Langtímameðferðarheimili og neyðarvistun

Miðvikudaginn 05. mars 2003, kl. 15:52:55 (4421)

2003-03-05 15:52:55# 128. lþ. 89.10 fundur 629. mál: #A langtímameðferðarheimili og neyðarvistun# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 89. fundur, 128. lþ.

[15:52]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það eru 16 börn á biðlista núna eftir langtímameðferð og þar af eru sjö búsett í Reykjavík. Önnur sjö eru frá nágrannasveitarfélögunum og tvö eru utan af landi. Meðalbiðtími þessa hóps er tæpir 4 mánuðir en bið eftir langtímameðferð getur verið mjög breytileg, frá nokkrum dögum til níu mánaða í því tilfelli þegar biðin hefur verið lengst.

Til samanburðar má geta þess að fyrir réttu ári síðan, í lok febrúar 2002, voru jafnmargir á biðlista eftir langtímameðferð. Biðtíminn ræðst almennt nokkuð af því á hvaða tíma árs umsóknin berst. Skýringin er sú að endurúthlutun rýma fer aðallega fram frá vori þegar skóla lýkur og fram á haust þegar skóli hefst á ný. Venjulega losna ekki mörg rými á skólaárinu enda er allt gert til þess að komast hjá röskun á skólagöngu barns. Í þessu felst að biðlistinn er venjulega í algjöru lágmarki í september, e.t.v. örfáir einstaklingar, en síðan hlaðast umsóknir upp og ná hámarki í maí. Því er líklegt að þau börn sem nú eru á biðlista þurfi að bíða til vors eða sumars þar sem ekki er búist við að rými losni fyrr en þá. Segja má að aðeins þau börn sem glíma við allra alvarlegasta vandann fái úrlausn á þessu skólaári, en í mjög alvarlegum málum hefur Barnaverndarstofa gjarnan keypt viðbótarrými til að unnt sé að bregðast við vandanum.

Ég vek athygli á að framangreint á við öll langtímameðferðarheimilin á vegum Barnaverndarstofu en ekki við Árvelli þar sem veitt er sérhæfð vímuefnameðferð. Þar hefur yfirleitt ekki verið biðlisti og raunar eru þar laus rými eins og stendur. Barnaverndarstofa hefur yfir að ráða um 70 vistunarrýmum. Í ráðuneytinu hefur verið sérstaklega að þessum málum hugað að undanförnu. Samráðsfundur var haldinn með fulltrúum Barnaverndarstofu, forvarnadeild lögreglunnar og Barnavernd Reykjavíkur í þessari viku. Í ljós hefur komið að sá hópur barna sem eru á biðlista eftir langtímameðferð er börn sem þarfnast mun öflugri meðferðar en þeim býðst á Árvöllum eða hjá SÁÁ. Fíkniefnaneyslan er einungis hluti vandans. Þessi börn eiga mörg hver við verulega hegðunarerfiðleika að stríða og einnig hefur komið í ljós að heimili og foreldrar barnanna eru oft illa í stakk búin til að takast á við vandann, einnig þau heimili sem taka á móti börnum úr langtímameðferð frá Barnaverndarstofu. Það er nauðsynlegt að huga nánar að fjölskyldunum og reyna aðrar leiðir í langtímameðferð.

Það er ljóst að stækkun neyðarvistunarinnar sem farið verður í á þessu ári og ég mun víkja að hér á eftir mun leysa úr bráðum vanda sem blasir við á höfuðborgarsvæðinu. Ef barn á við að stríða verulega hegðunarerfiðleika vegna geðrænna, tilfinningalegra eða annarra vandamála er heimilt að mæla fyrir um sérstaka umönnun og þjálfun á fósturheimili í stað þess að vista barn á meðferðarheimili. Þetta hefur verið nefnt ,,styrkt fóstur``. Barnaverndarstofa og barnaverndarnefndir skipta með sér kostnaði vegna þessara fósturmála. Búast má við að þessi fóstur geti í einhverjum tilfellum komið í staðinn fyrir vistun á langtímameðferðarheimili, en það tekur töluverðan tíma að þjálfa fósturforeldra til þess að taka að sér þessi vandasömu verkefni. Alls eru í kringum 250 börn á hverjum tíma í fóstri fyrir milligöngu Barnaverndarstofu og hluti þeirra sem eru í tímabundnu fóstri á við veruleg vandamál að glíma.

Það hefur verið ákveðið að Barnaverndarstofa fari af stað með undirbúning að tilraunaverkefni sem kallast MST, Multi Systematic Training. Um er að ræða uppeldis- og þjálfunarprógramm þar sem barnið og öll fjölskyldan fær ríkan stuðning frá sérfræðingateymi sem segja má að taki fjölskylduna í gjörgæslu í um það bil sex mánuði. Þetta er lausn sem gæti vel komið í stað vistunar á meðferðarheimili og reynst a.m.k. jafn vel og eftir atvikum betur. Það hefur hún gert hjá sumum nágrannaþjóðum þar sem þessi aðferð hefur verið prófuð. Í grófum dráttum tekur teymi 3--5 starfsmanna, t.d. félagsráðgjafi, sálfræðingur og læknir, eftir því sem við á, að sér að styðja fjölskylduna. Starfið er að verulegu leyti inni á heimili unglingsins en einnig annars staðar, m.a. í sambandi við samskipti kennara, lögreglu og nágranna. Kostnaður er allverulegur en líklega eitthvað lægri en vistun á meðferðarheimili. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur mun koma að þessu verkefni með Barnaverndarstofu og hafa þeir aðilar hafið undirbúningsvinnu. Það er unnið að stofnun nýs meðferðarheimilis fyrir börn með alvarlega hegðunarerfiðleika, en með stofnun þess munu bætast við 5--6 vistunarrými. Raunar var í fyrra lokað meðferðarheimili á Skjöldólfsstöðum vegna þess að vistun var ekki fyrir hendi.

Ég verð, herra forseti, að geyma að fjalla um stækkun Stuðla þangað til í síðara svari mínu.