast áður á síðustu áratugum þó styrjaldarátök hafi blossað upp, að herjum hafi skipulega verið beitt til þess að koma í veg fyrir að sjúkrasveitir og heilsugæslustöðvar gætu sinnt hlutverki sínu? Við sáum það t.d. á síðasta ári að Ísraelsher tók lækna og hjúkrunarfólk og notaði sem mannlega skildi þegar þeir fór hús úr húsi til að rýma íbúðarhús, stökkva íbúum á flótta og nota síðan stórtækar vinnuvélar til þess að mölva húsin. Og hvar höfum við áður séð það að her hafi beinlínis meinað hjúkrunarfólki að sækja menn sem liggja blæðandi til dauða í ryki götunnar? Í dag er staðan þannig að Palestína, þessi stríðshrjáða þjóð, býr við þá stöðu að milli 250 og 300 heilsugæslustöðvar eru óvirkar vegna þess að ekki er hægt að byggja þær upp, menn fá ekki frið til þess fyrir Ísraelsmönnum.

Samfylkingin lagði fram tillögu á síðasta ári, herra forseti, um að ríkisstjórnin mundi beita sér fyrir því að Ísraelsmenn drægju heri sína frá hernumdu svæðunum í Palestínu, að Palestínumönnum yrði gert kleift að lifa sem frjáls þjóð í eigin landi, og í þriðja lagi að beita sér fyrir því á grundvelli alþjóðaréttar, samþykktar Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasamninganna, að Palestínumenn og Ísraelsmenn leysi eftir þeim farvegum sem þar eru úr ágreiningsmálum sínum. Í fjórða lagi fólst í þessari tillögu að Alþingi lýsti stuðningi við hugmyndir um að alþjóðlegt gæslu- og eftirlitslið yrði sent inn á þetta svæði til að stilla til friðar. Það fór svo, herra forseti, að með góðum stuðningi þings var þessi tillaga í öllum efnislegum atriðum samþykkt hér á þinginu. Ég vil því spyrja hæstv. utanrrh.: Með hvaða hætti hefur hann sem fulltrúi okkar beitt sér fyrir því að þeirri samþykkt verði hrint í framkvæmd?

Í annan stað rifja ég það upp að ég spurði hæstv. utanrrh. hvort hann mundi fara að dæmi þáv. ríkisstjórnar og utanríkisráðherra Noregs og beita sér fyrir því að sérstöku fjármagni yrði varið til þess að byggja upp Palestínu. Hæstv. utanrrh. tók ákaflega vel í það, en sagði eigi að síður að engar ákvarðanir hefðu verið teknar um það. Mér er mætavel kunnugt um það og hann og jafnvel hæstv. forsrh. hafa beitt sér fyrir ákveðnum framlögum til Palestínu, en mér er nokkuð í mun að vita hvort íslenska ríkisstjórnin ætlar með sérstökum hætti að taka á þessu máli.

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. hefur lýst því nokkuð vel að hann líti svo á að það sé ekkert mál eins mikilvægt fyrir Íslendinga á næstu árum og að taka afstöðu til þess hvernig við bindum bagga okkar gagnvart Evrópu. Evrópusambandsaðildin er það mál sem hefur risið hvað hæst í deilum um utanríkismál síðustu missirin. Hæstv. ráðherra hefur að minni hyggju haft afdráttarlausa skoðun en mér hefur stundum fundist sem flokkur hans væri ekki alveg samstiga honum. Látum það vera, herra forseti. Það sem ég vildi gera hér að umræðuefni eru þau rök sem menn hafa fært gegn aðild að Evrópusambandinu, vegna þess að ég tel að það eigi að virða þá sem setja þau rök fram á hvaða sviði sem þau eru. Nauðsynlegt er að efna til upplýsts umræðuferlis um Evrópusambandið og þau tækifæri sem felast í aðild, en jafnframt líka þær hættur sem í henni felast.

Það er eftirtektarvert að talsvert hefur verið um það að menn hafa mælt gegn því að ganga í Evrópusambandið vegna þess að innan samningsins um Evrópska efnahagssvæðið hefðu menn þrátt fyrir allt ákveðnar varnir gegn því að aukið fullveldi tapaðist. Menn hafa vísað til þess að þó við verðum einhliða að taka upp u.þ.b. 80% af gerðum ESB án þess að geta haft nokkur umtalsverð áhrif á þessar gerðir og innihald þeirra, þá séu eigi að síður byggðar inn í samninginn ákveðnar varnir sem tryggja það að við getum varið fullveldið. Þetta tel ég að séu önnur mikilvægustu rökin gegn aðild. En ég held að þetta séu falsrök. Ég tel að málið hafi þróast þannig frá upphafi EES-samningsins að þessar fullveldisvarnir séu falskar í dag. Í þeim felst ekki haldið sem menn ætluðu í upphafi.

