Breyting á XI. viðauka við EES-samninginn

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 17:57:55 (4226)

2003-02-27 17:57:55# 128. lþ. 85.12 fundur 618. mál: #A breyting á XI. viðauka við EES-samninginn# (póstþjónusta) þál. 22/128, 619. mál: #A breyting á XVIII. viðauka við EES-samninginn# (upplýsingamiðlun til launamanna o.fl.) þál. 23/128, 638. mál: #A breyting á XIII. viðauka við EES-samninginn# (bótaábyrgð flugfélaga) þál. 24/128, 639. mál: #A breyting á IX. viðauka við EES-samninginn# (gjaldþol tryggingafyrirtækja) þál. 25/128, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[17:57]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég þakka það að leyft sé að taka þessi mál fyrir saman. Þau snerta öll samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og eru að því leytinu til skyld þó að þau séu nokkuð óskyld að öðru leyti.

Það mál sem er á þskj. 989, 618. mál, er þáltill. þar sem leitað er heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 168, um breytingu á XI. viðauka við EES-samninginn, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 39 um frekari opnun fyrir samkeppni í póstþjónustu bandalagsins. Þessi tilskipun mælir um að opna póstmarkaðinn í Evrópu enn frekar fyrir samkeppni, m.a. með því að takmarka einkarétt á póstþjónustu, en heimila má þeim aðilum sem veita svokallaða alþjónustu áfram einkarétt til að halda uppi ákveðnu þjónustustigi sem telja verður nauðsynlegt. Skal þjónusta innan einkaréttar bundin við tiltekna starfsemi sem nánar er skilgreind í tilskipuninni. Þá eru einnig í henni margvísleg ákvæði sem skerpa á skyldum einkaleyfishafa. Þar sem lokið skyldi að innleiða tilskipunina fyrir 1. janúar 2003 hefur samgrh. þegar lagt fram frv. til laga um breytingar á lögum um póstþjónustu og varð frv. að lögum nr. 136/2002 í desember sl.

619. mál á þskj. 990, herra forseti, er þáltill. þar sem er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 172, um breytingu á XVIII. viðauka við EES-samninginn, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 14 um almennan ramma um upplýsingamiðlun til launamanna og samráð við þá innan Evrópubandalagsins.

[18:00]

Markmið þessarar tilskipunar er að setja fram lágmarksskilyrði um rétt starfsmanna til upplýsinga og samráðs innan fyrirtækja. Hún gerir ráð fyrir að aðildarríkin skilgreini hvernig staðið skuli að upplýsingum og samráði í samræmi við lög og þær venjur er gilda í samskiptum aðila vinnumarkaðarins í hverju landi. Í tilskipuninni eru settar fram reglur um hvað skuli felast í upplýsingagjöf og samráði við launþega og veittar leiðbeiningar um hvenær samráð skuli eiga sér stað.

Aðildarríkin hafa talsvert svigrúm til að ákveða gildissvið þessara reglna, m.a. hver skuli vera lágmarksfjöldi starfsmanna þeirra fyrirtækja sem reglurnar taka til. Þá er gert ráð fyrir að settar verði reglur um þagnarskyldu fulltrúa launamanna í slíku samráði og annarra sem fá upplýsingar frá fyrirtækjum. Einnig geta aðildarríkin takmarkað rétt launþega til upplýsinga og samráðs þegar talið er að það geti valdið alvarlegu tjóni eða röskun á starfsemi fyrirtækisins.

Almennt skulu aðildarríkin hafa lokið við að innleiða efni þessarar tilskipunar í mars 2005, en þau lönd þar sem samráð af þessu tagi hefur ekki fest sig í sessi fá viðbótarfrest til mars 2008. Heimilt verður að innleiða efni tilskipunarinnar með kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins og hefur hæstv. félmrh. þegar haft samráð og viðræður í því skyni.

Á þskj. 1034, 638. mál, er þáltill. þar sem leitað er heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 142, um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 889, sem felur í sér breytingu á eldri reglugerð ráðsins um bótaábyrgð flugfélaga vegna slysa.

Reglugerðin er tilkomin vegna þess í maí 1999 var á alþjóðavettvangi samþykktur nýr samningur um samræmingu reglna um loftflutninga milli landa, svokallaður Montreal-samningur. Tilgangur þessarar reglugerðar er að laga rétt Evrópusambandsins að efni Montreal-samningsins og miðar hún að samræmingu alls regluverks og bótaábyrgð flugfélaga vegna slysa í samræmi við ákvæði Montreal-samningsins. Þar sem gildistaka reglugerðarinnar er háð gildistöku og fullgildingu samningsins á alþjóðavettvangi, mun hæstv. samgrh. stefna að framlagningu frv. til innleiðingar ákvæða hennar á 130. löggjafarþingi, þegar áætlað er að leggja fram þáltill. til fullgildingar á Montreal-samningnum.

Í síðasta lagi, herra forseti, er á þskj. 1035, 639. mál, þáltill. sem fjallar um kröfu um gjaldþol líftryggingafyrirtækja og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um kröfu um gjaldþol skaðatryggingafyrirtækja.

Í löggjöf Evrópusambandsins eru í gildi sérstakar tilskipanir um líftryggingar annars vegar og um skaðatryggingar hins vegar. Þessi aðgreining á sér ekki hefð í íslenskri löggjöf og gilda lög um vátryggingastarfsemi hér um allt sviðið. Því er leitað eftir staðfestingu þessara tveggja ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar í þessari þáltill., enda gilda sömu sjónarmið um innleiðingu tilskipananna í íslenskan rétt. Þær gera kröfu um breytingar á gjaldþolsreglu vátryggingafélaga, en gjaldþol er mælikvarði á fjárhagslegan styrk þessara fyrirtækja. Tilskipanirnar mæla t.d. fyrir um lágmarksgjaldþol sem verði 255 millj. kr., en auk þess eru ákvæði um eftirlit stjórnvalda um vátryggingastarfsemi og hert er á kröfum til vátryggingafélaga við tilteknar aðstæður. Frv. hæstv. viðskrh. til innleiðingar ákvæða tilskipananna í íslenska löggjöf er nú til umfjöllunar á hv. Alþingi.

Herra forseti. Ég vil leggja til að að lokinni þessari umræðu verði þessum fjórum tillögum vísað til hv. utanrmn.