Álverksmiðja í Reyðarfirði

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 13:39:49 (4362)

2003-03-05 13:39:49# 128. lþ. 88.5 fundur 509. mál: #A álverksmiðja í Reyðarfirði# frv. 12/2003, ÖJ (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 88. fundur, 128. lþ.

[13:39]

Ögmundur Jónasson (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Virkjun við Kárahnjúka er forsenda þess að álverksmiðja Alcoa-hringsins rísi við Reyðarfjörð. Við umræðuna í tengslum við stóriðjuáform stjórnvalda hefur komið fram að ýmsum spurningum er ósvarað um mengunarvarnir og efnahagslegar og fjármálalegar forsendur þessa máls. Þar sem Alcoa-álverið átti að vera fjórðungi minna en Hydro-álverið og engar rafskautaverksmiðjur sem eru mjög mengunarvaldandi var því haldið að þjóðinni að ekki væri þörf á nýju umhverfsmati.

Nú hefur hins vegar komið í ljós að Alcoa ætlar að nýta sér til hins ýtrasta andvaraleysi og ístöðuleysi íslenskra stjórnvalda og er fyrirsjáanlegt að mengunin verður miklu meiri en látið hefur verið í veðri vaka og má nefna að heimild til losunar brennisteinsdíoxíðs verður 12 sinnum meiri en Alþjóðabankinn telur forsvaranlegt samkvæmt stöðlum sem bankinn hefur gefið út. Enginn stuðningur hefur fengist á Alþingi við tillögur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um að óháður aðili verði fenginn til að fjalla um það misræmi og mótsagnir sem fram hafa komið í gögnum Landsvirkjunar og stjórnvalda um fjármálalegar forsendur framkvæmdanna og þær staðhæfingar að blekkingum og sjónhverfingum hafi verið beitt í þessu máli. Það er óforsvaranlegt að afgreiða þetta þingmál sem upphaflega er til komið vegna loforða eða öllu heldur hótana Framsfl. um að gera þungiðnað að hornsteini íslenska efnahagskerfisins.

Við sem viljum beita okkur fyrir fjölbreytni í atvinnulífi Íslendinga höfum varað við þessari stefnu, en ofar öllu öðru viljum við koma í veg fyrir mestu náttúruspjöll Íslandssögunnar sem Kárahnjúkaflokkarnir á Alþingi, Sjálfstfl., Framsfl. og Samfylkingin, verða valdir að ef þessi áform ná fram að ganga.