Ég tek sérstaklega dæmi af því hvernig synjunarvaldið sem samningurinn felur í sér hefur þróast. Það var ein meginvörnin gegn því að við gætum eða þyrftum að taka upp gerðir sem andstaða væri gegn innan Íslands. Ég tel, herra forseti, að rétt sé að skoða það og fá álit hæstv. utanrrh. á viðhorfum mínum í þessum efnum.

EES-samningurinn byggir á tveggja stoða lausn þar sem EFTA-ríkin og ESB-ríkin voru og eru jafnrétthá þrátt fyrir þá staðreynd að nýjar efnisreglur eigi jafnan uppruna sinn hjá ESB. Í samningnum er aðeins gert ráð fyrir þeirri meginreglu að allar nýjar reglur á samningssviðinu verði hluti EES-samningsins. Eina svigrúmið sem EFTA-ríkin hafa til þess að standa gegn nýjum reglum er að fá takmarkaða aðlögun eða að beita synjunarvaldi við samþykki við nýrri gerð. Breytingar sem felast m.a. í því að pólitísk sérstaða EFTA-ríkjanna er horfin og líka hinu að þau eru miklu færri en í upphafi hefur leitt til þess að synjunarvaldið er óvirkt, það er orðin tóm.

Í reynd er það þess vegna þannig að synjunarvald EFTA-ríkjanna samkvæmt EES-samningnum er engin vörn fyrir fullveldi okkar, það er einungis formlegt vald sem er ómögulegt að beita nema með því að kollvarpa samningnum í leiðinni. Ég vildi biðja hæstv. utanrrh. að svara því hér á eftir hvort hann sé þeirrar skoðunar að þetta sé rétt hjá okkur í Samfylkingunni. Það skiptir miklu máli að menn viti af því. Það er nefnilega ekkert verra en að gefa til kynna raunverulegt áhrifavald sem er ekki fyrir hendi þegar á hólminn er komið.

Annað sem ég vildi ræða líka, herra forseti, er sá mikli og vaxandi lýðræðishalli sem er að finna innan Evrópska efnahagssvæðisins. Við höfum að sönnu heyrt margt um lýðræðishalla innan Evrópusambandsins á undanförnum árum og það er alveg klárt að ágallar eru á því hvernig lýðræðislega kjörnir fulltrúar á þeim vettvangi koma að ákvörðunum innan ESB. Sú gagnrýni er fyllilega réttmæt. Á hinn bóginn er ég þeirrar skoðunar að ómögulegt sé að mæla með áframhaldandi aðild að EES, en gegn aðild að ESB, á þeirri forsendu að lýðræðishalli sé innan ESB. Ég er þeirrar skoðunar að samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið feli í sér mun verri lýðræðishalla en tíðkast innan ESB og þróunin veldur því að munurinn versnar svo að segja dag frá degi. Ég vildi, herra forseti, spyrja hæstv. utanrrh. hvort hann sé mér sammála um þetta efni.

EES-samningurinn er embættismannasamningur. Löggjöf ESB er afhent EFTA-ríkjunum fullmótuð og það eru embættismenn EFTA-ríkjanna sem eiga samskipti við embættismenn framkvæmdastjórnar ESB. Framkvæmdastjórnin, þar sem við áttum að eiga skjól og áttum að geta komið viðhorfum okkar fram, verður alltaf valdaminni, verður stöðugt valdaminni. Innan ESB fer ferlið þó eigi að síður fram fyrir opnum tjöldum. Mönnum gefst tækifæri til þess að koma að athugasemdum. Í aðildarríkjunum snýst stjórnmálaumræðan meira og minna um afstöðu gagnvart Evrópu. Almenningur kýs þingmenn til Evrópuþingsins, getur beint málum til umboðsmanns. Í vaxandi mæli er því verið að rétta af lýðræðishallann innan ESB, en um leið er dregið úr möguleikum okkar sem búum í EFTA-ríkjunum til að hafa áhrif. Þegar dregið er úr lýðræðishallanum innan ESB, eykst hann því innan EES. Almenningur í EFTA-ríkjunum hefur því sífellt minni áhrif á reglur sem móta daglegt líf hans í síauknum mæli.

Herra forseti. Þó að aðilar vinnumarkaðarins í okkar ríkjum hafi möguleika á því í gegnum Evrópusamtök sem þeir hafa sín á milli að hafa áhrif á þær gerðir sem við þurfum að taka upp, þá er það eftirtektarvert og ég undirstrika það sérstaklega, að sveitarstjórnarstigið sem verður stöðugt valdameira í samfélagi okkar er algjörlega utanveltu og sama gildir um frjáls félagasamtök. Ég spyr hæstv. utanrrh. af því ég veit að hann hefur velt þessum málum fyrir sér: Er hægt að bjóða upp á svona ástand til langs tíma?

Herra forseti. Ég er því þeirrar skoðunar að eins og málin hafa þróast búum við við þá stöðu að hafa formlegt fullveldi þar sem við höfum neitunarvald sem er þó ekki hægt að nota. Við höfum engin áhrif á þá löggjöf sem við erum skuldbundin til að innleiða. Okkar vald við framkvæmd þessara reglna er takmarkað við það sem kalla má hlutverk sendisveinsins sem fer með boð þess sem hefur valdið. Þessi staða er að verða óviðunandi.

