Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 17:20:47 (4298)

2003-03-03 17:20:47# 128. lþ. 86.11 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[17:20]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 28/1993, um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins. Áður hafði iðnrh. leyfi til að selja allt að 25% hlut í verksmiðjunni en yrði samkvæmt þessu frv. heimilað að selja allan eignarhluta ríkissjóðs í Sementsverksmiðjunni hf.

Sementsverksmiðja ríkisins tók til starfa á Akranesi síðla árs 1958. Henni var eins og áður sagði breytt í hlutafélag árið 1993 og heitir nú Sementsverksmiðjan hf. Öll hlutabréf í fyrirtækinu eru í eigu ríkisins og verða náttúrlega ekki seld öðrum nema með samþykki Alþingis. (Gripið fram í.) Ég hef áður getið um að heimild var fyrir sölu á 25% hlut.

Virðulegi forseti. Ég vil minna á tvær þáltill. sem við, hv. þm. Jón Bjarnason og sá sem hér stendur, höfum flutt á þskj. 133, till. til þál. um úttekt á framtíðarhlutverki Sementsverksmiðjunnar hf. við förgum spilliefna. Þar fórum við fram á að Alþingi ályktaði að fela iðnrh. að gera úttekt á framtíðarhlutverki Sementsverksmiðjunnar hf. á Akranesi við förgum spilliefna sem til falla í landinu, þá sérstaklega orkuríkra spilliefna og öðrum iðnaðarúrgangi.

Það er alveg ljóst að Sementsverksmiðjan gæti haft gríðarlega miklu hlutverki að gegna varðandi förgun orkuríkra úrgangsefna í framtíðinni. Það eru stöðugt gerðar hertari kröfur til þess hvernig fargað er og hverju á að farga. Það fellur gríðarlegt magn til í landinu af úrgangsolíum af ýmsu tagi, timbri og gúmmíafgöngum. Pappír sem til fellur er t.d. um 15--20 þús. tonn, timbur 14--15 þús. tonn, dagblöð 10--12 þús. tonn, plast 1.500--2.000 tonn og hjólbarðar álíka, um 1.500--2.000 tonn. Verksmiðjan hefur þreifað fyrir sér með förgun orkuríkra úrgangsefna og eins og málin standa fargar verksmiðjan um 5 þús. tonnum af fljótandi efnum. Það eru nær eingöngu úrgangsolíur.

Virðulegi forseti. Ég og hv. þm. Jón Bjarnason fluttum einnig till. til þál. um úttekt á verðmyndun á innfluttu sementi. Eins og kunnugt er hefur verksmiðjan átt í gríðarlegri samkeppni upp á síðkastið. En það verður þó að taka fram að Sementsverksmiðja ríkisins hefur aldrei haft einokunarstöðu á íslenskum markaði. Það hefur alltaf verið heimilt að flytja inn sement til landsins en Danir hættu því tveimur árum eftir að verksmiðjan tók til starfa og hafa ekki komið inn á markað síðan. Þeir hafa komið inn á markaðinn með miklum hamagangi síðustu árin og hafa náð um 20--25% hlutdeild af markaðnum.

Í umræðum um þetta mál, virðulegi forseti, vil ég draga fram að við hjá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði erum í sjálfu sér ekki á móti því að selja verksmiðjur eða framleiðslutæki líkt og Sementsverksmiðjuna. Okkur er hins vegar mjög mikið í mun að staða verksmiðjunnar verði tryggð og áfram verði sementsframleiðsla í landinu. Við lítum svo á, og ég hef ástæðu til að draga það fram sérstaklega, að á sementsmarkaðnum hafa Danir skilgreint Ísland, Færeyjar og Danmörku sem heimamarkað sinn, í samningum sínum og samkeppni við aðrar verksmiðjur á þessu sviði í landinu. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur. Þetta er hápólitískt mál. Ef Danir geta skilgreint Ísland sem heimamarkað varðandi sölu á sementi og þar með sýnt tilburði til að ryðja samkeppnisaðilum út af markaði þá er flest undir í þessu landi, ef við tökum iðnaðinn í heild sinni. Út frá þessum sjónarhóli er mjög mikilvægt að við skoðum stöðu okkar vel og lærum að þekkja hvaða aðferðir við getum notað til að tryggja og styrkja iðnað okkar í samkeppni við aðra.

