Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 13:38:02 (4360)

2003-03-05 13:38:02# 128. lþ. 88.5 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, iðnrh. (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 128. lþ.

[13:38]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Komið er að lokum umfjöllunar Alþingis tengdri stóriðjuframkvæmdum á Austurlandi. Það hefur verið einstök upplifun að fá að vera þátttakandi í því gríðarlega undirbúningsstarfi sem hér um ræðir. Ég er stolt af hæfni íslenskrar stjórnsýslu, starfsmanna Landsvirkjunar og verkfræðistofa sem hafa gert það að verkum að við höfum náð markmiðum okkar. Þá hefur samstarfið við sveitarfélagið Fjarðabyggð verið einstakt og það sama er að segja um sveitarfélögin Fljótsdalshrepp og Norður-Hérað. Langþráður draumur Austfirðinga er að rætast. En það sem mestu máli skiptir er að við erum að auka landsframleiðslu um 1% og útflutningstekjur um 12%. Þessi framkvæmd mun því koma öllum Íslendingum til góða og mun styrkja undirstöður þjóðfélagsins.

Lykillinn að því að hægt er að fara út í þessar framkvæmdir er að íslenskum stjórnvöldum tókst að fá samþykkt svokallað íslenskt ákvæði í tengslum við Kyoto-bókunina. Það skiptir máli að stjórnvöld og stjórnmálaflokkar hafi markmið og leggi sig síðan fram við að ná þeim markmiðum. Það tókst að þessu sinni. Þetta er stór dagur í íslenskri atvinnusögu. Ég segi já.