Upplýsingaskylda um launakjör

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 15:09:36 (4245)

2003-03-03 15:09:36# 128. lþ. 86.1 fundur 453#B upplýsingaskylda um launakjör# (óundirbúin fsp.), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[15:09]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Kauphöllin hefur ráðist í það þarfa verk að setja reglur um upplýsingaskyldu um launakjör og hvers konar kaupauka og hlunnindi stjórnenda hlutafélaga sem skráð eru í Kauphöllinni. Nú hefur Fjármálaeftirlitið heimild til að setja sambærilegar reglur um upplýsingaskyldu lífeyrissjóða og sparisjóða um launakjör stjórnenda þeirra. Vísa ég þar til 40. gr. laga um skyldutryggingu lífeyris og starfsemi lífeyrissjóða og 57. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði. Full ástæða er til að sambærileg upplýsingaskylda gildi um þessa aðila, ekki síst lífeyrissjóðina.

Forsvarsmenn lífeyrissjóðanna sem velta hundruðum milljarða kr., en eignir lífeyrissjóðanna eru nálægt 700 milljörðum kr., starfa í umboði fólksins sem greiðir til lífeyrissjóðanna og á þá. Stjórnendur lífeyrissjóðanna hafa því þær skyldur við umbjóðendur sína að starfa fyrir opnum tjöldum og sýna ráðdeild og sparnað í yfirbyggingu sjóðanna, þar með talið launakjörum og hvers konar hlunnindum til stjórnenda og stjórna sjóðanna. Því vil ég spyrja hæstv. viðskrh. hvort ráðherrann hafi í hyggju að beita sér fyrir því við Fjármálaeftirlitið að það setji reglur um upplýsingaskyldu lífeyrissjóða og sparisjóða um launakjör stjórnenda þeirra sambærilegar þeim sem Kauphöll Íslands hefur sett um kauphallarskráð félög.