[11:45]

Hverjir eru þá valkostir okkar? Valkostirnir eru tvíhliða samningur eins og forusta VG hefur velt upp, uppfærður EES-samningur eins og sumir forustumenn innan Framsóknarflokksins hafa reifað, eða að ganga í ESB. Tvíhliða samning tel ég ekki raunverulegan valkost og vísa til fordæmis Sviss að því leyti, en það hefur ekki gefist þeim vel að mínu mati.

Við sjáum það líka, herra forseti, að ekki er í gangi nein uppfærsla sem máli skiptir á EES-samningnum. Þær breytingar sem m.a. voru ræddar hér af ýmsum fulltrúum í EFTA-nefndinni á sínum tíma verða ekki að veruleika. Ég er því þeirrar skoðunar að menn hljóti að hugsa til þess í framtíðinni að við stígum skrefið til fulls og sækjum um aðild að ESB. Mörg rök hafa verið færð gegn því. Við heyrðum árum saman í umræðu hér, m.a. hjá hv. þm. Birni Bjarnasyni, að aðild væri óhugsandi vegna þess að ESB væri óðum að breytast í eins konar bandaríki Evrópu, af því að svokallaðir dýpkunarsinnar væru sterkari en útvíkkunarsinnar. Þegar svo ESB tekur hið einstaka skref að bjóða tíu nýjum aðildarríkjum inn á einu bretti þá heyrist ekki meira af þessu. Við höfum heyrt andstæðingana leggjast gegn aðild vegna kostnaðar. Nú liggur fyrir að beinn kostnaður verður tæpast meira en 4 milljarðar, en gæti hins vegar farið á allt annan veg og það gæti verið að við fengjum upp í 4 milljarða með okkur. Í öllu falli blasir það við að samtök eins og Samtök iðnaðarins hafa metið það svo að ávinningur af því að vera í ESB gæti numið milli 40 og 45 milljörðum fyrir íslenskt samfélag.

Við höfum líka heyrt andstæðinga aðildar setja fram dómsdagsspár um framtíð landbúnaðar þrátt fyrir að reynsla Finna og Svía segi aðra sögu. Við höfum séð að þrátt fyrir að fækkað hafi í bændastétt í Svíþjóð og Finnlandi eftir aðild hefur heildarframleiðsla ekki minnkað. Framleiðni hefur aukist og matvælaverð hefur lækkað stórlega. Á sama tíma sjáum við líka, eins og hæstv. utanrrh. gat um hér áðan, að þróun innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar gerir okkur sífellt erfiðara um vik að halda uppi stuðningi við innlendan landbúnað.

Við höfum líka heyrt þessar sömu hrakspár um sjávarútvegsmálin. Því hefur verið haldið fram að ómögulegt væri fyrir okkur að ganga í Evrópusambandið vegna þess að við mundum tapa þar fullveldi yfir fiskimiðum okkar. Ef svo væri, herra forseti, er alveg ljóst að við gætum ekki gengið þar inn. Því er alveg ljóst að í reynd snýst hin raunverulega andstaða að stóru leyti um þetta. Það væri hægt að hafa mörg orð uppi um það, um ýmsar leiðir til lausnar því. En það er alveg ljóst að menn eru ekki að tala um undanþágu frá Rómarsáttmálanum. Menn eru hins vegar að tala um aðlögun hans og okkar hvort að öðru.

Hæstv. utanrrh. hefur einmitt bent á eina leið sem mér finnst hafa verið reifuð allt of lítið í umræðu hér í þessum sölum. Hann hefur kynnt athyglisverðar hugmyndir um sérstaka stjórn fiskveiðimála á Norður-Atlantshafi úr stofnum sem ekki er hægt að skilgreina sem deilistofna á grundvelli hinnar svokölluðu nálægðarreglu. Hún kveður á um það að ákvarðanir skuli aðeins teknar í Brussel ef ekki er hægt að finna viðeigandi lausn heima fyrir. Slíkt fyrirkomulag yrði að sjálfsögðu þá innan ramma þessarar sameiginlegu sjávarútvegsstefnu en ekki utan hennar. Eins og ég sagði áðan yrði ekki um undanþágu að ræða heldur sérstaka aðlögun sem væri byggð á sérstökum kringumstæðum.

Ég verð að taka það fram, herra forseti, að dæmi eru um það að framkvæmd sjávarútvegsstefnunnar innan ESB byggist einmitt á þessari nálægðarreglu. Ég tek það skýrt fram, herra forseti, að í mínum huga er ljóst að án þess að raunverulegt forræði strandríkjanna yfir nytjastofnum verði viðurkennt þá er tómt mál að tala um að það gæti orðið sátt um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Ég tel, herra forseti, að á grundvelli þessarar hugmyndar hæstv. utanrrh. sé þetta mögulegt og áskil mér rétt til þess að reifa þetta töluvert frekar í seinni ræðu minni.