Skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 16:57:17 (4215)

2003-02-27 16:57:17# 128. lþ. 85.1 fundur 445#B skýrsla utanríkisráðherra um utanríkismál# (munnl. skýrsla), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[16:57]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil nú í upphafi seinni ræðu minnar þakka starfsmönnum utanrrn. fyrir það sem vel er gert. Einnig vil ég beina þakkarorðum til starfsmanna Alþingis sem sérstaklega sinna utanríkismálum. Þar er haldið einstaklega vel á málum af hálfu þeirra starfsmanna sem komið hafa að starfi þeirra þingnefnda sem við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum tekið þátt í.

Mig langaði til að byrja á því núna að gera nokkrar athugasemdir og leggja fram fyrirspurnir varðandi GATS-samningana. Í ræðu sinni sagði hæstv. utanrrh. eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Fáar þjóðir eru jafnháðar utanríkisviðskiptum og við Íslendingar. Aukið frelsi í viðskiptum ríkja heims er því ótvíræðir hagsmunir Íslands. Af þessum sökum studdu íslensk stjórnvöld að nýrri viðræðulotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar var ýtt úr vör á síðasta ári. Stefnt er að því að ljúka henni á árinu 2005. Viðræðurnar hafa farið vel af stað en enn er þó langt í land áður en samkomulagi verður náð.``

Í fyrsta lagi vil ég taka undir það að það geta verið hagsmunir okkar að auðvelda viðskipti á heimsvísu. En miklu máli skiptir hins vegar hvernig á er haldið, hver útkoman er. Ég get ekki tekið undir þá staðhæfingu að viðræður um GATS hafi farið vel af stað, þær viðræður sem hefur verið stofnað til á grundvelli Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, World Trade Organization.

Hún var sett á laggirnar í ársbyrjun 1995 eftir að Úrúgvæ-ferlinu lauk, svokölluðum GATT-samningum sem staðið höfðu frá 1986 og til ársloka 1994. Þá þegar hafði verið hafist handa um samningagerð um markaðsvæðingu þjónustustarfsemi.

[17:00]

Þetta fór nú ekki vel af stað vegna þess að illa gekk að þróa viðræðurnar og við minnumst hinna miklu mótmæla sem urðu í Seattle t.d. árið 1999. Þar voru mikil átök, bæði innan veggja samkomunnar og utan, í heiminum öllum reyndar, um hvernig ætti að skilgreina samningsmarkmiðin. Alþjóðaviðskiptastofnunin brá á það ráð eftir þessi mótmæli og síðari mótmæli einnig að halda fundi sína eins fjarri glaumi heimsins og eins fjarri þeim stöðum sem alþjóðaverkalýðshreyfing og almannasamtök gætu komuð við mótmælum, og þetta er raunverulega svo. Þess vegna var efnt til fundarins í Doha á sínum tíma og það var gert að skilyrði gagnvart öllum almannasamtökum, verkalýðshreyfingu, jafnvel félagsskap sem taldi tugi, jafnvel hundruð milljóna manna, að aðeins einn fulltrúi fengi að mæta á svæðið. Einn fulltrúi hverrar verkalýðshreyfingar fengi að mæta á svæðið. Þessu var mótmælt mjög harðlega og hefur verið mótmælt af hálfu alþjóðasamtaka verkalýðsins og reyndar einnig ýmsum almannasamtökum sem láta sig þessi mál varða.

Síðan er ákveðið í Doha að koma þessum viðræðum af stað og sett eru ákveðin tímamörk. Tímamörkin sem sett voru, ef ég man rétt, voru 30. júní, sl. vor. Þá áttu einstök ríki að hafa reist kröfur á hendur öðrum ríkjum og síðan áttu þau að svara, allur hópurinn átti að koma saman og kanna á hvern hátt unnt væri að ýta samningsferlinu áfram. Þetta var hugmyndin og er hugmyndin, nema dagsetningin 30. júní stóðst ekki. Henni var frestað að því er mér skilst um óákveðinn tíma. En hinni dagsetningunni var ekki frestað, hvenær ætti að bregðast við, og það er 30. mars. Núna er 27. febrúar. Og við eigum að bregðast við þeim kröfum sem hafa verið reistar á hendur okkur eftir rúman mánuð. Spurningin er hvernig við ætlum að bregðast við.

