Norræna ráðherranefndin 2002

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 18:16:41 (4230)

2003-02-27 18:16:41# 128. lþ. 85.2 fundur 572. mál: #A Norræna ráðherranefndin 2002# skýrsl, ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[18:16]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. samstarfsráðherra Norðurlanda fyrir hönd Íslandsdeildar fyrir hennar ágætu ræðu og fyrir það umfangsmikla starf sem fram fer hjá ráðherranefnd Norðurlanda. Þar sem ekki er gert ráð fyrir að formenn mæli fyrir skýrslum sem gefnar eru út á ári hverju um starf viðkomandi nefndar ætla ég í stuttu máli að gera grein fyrir því sem helst hefur gerst á sviði Norðurlandaráðs á síðasta ári.

Í raun og veru má segja að þrennt hafi einkennt starf Norðurlandaráðs árið 2002. Í fyrsta lagi var nýtt nefndarskipulag innleitt. Horfið var frá þremur svæðisnefndum sem áður höfðu starfað og teknar upp fimm málefnanefndir auk forsætisnefndar. Í öðru lagi má benda á að á árinu var haldið upp á og fagnað sérstaklega 50 ára afmæli Norðurlandaráðs. Það var gert m.a. í Helsinki á Norðurlandaráðsþingi og einnig var haldin mikil og merkileg þemaráðstefna á Íslandi sem Íslandsdeild Norðurlandaráðs undirbjó. Í þriðja lagi má nefna að í umræðunni var mjög mikið talað um landamærahindranir á Norðurlöndum og sú umræða var í brennidepli á sviði Norðurlanda á síðasta ári.

Forsögu þessara breytinga má rekja til þess að 1995 var starfsemi ráðsins í rauninni beint í þrjá farvegi, þ.e. samvinnu innan Norðurlanda í ákveðinni nefnd sem hét Norðurlandanefnd. Einnig samvinnu Norðurlanda og Evrópu í Evrópunefnd, sem fjallaði einkum málefni ESB og EES, og síðan samvinnu Norðurlanda og nærsvæða í svokallaðri nærsvæðanefnd. Forsætisnefnd var stækkuð og auk þess var líka starfandi sérstök eftirlitsnefnd.

Ákveðið var að halda eitt þing að hausti í stað tveggja áður og auk þess var ákveðið að halda sérstakar þemaráðstefnur um afmörkuð mál sem snerta norræna samvinnu. Þá var einnig lögð mikil áhersla á að auka flokkastarf. Flokkastarfið skiptist í fjóra meginþætti, þ.e. sósíaldemókratar vinna saman í Norðurlandaráði, miðjumenn vinna saman, hægri menn vinna saman og vinstri sósíalistar og grænir vinna saman þannig að í raun og veru er um fjóra meginflokka að ræða í þessu starfi.

Þegar fjallað var um fyrra skipulag þótti það um margt vel takast en gagnrýnin beindist þó helst að því að mönnum fannst nauðsynlegt að vera með sérstakar málefnanefndir því annars næðist ekki æskileg samræming við fastanefndir norrænu ráðherranefndarinnar eða við fagnefndir norrænu þjóðþinganna og alþjóðastofnanir. Þess vegna var það árið 1999 að norræna ráðherranefndin setti á fót sérstaka nefnd sem kölluð var aldamótanefndin og hlutverk nefndarinnar var að fara ofan í saumana á norrænu samstarfi. Aldamótanefndin skilaði síðan skýrslu sem heitir Norðurlönd 2000 umvafin vindum veraldar. Skýrslan var síðan tekin til umræðu á 52. þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík í nóvember árið 2000. Formaður þeirrar nefndar er Jón Sigurðsson, framkvæmdastjóri í Norræna fjárfestingarbankanum, fyrrv. ráðherra og þátttakandi í norrænu samstarfi. Á grundvelli þeirrar skýrslu vann Norðurlandaráð og norræna ráðherranefndin að framtíðardagskrá og fyrirkomulagi norræns samstarfs í skýrslu sem hét Ný norræn dagskrá, svar við skýrslu aldamótanefndarinnar. Sú skýrsla var síðan lögð fram á 53. þingi Norðurlandaráðs en þar var samþykkt að hverfa frá fyrra skipulagi og taka þess í stað upp fimm málefnanefndir auk forsætisnefndar en markmið hins nýja nefndarfyrirkomulags er að tryggja samspil og samskipti norrænu ráðherranefndarinnar, þjóðþinganna og alþjóðastofnana og tengja betur saman markvisst starf þessara aðila.

Að vanda hélt Íslandsdeild Norðurlandaráðs fundi til undirbúnings fyrir ráðstefnur, fyrir fundi í Norðurlandaráði og fyrir þingin. Talsverður tími fór í að undirbúa þemaráðstefnu sem haldin var í tilefni 50 ára afmælis Norðurlandaráðs en hún var haldin í Reykjavík 14.--16. apríl sl. og þótti takast vel. Um þá ráðstefnu er sérstaklega fjallað í V. kafla skýrslunnar.

8. nóvember stóð Íslandsdeild Norðurlandaráðs fyrir dagskrá í Norræna húsinu í samvinnu við Norræna húsið þar sem kynnt var sérstakt afmælisrit sem gefið var út í tilefni af 50 ára afmæli Norðurlandaráðs. Framsögðumenn á þeirri ráðstefnu voru Knud Enggaard, fyrrv. forseti Norðurlandaráðs og fyrrv. ráðherra í dönsku ríkisstjórninni, og Eiður Guðnason sendiherra sem einnig er fyrrv. ráðherra en í íslenskri ríkisstjórn og fyrrv. samstarfsráðherra Norðurlanda og var mjög virkur þátttakandi í norrænu samstarfi á sínum tíma. Einnig héldum við blaðamannafundi bæði fyrir Norðurlandaráðsþing og eins fyrir þemaráðstefnu og við erum þakklát fyrir það að fjölmiðlar á Íslandi hafa sýnt norrænu samstarfi talsvert mikinn áhuga og sérstaklega í tilefni þessa 50 ára afmælis.

