Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 18:15:08 (4305)

2003-03-03 18:15:08# 128. lþ. 86.11 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[18:15]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég verð bara að vísa til þeirrar þáltill. sem við hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson fluttum um að gerð yrði úttekt á verðmyndun á innfluttu sementi og síðan tekið á því máli út frá því. Þessi tillaga er enn þá óafgreidd frá iðnn. og tekur á þeim atriðum bæði sem ég nefndi hér og sem hv. þm. Jóhann Ársælsson nefndi varðandi þessa samkeppnisstöðu. Mér finnst það ábyrgðarhluti, herra forseti, af hálfu stjórnvalda að þau skuli ekki hafa haft myndugleika til að taka á þessu máli. Það er ábyrgðarhluti og ámælisvert.

Varðandi spurningu hv. þm. um sölu verksmiðjunnar og skoðun okkar hv. þm. Árna Steinars Jóhannssonar á því þá fara skoðanir okkar að sjálfsögðu saman því að við teljum að ríkið sé að bregðast og hafi brugðist hlutverki sínu sem eigandi og ábyrgðarmaður þessa fyrirtækis og við teljum það dapurlegt ef sterkustu rökin fyrir því að selja þurfi fyrirtækið eru þau að ríkið sé svo afleitur eigandi að þess vegna verði að gera það. Það finnast mér dapurlegustu rökin sem hér hafa verið flutt fyrir þessu.

Ég tel, og það höfum við lagt til í þáltill. okkar um málefni Sementsverksmiðjunnar, að skoða eigi allar hliðar á því að tryggja stöðu hennar og rekstur áfram. Ég tel að ríkið ætti að axla þá ábyrgð að taka ákvörðun um framtíðarhlutverk verksmiðjunnar eins og við höfum lagt til og gera það áður en hún er sett á sölulista. Það að henda henni með þessum hætti inn á sölulista finnst mér alveg fádæma óábyrg aðgerð af hálfu ríkisvaldsins.