Við erum þegar búin að fá kröfur frá Bandaríkjunum, frá Indlandi og frá Japan. Hverjar skyldu þessar kröfur vera? Það vitum við ekki. Neitað er að upplýsa okkur um það hverjar kröfur hafa verið reistar á hendur Íslendingum af hálfu þessara þjóða.

Hvaðan skyldi hafa komið þrýstingur um að þessar samningaviðræður yrðu opnaðar? Það er eins og ég segi frá alþjóðasamtökum verkalýsðsins og ég vísa þar sérstaklega í PSI, Public Service International, og hér á landi í BSRB. Þar hefur verið unnin mikil vinna til að opna þessa samninga almenningi.

Í júníbyrjun, 7. júní, fékk BSRB sent afrit af skjölum sem ráðuneytið hafði þegar sent út og var stílað á samtök atvinnurekenda, um ráðleggingar til ríkisstjórnarinnar um kröfugerð Íslendinga. Þetta hafði ekki farið til verkalýðshreyfingarinnar. Þann 14. júní skrifaði BSRB ráðuneytinu bréf þar sem samtökin óskuðu eftir að vera upplýst um framgang viðræðna og að tekið yrði tillit til álits samtakanna í þessu efni. Ráðuneytið svaraði í júlíbyrjun, 3. júlí, og þakkaði fyrir áhuga BSRB og óskaði eftir athugasemdum og ábendingum. En BSRB lét ekki þar við sitja heldur vildi fá nánari upplýsingar um hvað héngi á spýtunni og vildi fá að sjá kröfugerðir þeirra ríkja sem höfðu sent okkur þær. 23. september ritaði BSRB ráðuneytinu bréf og greindi frá því að samtökunum væri kunnugt um að þegar hefðu borist kröfugerðir frá Japan og Bandaríkjunum --- þá var kröfugerðin ekki komin frá Indlandi eftir því sem ég veit best --- og vildi fá að sjá þær. Í októberbyrjun eru enn ítrekaðar spurningar til ráðuneytisins, en 11. október hafnar ráðuenytið formlega ósk samtakanna, ósk verkalýðssamtakanna um að upplýsa um kröfur sem reistar hafa verið á hendur Íslendingum.

Þetta endar með því, eftir ítrekaðar neitanir, að BSRB kærir utanrrn. til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Hún tekur málið til umfjöllunar en hafnar beiðni BSRB. Með öðrum orðum, ráðuneytið og úrskurðarnefnd um upplýsingamál setur þarna pottlokið á og hagar sér með sama hætti og GATS gerir í allri sinni vinnu í öllu þessu ferli.

Við erum ekkert ein um þetta, Íslendingar. Innan Evrópusambandsins er þetta engu betra og hugsanlega verra, vegna þess að þar á bæ er það framkvæmdanefndin sem fer með samningsumboðið fyrir öll aðildarríki Evrópusambandsins og hefur neitað að upplýsa þingmenn í einstökum þjóðríkjum og þingmenn á Evrópuþinginu um þessar sömu kröfugerðir sem hafa verið sendar.

Nú vill svo vel til að víða eru vökulir fjölmiðlamenn og þeir komust yfir kröfugerðina frá Evrópusambandinu og breska dagblaðið Guardian birti fréttir um kröfugerð Evrópusambandsins sl. vor. Af hálfu Evrópusambandsins var öllum kröfum um upplýsingagjöf hafnað og dregið til baka og það sem birt var sagðar ýkjur o.s.frv. En það sem vakti sérstaka athygli var sú krafa sem Evrópusambandið reisti á hendur öðrum ríkjum, Kanada, og síðan fátækum ríkjum, þeir hafa alls sett fram kröfur við 109 ríki, fáein þróuð ríki en flest vanþróuð í efnahagslegu tilliti, um að þau opni fyrir markaðsaðgang að drykkjarvatni. Þessu var öllu neitað á þeim tíma.