Af hálfu Íslandsdeildar sat Rannveig Guðmundsdóttir í forsætisnefnd, en hún er gamalreyndur nordisti. Forseti Norðurlandaráðs á síðasta ári var Outi Ojala sem er finnsk og hún tók við embætti af Svend Erik Hovmand sem er núverandi skattamálaráðherra dönsku ríkisstjórnarinnar. En í menningar- og menntamálanefnd sátu Sigríður Jóhannesdóttir og Ísólfur Gylfi Pálmason, en hann var jafnframt varaformaður þessarar nefndar. Helstu mál nefndarinnar voru að fjalla um listir og menningarmál sem tengjast Norðurlöndum og m.a. skipulagði Íslandsdeild Norðurlandaráðs sérstakt málþing um Vestur-Norðurlönd. Þar voru m.a. framsögumenn Jógvan Durhuus, fyrrv. varaformaður Vestnorræna ráðsins, Sölvi Sveinsson rektor, Jón Yngvi Jóhannsson, bókmenntafræðingur og meðlimur í ritstjórn tímaritsins Nordisk Litteratur, og Benedikte Thorsteinsson, fyrrv. félagsmálaráðherra í Grænlandi og núverandi forstöðumaður Vestnorræna menningarhússins í Hafnarfirði.

Í kjölfar þessa málþings kom nefndin, þ.e. mennta- og menningarmálanefndin, á fót sérstakri nefnd um vestnorrænt samstarf og hópstjóri var sá sem hér stendur, enda var þessi tillaga mótuð og unnin af miðjuhópnum sem ég tek þátt í. Í efnahags- og viðskiptanefnd sátu árið 2002 Sigríður Anna Þórðardóttir sem var formaður nefndarinnar og Steingrímur J. Sigfússon sem var varaformaður. Þau eru mjög virk í norrænu samstarfi og hafa staðið sig, eins og reyndar allir aðrir þátttakendur í þessu starfi, af mikilli prýði.

Í umhverfis- og náttúruverndarnefnd situr Arnbjörg Sveinsdóttir og auk þess situr hún í eftirlitsnefnd. Hún hefur látið sig mjög varða málefni um hvalveiðar og annað slíkt og skipta þau mál okkur að sjálfsögðu miklu.

Í velferðarnefnd situr Drífa Hjartardóttir. Síðan er enn ein nefndin sem heitir borgar- og neytendanefnd. Þar eigum við í raun og veru ekki fulltrúa eða áttum ekki fulltrúa árið 2002 en sú nefnd fjallar um lýðræði, mannréttindi, borgararéttindi, neytendamál, hollustu og matvælamál, baráttu gegn glæpa\-starfsemi, löggjöf innflytjenda, flóttafólk og baráttu gegn kynþáttafordómum.

Þá ætla ég að víkja næst að verðlaunum sem eru veitt af hálfu Norðurlandaráðs. Það eru þrenn verðlaun sem í gegnum tíðina hafa verið veitt af Norðurlandaráði, þ.e. bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs og einnig varðandi umhverfismál. Og auk þess voru að þessu sinni veitt sérstök kvikmyndaverðlaun og það er líklegt að því verði haldið áfram en þessi þrennu föstu verðlaun eru veitt árlega og heildarupphæð þessara verðlauna eru 350 þús. danskar krónur.

Það er af mörgu að taka þegar fjallað er um málefni sem varða Norðurlandaráð og í skýrslunni á bls. 14 og 15 eru fylgiskjöl þar sem eru alls 44 mál er varða tilmæli, ummæli og ákvarðanir um málefni sem samþykkt voru á 54. þingi Norðurlandaráðs og ætla ég ekki að telja þau upp hér.

Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka Íslandsdeildinni fyrir mjög gott samstarf og starfsfólki okkar fyrir mjög gott samstarf. Óhætt er að segja að nefndin er mjög virk og það skiptir okkur miklu máli. Í 50 ára merkilegri sögu Norðurlandaráðs hafa margir merkir áfangar gerst í starfi og við hugsum með miklu þakklæti til allra þeirra sem af Íslands hálfu hafa tekið þátt í þessu samstarfi gegnum tíðina. Starfið er einstakt í sambandi við samvinnu þessara grannþjóða og það hefur komið fram í umræðu í dag þegar við fjöllum um utanríkismál hversu miklu máli þessi norræna samstaða skiptir okkur. Það er alveg sama hvað mikið gerist í heiminum. Við höldum vel saman. Eins og kom líka fram í skýrslu utanrrh. fyrr í dag látum við okkur mjög varða samstarf við Grænland og Færeyjar sem eru grannríki okkar og það var í raun og veru mjög merkilegt að sjá þær tölur sem birtust í skýrslu utanrrh. þegar talað er um að útflutningur til Færeyja árið 2001 voru 2,5 milljarðar þegar útflutningur til Kína er 1,6 milljarðar og til Rússlands 1,3 milljarðar. Þetta sýnir okkur í raun og veru hvað þetta starf skiptir okkur miklu máli og við eigum að kappkosta að treysta samstarf við Vestur-Norðurlönd um leið og við eigum að vera baráttufólk fyrir vestnorrænt samstarf í okkar ágæta norræna samstarfi.