Stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins

Mánudaginn 03. mars 2003, kl. 18:26:02 (4308)

2003-03-03 18:26:02# 128. lþ. 86.11 fundur 648. mál: #A stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins# (sala á eignarhluta ríkissjóðs) frv. 62/2003, MS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 86. fundur, 128. lþ.

[18:26]

Magnús Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þekki þessa umræðu sem hv. þm. var að vísa í af hálfu hinna dönsku aðila. Það er auðvitað það sem menn óttast, þ.e. að ef sementsframleiðsla leggst af þá verði hér dönsk einokun. Ég geri ráð fyrir því að þar gildi sömu lögmál og í annarri samkeppni, að verð muni hækka. En ég minni á það að eftir því sem ég best veit eru mál Sementsverksmiðjunnar í meðförum hjá samkeppnisyfirvöldum. Ég tel að þau séu enn þá í meðförum hjá ESA. Niðurstöður þar liggja ekki fyrir þannig að málið er enn þá í meðförum samkeppnisyfirvalda og fróðlegt verður að sjá hverjar niðurstöður verða þar.