Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 11:57:39 (4159)

2003-02-27 11:57:39# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[11:57]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Mér var nú mjög létt að heyra hér áðan að hv. þm. Össur Skarphéðinsson er búinn að ná áttum, búinn að jafna sig og kominn í sinn gamla ham. Hann eyddi mestallri ræðu sinni hér í hugðarefnið mikla, aðild Íslands að Evrópusambandinu. Mér brá nefnilega dálítið á dögunum þegar ég heyrði hv. þm. --- ég held það hafi verið í viðtali á Stöð 2 --- vera kominn allan í bakkgírinn í málinu. Hann var eins og ítölsku skriðdrekarnir sem eru sagðir hafa þrjá gíra aftur á bak og einn áfram. Hv. þm. var kominn í þvílíkan bakkgír í Evrópumálinu. Ástæðan var að vísu augljós. Nýlega hafði birst skoðanakönnun sem sýndi vaxandi andstöðu við inngöngu í Evrópusambandið og þá var þetta mál skyndilega alls ekki svo mikilvægt og yrði alls ekki neitt sérstakt kosningamál og þetta væri allt í höndum Sjálfstfl. Það hefði í raun ekkert gildi að ræða Evrópumálin því þetta réðist allt af því að Sjálfstfl. kæmi til átta í málinu. En nú er sem sagt annað uppi og hv. þm. er kominn í sinn gamla góða ham.

Það var líka merkilegt að heyra hv. þm. úthúða hér EES-samningnum, að hann væri alveg ómögulegur fyrir lýðræðishalla, fullveldið væri óvirkt og allt þar fram eftir götunum. Bíddu, er þetta ekki sami hv. þingmaðurinn sem ásamt flokksmönnum sínum hefur lofsungið EES-samninginn þvílíkt, tekið hv. fyrrv. þm., núverandi ambassadör, Jón Baldvin Hannibalsson, nánast í guðatölu (Gripið fram í: Dýrlingatölu.) fyrir þennan merka gerning? Hvernig fer þetta nú heim og saman, að EES-samningurinn sem er í grunninn algjörlega óbreyttur hvað varðar alla uppbyggingu og allt fyrirkomulag --- ákvarðanatökuferlið er nákvæmlega óbreytt, stofnanirnar eru nákvæmlega óbreyttar --- er allt í einu algjörlega ónýtur að dómi sömu manna og hafa meira lofsungið hann en nokkrir aðrir á jarðríki? Auðvitað fór hv. þm. hér yfir rökin sem efasemdarmenn og gagnrýnendur EES fóru með á sínum tíma og réðu því að þeir studdu hann ekki og vildu aðrar leiðir. Hér hafa því orðið á alveg merkileg hlutverkaskipti.