Greiðslur Tryggingastofnunar fyrir sjúkranudd

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 14:55:15 (4400)

2003-03-05 14:55:15# 128. lþ. 89.5 fundur 616. mál: #A greiðslur Tryggingastofnunar fyrir sjúkranudd# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[14:55]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég tek undir að hér er um mikilvæga starfsemi að ræða. Ástæðurnar fyrir því að ekki eru uppi áform um þessa samninga nú eru fjárhagslegar og vissulega geta fleiri stéttir sótt á með sömu rökum og sagt: Það eru forvarnir í okkar starfsemi. Þess vegna er mikilvægt fyrir okkur að heyja okkur rök í þessu máli. Sparnaðarrökin, ef þau eru fyrir hendi, eru auðvitað innlegg í þetta mál. Sé ljóst að við getum sparað með þessari starfsemi útgjöld á öðrum sviðum er það auðvitað nokkuð sem við verðum að líta á í þessu sambandi.

Staðan í þessu máli er óneitanlega sú, bæði gagnvart þessari stétt og öðrum sem hafa sótt á, að við höfum ekki heimildir á fjárlögum til að auka framlög til sjúkratrygginga fram yfir þá samninga nú þegar gilda. Auðvitað erum við alltaf með þessi mál í skoðun, t.d. hafa klínískir sálfræðingar sótt fast á um samninga, einmitt á sömu forsendum. Starfsemi er sögð fyrirbyggjandi og forvörn á mjög viðkvæmu sviði, sem er til umræðu við næstu fyrirspurn sem flutt verður.