Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 11:59:52 (4160)

2003-02-27 11:59:52# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[11:59]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Sumir menn eiga drauma og e.t.v. er það einn af draumum hv. þm. að formaður Samfylkingarinnar skipti um skoðun í ESB-málinu. Vera má að draumsvefninn hafi yfirtekið vökuna þegar hann hlýddi á mig í viðtali við Stöð 2 um þessi mál.

Það er alveg rétt að ég gerði að umræðuefni þátt Sjálfstfl. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að stuðningur við ESB-aðild sé miklu meiri innan Sjálfstfl. en fram hefur komið. Stundum hef ég sagt það þannig að búkurinn sé búinn að snúa sér en höfuðið eigi eftir að fylgja honum. Það mun koma í ljós síðar. Ég minni hv. þingmann á að árið 1991 tók ég þátt í því að mynda ríkisstjórn einmitt um EES-samninginn. Þá skipti Sjálfstfl. um skoðun á einni nóttu. Hvers vegna skyldi hann ekki geta gert það aftur?

Hefur hv. þm. ekki fylgst með þeim breytingum sem hafa orðið á vettvangi Evrópusambandsins? Hann getur ekki komið hingað og haldið því fram að stofnanirnar séu óbreyttar. Hlutverk stofnananna hefur nefnilega breyst. Lýðræðishallinn hefur minnkað, en á sama tíma hefur það gerst að framkvæmdaráðið hefur hins vegar tapað að verulegu leyti völdum sem það hafði áður. Þar áttum við að hafa okkar skjól. Nú er það þannig að ef upp kemur ágreiningur þá fer hann í ákveðið samráðsferli. En að lokum hefur Evrópuþingið, sem var meira og minna valdalaust þegar samningurinn var gerður 1993, hið endanlega úrskurðarvald. Við höfum enga möguleika á því að koma okkar sjónarmiðum á framfæri þar.

Þetta er eitt af því sem hefur breyst. Hitt er alveg rétt að hv. þm., eins og ég, er þeirrar skoðunar --- eða ég er a.m.k. þeirrar skoðunar að þegar samningurinn var gerður hafi hann verið tímamótasamningur. Ég tel að hann hafi lagt grundvöllinn að því góðæri sem hér hefur verið viðvarandi um nokkurra ára skeið. Það er kannski ofmælt að ég hafi tekið Jón Baldvin Hannibalsson í guðatölu eða dýrlingatölu. En það gæti komið að því að menn falli fram og tilbiðji hann, eins og mér sýnist hv. þingmaður gera, vegna þess að hann er eina skjólið gegn ESB núorðið.