Norræna ráðherranefndin 2002

Fimmtudaginn 27. febrúar 2003, kl. 18:48:48 (4233)

2003-02-27 18:48:48# 128. lþ. 85.2 fundur 572. mál: #A Norræna ráðherranefndin 2002# skýrsl, ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 85. fundur, 128. lþ.

[18:48]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en vil taka undir orð annarra hv. þm. sem hafa rætt samstarf Norðurlandanna. Þar er um mikilsvert samstarf að ræða og mætti kannski segja að hryggstykkið í íslenskri utanríkispólitík sé þetta góða samstarf sem við eigum við Norðurlandaþjóðirnar, bæði í Norðurlandaráði og norrænu ráðherranefndinni.

Það kom fram í máli formanns Íslandsdeildar að ég á sæti í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd sem fjallar um mál sem snúa að umhverfismálum, landbúnaði, skógrækt, sjávarútvegi og sjálfbærri þróun og reyndar einnig að orkumálum. Í þeirri nefnd höfum við m.a. skoðað málefni sem snúa að Sellafield-kjarnorkuverinu. Við fórum einnig og skoðuðum kjarnorkuver í Vilníus en einna helst höfum við skoðað málefni hafsins, fiskveiðikerfi og lífkerfi hafsins, hvernig menn hafa skapað fiskveiðikerfi, hvernig eftirliti með þeim er háttað og efnahagslegan ávinning.

Það sem ég benti á sérstaklega í þessu sambandi voru hvalamálin. Ákveðið var að halda ráðstefnu um hvalamál og var hún haldin í byrjun febrúar í Svíþjóð, ekki síst fyrir það að Svíar hafa haft mjög sérkennilega afstöðu til hvalveiða. Þeir hafa að mörgu leyti gert út á það í utanríkispólitík sinni að vera á móti hvalveiðum og brutu í raun á okkur Íslendingum þegar við sóttum um aðild að Alþjóðahvalveiðiráðinu. Sú afstaða sem Svíar tóku til óskar Íslands um inngöngu í Alþjóðahvalveiðiráðið var afar sérstök. Okkur þótti tilefni til að ræða þetta sérstaklega og reyna að skýra umræðuna, pólitísku umræðuna og umhverfishlið hennar.

Það má benda á að að mati margra okkar er mikill tvískinnungur í afstöðu Svía, t.d. hvernig þeir nýta landspendýr og veiða elg í Svíþjóð. Það þykir sjálfsagt þar en þegar litið er til hvalsins hafa þeir allt aðra afstöðu. Við spurðum einfaldlega: Hver er munurinn á nýtingu sjávarspendýra og landspendýra? Þetta var eitt af umfjöllunarefnunum á þessari ágætu ráðstefnu. Ég er ekki að segja að úr því hafi komið ein niðurstaða en þetta opnaði sannarlega umræðuna.

Við höfum orðið vör við að frændur og vinir okkar í Færeyjum og Grænlandi voru þakklátir fyrir að þessi umræða færi fram innan Norðurlandaráðs, að þessi umræða um hvalveiðimálin og veiðar á sel lægi ekki algjörlega í þagnargildi innan hins norræna samstarfs. Ég á von á að innan nefndarinnar verði á aprílfundum nefndarinnar áfram unnið og reynt að móta stefnu um áframhaldandi umræðu og hvernig við eigum að fara í þessa umræðu á næsta Norðurlandaráðsþingi.

Ég vildi að það kæmi fram, hæstv. forseti, að þarna var mjög áhugaverð og góð ráðstefna sem ég held að eigi eftir að brjóta ísinn í umræðu um þessi mál innan Norðurlandaráðs.

Ég á einnig sæti í eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs. Sú nefnd hefur lokið úttekt á norrænum styrkjum til rannsókna sem veittir eru í gegnum framlög norrænu ráðherranefndarinnar. Þetta var þörf úttekt. Síðan átti ég frumkvæði að því að ákveðið var að eftirlitsnefnd gerði úttekt á því hvernig hið nýja skipulag Norðurlandaráðs mundi virka. Hitt verkefnið sem við höfum unnið að á þessu ári er heildarúttekt á upplýsingastarfi Norðurlandaráðs og norrænu ráðherranefndarinnar. Það hefur stundum þótt vera þannig að hið norræna samstarf, sem er svo geysilega mikilvægt fyrir okkur Íslendinga, sé ekki nægilega sýnilegt og almenningur sé ekki nægilega upplýstur um hvað er verið að gera á þessu sviði.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu.