Greiðslur Tryggingastofnunar fyrir sjúkranudd

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 14:48:15 (4396)

2003-03-05 14:48:15# 128. lþ. 89.5 fundur 616. mál: #A greiðslur Tryggingastofnunar fyrir sjúkranudd# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[14:48]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Almannatryggingarnar taka þátt í kostnaði almennings vegna ýmissar þjónustu í heilbrigðiskerfinu, svo sem heilsugæslu, læknisþjónustu, tannlækninga og sjúkraþjálfunar, svo dæmi séu tekin, og þá eftir ákveðnum reglum. Tryggingastofnun tekur aftur á móti ekki þátt í að greiða ýmsa aðra heilbrigðisþjónustu sem sjúklingum er ekki síður mikilvæg og nauðsynleg. Þar má t.d. nefna sálfræðiþjónustu og sjúkranudd sem sjúklingar verða að greiða að fullu.

Rökin fyrir því að ekki hefur verið samið við fleiri stéttir um greiðsluþátttöku almannatrygginga hafa löngum verið þau að lög heimili slíkt ekki. Nú er það breytt með lagabreytingu frá síðasta ári þar sem samninganefnd Tryggingastofnunar er heimilt að semja við fleiri stéttir.

Sjúkranuddarar hafa verið löggilt heilbrigðisstétt frá 1987. Nám í faginu er aðeins hægt að sækja til Þýskalands og Kanada þar sem íslensk stjórnvöld viðurkenna aðeins nám þaðan. Það er mjög dýrt og varla nema á færi hugsjónamanna að fara í það nám, svo að ég noti orð formanns Félags sjúkranuddara.

Þeir sjúklingar sem þurfa á sjúkranuddi að halda bera skarðan hlut frá borði miðað við þá sem fara t.d. til sjúkraþjálfara en þeir þurfa að greiða meðferðina að fullu á meðan Tryggingastofnun tekur þátt í að greiða sjúkraþjálfunina. Öryrkjar og aldraðir fá ekki niðurgreiðslu af sjúkranuddi. Fátækt fólk getur því ekki leyft sér þessa meðferð.

Sjúkranudd er fyrirbyggjandi meðferð og getur t.d. komið í veg fyrir eða minnkað notkun á bólgueyðandi lyfjum --- þar komum við aftur að lyfjakostnaðinum því að þarna gætum við e.t.v. sparað eitthvað af þeim mikla kostnaði sem ríkið ber af lyfjum. Hér á landi starfa 76 sjúkranuddarar og ársstörf í greininni eru um 30. Þó að samið yrði við sjúkranuddara yrðu útgjöld Tryggingastofnunar því ekki veruleg. En það þarf auðvitað pólitíska ákvörðun til að gera þetta. Það þarf fjárveitingu til að hægt sé að semja við sjúkranuddarana. Því spyr ég hæstv. ráðherra:

Eru áform uppi um að Tryggingastofnun, almannatryggingarnar, taki þátt í að greiða hluta kostnaðar sjúklinga við sjúkranudd?