Það er alveg ljóst að ef skilgreining Dana á Íslandi sem heimamarkaði fyrir sementsframleiðslu heldur í öðrum greinum þá er iðnaðurinn í stórhættu í landinu yfir höfuð. Það mætti t.d. taka allan málningarvöruiðnaðinn, drykkjarvöru og hreinlætisvöruframleiðsluna alla. Þá eru kannski upp talin stærstu svið iðnaðarframleiðslu landsins. Þetta er meginspurning sem við verðum að fá svarað. Við verðum að vinna út frá því.

Virðulegi forseti. Með flutningi þáltill. um að kortleggja eða gera úttekt á framtíðarhlutverki verksmiðjunnar við förgun spilliefna er hugsunin sú að farið yrði í markvissa vinnu þar sem kortlagt yrði hvernig verksmiðjan gæti komið að förgunarmálum og hvernig hægt væri að styrkja fjárhagslega stöðu verksmiðjunnar með því að fela henni þetta hlutverk.

Skilagjald á margvíslegri brennanlegri vöru er í sjónmáli og og slíkt hefur í sumum tilfellum verið samþykkt. Það er augljóst að okkur ber skylda til að farga þessum efnum á viðeigandi hátt, annaðhvort með því að nota fyrirtæki eins og Sementsverksmiðjuna hf. og láta hana hafa það hlutverk, eða þá með byggingu nýrra förgunarstöðva af ýmsu tagi sem yrði alveg gríðarlega kostnaðarsamt. Að mínu mati hefði átt að fara að þessari þáltill. og hefja strax vinnu við að gera úttekt á því hvernig styrkja mætti stöðu verksmiðjunnar á þessum grunni og renna styrkari stoðum undir reksturinn og þar með samkeppnisstöðu verksmiðjunnar gagnvart innflutningsaðilum. Þetta hefur ekki verið gert nema að litlu leyti. Ég drap á það áðan að verksmiðjan fargar nú þegar um 5.000 tonnum af fljótandi efnum og það eru nær eingöngu úrgangsolíur.

Virðulegi forseti. Ég tel að það verði að fara mjög nákvæmlega yfir þetta mál. Á bak við frv. er sú hugsun iðnrh. að selja verksmiðjuna alla til einhverra aðila sem væntanlega mundu vilja reka hana áfram og framleiða sement í verksmiðjunni áfram.

Ómaklegur áróður hefur verið rekinn gegn Sementsverksmiðjunni hf. á Akranesi og gæðum sementsins. Ég tel ástæðu til að það komi fram hér í þingræðu. Í fjölmiðlum var nýverið látið að því liggja að gæði sementsins væru takmörkuð og sementið væri það slæmt að það hefði t.d. aldrei verið notað í virkjanir. Þetta er ekki rétt, eftir þeim upplýsingum sem ég hef fengið. Allar virkjanir sem hafa verið byggðar á Íslandi hingað til, skilst mér, hafa eftir tilkomu verksmiðjunnar notað sement frá Sementsverksmiðju ríkisins. Þar er því einhver misskilningur í gangi um að gæði sementsins séu ekki nógu mikil.

Mér er jafnframt sagt að alkalískemmdir og vandamál þeim tengd séu sérstaklega hér á Suðvesturlandi og Suðurlandi, það séu fyrst og fremst tæknileg atriði varðandi uppsteypu húsa en ekki það að sementið sem slíkt valdi vandræðum.

[17:30]

Virðulegi forseti. Ég held að það verði að koma algjörlega skýrt fram í nefndarvinnu hver vilji ríkisins er. Og vil ég þá spyrja hæstv. iðnrh. hvort það verði kappkostað að verksmiðjan muni, eftir sölu, í höndum nýrra eignaraðila eiga möguleika á því að starfa áfram og framleiða sement á Akranesi. Það er mjög mikilvægt. Eins og við þekkjum úr viðskiptaheiminum er það viðtekin venja þeirra sem hasla sér völl á nýjum mörkuðum að ryðja samkeppnisaðila út af markaði og sitja síðan einir að markaðnum í framhaldi af því og geta þá ráðið verðinu eins og kunnugt er. Þetta gildir ekki bara um sement, heldur almennt séð í viðskiptalífinu.

