Langtímameðferðarheimili og neyðarvistun

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 15:50:15 (4420)

2003-03-05 15:50:15# 128. lþ. 89.10 fundur 629. mál: #A langtímameðferðarheimili og neyðarvistun# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[15:50]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Þetta mál sem hér kemur nú á dagskrá, þ.e. fyrirspurn sem tengist biðlistum eftir langtímameðferðarúrræðum á vegum félmrn. og sömuleiðis fyrirhugaðri stækkun neyðarvistunaraðstöðu á Stuðlum, tengist máli sem var hér fyrr til umræðu, fyrirspurn minni til hæstv. heilbrrh. um ástand þjónustu á barna- og unglingageðdeild og biðlista þar, heilbrigðisráðuneytismegin í kerfinu ef svo má að orði komast. Sumpart eru þessi mál mjög samhangandi þar sem í hlut á staða þeirra ungmenna sem hafa ánetjast fíkniefnum og eru kannski jafnframt að stríða við ákveðin geðræn vandamál, eru á gráu svæði milli kerfa, milli úrræða heilbrrn. og félmrn. eða þeirrar þjónustu sem þessi ráðuneyti bera ábyrgð á.

Ég hef verið að kynna mér ástand þessara mála undanfarnar vikur og eitt af því sem kom upp í hendurnar á mér og ég hafði ekki áttað mig á var að umtalsverð bið væri eftir langtímameðferðarúrræðum á heimilum úti á landi sem heyra undir félmrn. og eru þá sérstaklega sniðin að þörfum þeirra sem þurfa langtímameðferð, verulegt aðhald eða mikinn stuðning og henta þar af leiðandi ekki önnur og opnari úrræði tímabundnari sem kunna að vera í boði og þar sem ekki eru biðlistar. Þess vegna hef ég leyft mér að spyrja hver sé nákvæmlega biðlistinn nú eftir vistun á langtímameðferðarheimilum á vegum ráðuneytisins og hvaða aðgerðir séu fyrirhugaðar í því sambandi til að bæta þar úr. Ég hef ástæðu til að ætla að þar sé um verulega alvarlegan vanda að ræða og biðlista á hverjum séu ungmenni sem í sumum tilvikum eru nánast í bráðri hættu.

Svo í öðru lagi, herra forseti, spurt hvenær verður ráðist í fyrirhugaða stækkun neyðarvistunaraðstöðu á Stuðlum sem samkvæmt upplýsingum sem ég hef undir höndum er í raun og veru löngu sprungin. Í ein þrjú ár hafa áætlanir legið fyrir um að bæta þurfi úr aðstöðunni, byggja þar við eða auka afköst án þess að framkvæmdir hafi hafist. Ég leyfi mér því að inna hæstv. félmrh. eftir þessu.