Evrópusambandið ákvað hins vegar að birta almennar upplýsingar um kröfugerðirnar --- ekki ítarlegar eða sundurgreindar --- á vefnum og nú hefur það verið gert. Þar er hægt að nálgast þær. En hinir vökulu fréttamenn hafa núna aftur komist yfir upplýsingarnar, yfir kröfugerðarlistana frá Evrópusambandinu og birt þá í heild sinni. Og þar kemur fram að þrátt fyrir neitun framkvæmdanefndarinnar á sínum tíma er sú krafa sem Evrópusambandið reisir á hendur öðrum ríkjum að vatnið verði markaðsvætt.

Það er í því samhengi sem við höfum mörg verið að vara við að breyta rekstrarformi á orkuveitum og vatnsveitum, því að þegar þetta kemur til með að ríma saman, annars vegar lagabreytingar að þessu leyti hér á landi við reglugerðarverk GATS eða GATS-samningana þá getum við hreinlega verið knúin til þess að láta af hvers kyns opinberum stuðningi eða stýringu og fara með þessa starfsemi algerlega inn á markaðssvæðið. En ég vil beina því til þeirra sem hér eru eða kunna að heyra orð mín að hægt er að nálgast þessar upplýsingar á gatswatch.org, þar er hægt að sjá þær kröfugerðir Evrópusambandsins sem framkvæmdanefndin neitaði að fyrirfyndust í marsmánuði þegar Guardian upplýsti um þær en hefur nú komið á daginn að var allt satt og rétt.

Utanríkisráðuneytið kvaðst í haust ætla að birta almennar upplýsingar á netinu um kröfugerðir. Ég hef hrósað ráðuneytinu fyrir að stíga þó það skref eða lýsa sig reiðubúið að gera það. Það hefur hins vegar ekki verið gert enn þá, og ég kalla eftir því hvort til standi að gera það.

Ég tel hins vegar að við þurfum að ganga lengra. Við þurfum að fá að vita hverjar eru þær kröfur sem Bandaríkjamenn, Japanar og Indverjar hafa gert gagnvart okkur og þá spyr ég sérstaklega um menntun, menntakerfið. Við í BSRB --- ég segi við því ég er formaður þeirra samtaka --- höfum fjallað mjög ítarlega um þessi mál, m.a. í BSRB-tíðindum. Þar er fjallað um GATS frá vöggu til grafar, og við fengum mann til að sinna því verki sérstaklega, Pál Hannesson, og hann hefur gert það mjög vel, hefur kortlagt þetta. Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum eru Bandaríkjamenn að reisa kröfur á hendur Íslendingum um markaðsvæðingu menntakerfisins, æðri stig menntunar.

Hvert nær það? Nær það inn í menningarstofnanir? Nær það inn í fjölmiðla, fréttastofur? Þetta eru hlutir sem við þurfum að fá upplýsingar um vegna þess að ef svo er og við svörum þessu játandi þá erum við búin að opna fyrir markaðsvæðingu í þeim geira.

Þess vegna spyr ég hæstv. utanrrh.: Hver verða svör Íslands? Er ekki eðlilegt og æskilegt að þetta verði rætt hér á Alþingi og opnað á þetta? Er eðlilegt að þetta sé sveipað leyndarhjúpi?

Við vitum að umræða hefur farið fram um landbúnaðarmálin. Þar höfum við neitað því að verða við ýtrustu kröfum Bandaríkjanna og ýmissa ríkja sem vilja afnema allan ríkisstuðning í einu vetfangi við landbúnað. Hins vegar höfum við sett fram þá kröfu að ríkisstyrkir í sjávarútvegi verði afnumdir, nokkuð sem ég hef gagnrýnt harðlega og ekki síst hitt að Alþingi taki aldrei stefnumótandi ákvörðun í því efni heldur sé þetta á valdi embættismanna, ríkisstjórnar og ráðherra að véla einir um þessi mál. Það er ólýðræðislega að verki staðið.