Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 14:47:58 (4184)

2003-02-27 14:47:58# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[14:47]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur að ég tel að þetta snúist miklu fremur um olíuhagsmuni og hernaðarhagsmuni, um völd og áhrif, en 11. september. Ég er alveg sannfærður um það, og það sem ég hef kynnt mér um þessi mál hnígur allt að því að styðja þetta sjónarmið, þykir mér. Í gögnum sem ég hef séð, líka frá Bandaríkjaþingi eins og ég vék að áðan, t.d. skýrslu frá öldungadeildinni sem birt var í lok september, kemur þetta berlega fram. Þeir segja það líka, rannsakendur sem stóðu að þeirri skýrslu, að Bandaríkjastjórn stafi meiri hætta af ýmsum öðrum ríkjum en Írak. Því tel ég að þetta snúist fyrst og fremst um völd og áhrif.

Síðan varðandi Sameinuðu þjóðirnar, ég er mikill fylgismaður Sameinuðu þjóðanna. Ég er hins vegar gagnrýninn á stjórnskipan þeirra. Og mér er ekki sama á hvern hátt valdakerfi Sameinuðu þjóðanna kemst að niðurstöðu. Ég hef t.d. mjög miklar efasemdir um samsetningu öryggisráðsins og hvernig það starfar. En ég hef sannast sagna orðið fyrir nokkrum áhrifum af sagnfræðingum og stjórnmálafræðingum sem hafa farið í gegnum atkvæðagreiðsluna fyrir Persaflóastríðið 1991 og þær þvinganir sem ríki voru beitt sem eiga fulltrúa í öryggisráðinu til þess að fylgja Bandaríkjastjórn að málum. Ég vil Sameinuðu þjóðirnar efldar og ég vil að við Íslendingar einbeitum okkur að því að reyna að gera það. En mér finnst þessi skipting á milli ríkra þjóða og snauðra innan Sameinuðu þjóðanna og síðan hins vegar milli Bandaríkjanna og annarra hervelda gagnvart hinum fátækari ríkjum ills viti og ég vísa þar t.d. í samþykkt ríkja utan hernaðarbandalaga ekki alls fyrir löngu.