Breyting á XI. viðauka við EES-samninginn

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 18:05:14 (4227)

2003-02-27 18:05:14# 128. lþ. 85.12 fundur 618. mál: #A breyting á XI. viðauka við EES-samninginn# (póstþjónusta) þál. 22/128, 619. mál: #A breyting á XVIII. viðauka við EES-samninginn# (upplýsingamiðlun til launamanna o.fl.) þál. 23/128, 638. mál: #A breyting á XIII. viðauka við EES-samninginn# (bótaábyrgð flugfélaga) þál. 24/128, 639. mál: #A breyting á IX. viðauka við EES-samninginn# (gjaldþol tryggingafyrirtækja) þál. 25/128, RG
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[18:05]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Við Þórunn Sveinbjarnardóttir, fulltrúar Samfylkingarinnar í utanrmn., munum ekki lengja þessa umræðu. Eins og fram hefur komið er fyrsta málið þess eðlis að frv. byggt á ákvörðun þessari hefur þegar orðið að lögum og í síðasta málinu er þegar komið nál. við það frv. sem þegar hefur verið flutt, en nál. er samhljóða afstaða allra flokka þar sem lagt er til að málið verði að lögum. Sömuleiðis eru hin málin skýr og einföld.

En það er ein spurning í einu málinu, sem er á þskj. 990 og fjallar um lágmarksskilyrði um rétt starfsmanna til upplýsinga og samráðs innan fyrirtækja. Hæstv. utanrrh. upplýsti að félmrh. hefði þegar hafið samráð um þau skilyrði sem kveðið er á um í þessu máli. En hér segir að aðildarríkin geti valið fyrir hversu stór fyrirtæki tilskipunin skuli gilda, þ.e. hvort hún gildi um fyrirtæki sem hafa a.m.k. 50 starfsmenn í vinnu eða fyrirtæki með a.m.k. 20 starfsmenn.

Eðli markaðarins hjá okkur er auðvitað þannig að máli skiptir hvort ákvörðun hafi verið tekin eða hvernig sú ákvörðun verður, þ.e. hvort við ætlum að vera með 20 eða 50. Það er spurning mín til hæstv. utanrrh.