Og eftir þeim upplýsingum sem við höfum fengið varðandi stöðu og rekstur sementsverksmiðja í Evrópu er það þannig að þessir aðilar virðast hafa myndað með sér einhvers konar ,,cartel`` og svæðaskipt Evrópu, og þar af leiðandi hafa stóru fyrirtækin sem hafa skilgreint sinn heimamarkað fengið skotleyfi á minni verksmiðjur og hafa rutt þeim úr starfsemi í stríðum straumum undanfarin missiri og ár. Ef maður skilur hugsun Aalborg Portland manna rétt, að þeir skilgreini Ísland sem sinn heimamarkað, gefur það þeim náttúrlega --- út frá þeirri hugsun --- leyfi, án þess að hinir aðilarnir í starfseminni geri athugasemdir, til þess að ryðja litlum samkeppnisaðila úr vegi. Það liggur alveg augljóst fyrir.

Virðulegi forseti. Að mínu mati hefði verið betra að fara yfir og skoða framtíðarhlutverk verksmiðjunnar. Ég held að það geti skipt hundruðum milljóna króna sem væri hægt að setja inn í rekstur verksmiðjunnar með því að gefa henni framtíðarhlutverk við förgun orkuríkra spilliefna. En sú vinna hefur ekki farið í gang, a.m.k. er hún ekki komin til framkvæmda. Ég hefði talið að hagsmunum ríkisins væri betur borgið ef menn hefðu í hendi skipulag og áætlanir um það hvernig væri hægt að vinna í verksmiðju af þessu tagi. Það er augljóst að miðað við núverandi ástand yrði verksmiðjan að seljast ákaflega ódýrt vegna þess að það er ekki búið að ganga frá þessum grunnatriðum varðandi rekstur hennar.

Virðulegi forseti. Ég hef í sjálfu sér kannski ekki svo mikið meira um þetta mál að segja. Ég tel mjög mikilvægt og við munum fylgja því eftir í þingnefndinni að hæstv. iðnrh. og ríkisstjórnin geri grein fyrir vilja sínum og gefi henni einhvers konar upplýsingar --- þær hljóta nú að liggja fyrir --- um það hvaða aðilar hugsanlega kæmu til með að kaupa hlutabréf ríkisins og hver framtíðarsýn þeirra er varðandi rekstur verksmiðjunnar eftir að væntanleg kaup hafa farið fram. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að fá að vita það og í ljósi þessa munum við taka afstöðu til þess hvernig við lítum á málið. Eins og ég sagði áðan er það í sjálfu sér ekkert sáluhjálparatriði af okkar hálfu að verksmiðja af þessu tagi sé í ríkiseign. Það er mjög mikilvægt að verksmiðjan fái framtíðarhlutverk og að við stöndum frammi fyrir því að þessi starfsemi haldi áfram á Akranesi og verksmiðjan verði ekki keypt af samkeppnisaðila óbeint sem bakstuðningur einhvers fyrirtækis, bara í því augnamiði að leggja hana niður. Það er samdóma álit þeirra sem eru í þessum bransa í landinu, þ.e. steypustöðvaiðnaðinum, a.m.k. þeirra sem ég hef talað við, að það væri bransanum stórhættulegt og náttúrlega byggingariðnaðinum í heild sinni, líka vegna fjölbreytni í framleiðslu, ef þessi verksmiðja dytti út og samkeppnisaðilar, t.d. Aalborg Portland, mundu hasla sér völl á íslenska markaðnum.

Með þessar hugrenningar mun ég fara í þá vinnu sem stendur fyrir dyrum í iðnn. og við munum ræða þau mál sem varða þessa verksmiðju og þá grunnhugsun sem ríkisstjórnin og þar með hæstv. iðnrh. hefur um framtíðarmöguleika verksmiðjunnar á nýjum grunni.