Flutningur hættulegra efna um jarðgöng

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 15:22:39 (4411)

2003-03-05 15:22:39# 128. lþ. 89.7 fundur 647. mál: #A flutningur hættulegra efna um jarðgöng# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[15:22]

Fyrirspyrjandi (Guðjón Guðmundsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þetta svar. Það er auðvitað rétt hjá henni að það skapar aukakostnað fyrir flutningsaðila að fara fyrir Hvalfjörð en ég hef ekki stórar áhyggjur af því. Öryggið kostar einfaldlega peninga og það er ekkert hægt að vorkenna mönnum þó að þeir þurfi að keyra fyrir Hvalfjörð. Ef við tölum um slysahættu á öðrum leiðum er mjög góður varanlegur vegur fyrir Hvalfjörð sem er sáralítið notaður, og ég held að slysahætta yrði ekki mikil þar. En öryggið kostar peninga og við gerum okkur það ljóst.

Svo ég vitni aðeins í skýrsluna sem hæstv. ráðherra nefndi er ég ekki alls kostar sammála þeim tillögum sem þar koma fram. Efninu er, eins og hún segir, skipt í fimm flokka. Í fyrsta lagi er lagt til að banna með öllu flutninga á eldfimu gasi í tönkum og sprengiefni alla daga vikunnar og allan sólarhringinn sem er auðvitað hið besta mál. Í öðru lagi að mánudaga til fimmtudaga kl. 15--20 falli göngin í c-flokk sem þýðir að þá er bannaður flutningur á eldsneyti í tönkum og tómum tönkum og aðeins leyft að flytja gas í hylkjum. Mér finnst ekki nóg að hafa þetta frá kl. þrjú á daginn á virkum dögum. Eins og ég gat um í fyrri ræðu minni er mikil umferð um göngin á morgnana af fólki sem fer daglega til og frá vinnu og það er ekki viðunandi að þetta fólk skuli fá bensín- og olíubíla í fangið á hverjum einasta morgni. Það er einfaldlega ekki boðlegt öryggisins vegna. Í þriðja lagi er lagt til að á föstudögum frá kl. 10 til kl. 1 eftir miðnætti, á laugardögum frá kl. 7 til kl. 1 eftir miðnætti og á sunnudögum frá kl. 7 til kl. 24 verði göngunum með öllu lokað. Það er út af fyrir sig allt í lagi en athugasemdir mínar við þessa tillögu eru fyrst og fremst um flutningana á virkum dögum. Ég treysti hæstv. dómsmrh. til þess að ganga lengra virku dagana vegna þess að, eins og ég segi, það er ekki boðlegt fyrir skólafólk og vinnandi fólk sem fer þarna á hverjum einasta morgni að mæta þessum stóru bensín- og olíuflutningatrukkum, fyrst og fremst með bensín, en ég treysti hæstv. ráðherra og vona að þessar reglur líti dagsins ljós sem fyrst. Ég treysti henni mjög vel til að gera þær vel úr garði.