Skattaskjól Íslendinga í útlöndum

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 13:36:16 (4462)

2003-03-06 13:36:16# 128. lþ. 90.94 fundur 474#B skattaskjól Íslendinga í útlöndum# (umræður utan dagskrár), fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[13:36]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mun ekki ræða skattamál einstakra manna í ræðustól Alþingis, allra síst meðan rannsókn þeirra er í gangi á vegum réttra yfirvalda. Hins vegar fer ekki hjá því, eins og hv. fyrirspyrjandi og málshefjandi drap á, að opinber umfjöllun um rannsókn á skattamálum umsvifamikils kaupsýslumanns hér í borginni kveiki ýmsar spurningar. Mér sýnist þó að ef þær ávirðingar sem komið hafa fram í því máli eiga við rök að styðjast, sem ég get auðvitað ekkert fullyrt um, þá sé það ekki vegna skorts á lögum og reglum heldur vegna þess að lögin hafa ekki verið virt.

Eðlilega vaknar líka sú spurning hvort íslenska skattkerfið búi yfir nægilega sterkum vörnum gagnvart þeim sem ráðnir eru í að fara á svig við settar reglur. Í því sambandi beinist athyglin ekki síst að möguleikum manna á að flytja fé út úr íslenskri skattalögsögu til annarra landa án þess að gefa um það upplýsingar og greiða eðlileg gjöld. Opnun hagkerfis okkar á undanförnum árum og alþjóðavæðing viðskipta- og fjármálalífsins gerir það að verkum að sérstök ástæða er til að vera á varðbergi gagnvart slíku, bæði af hálfu innlendra yfirvalda en einnig í samstarfi við aðrar þjóðir. Sérstök nefnd sérfræðinga vinnur nú að því að rannsaka umfang skattsvika samkvæmt ályktun Alþingis frá síðasta þingi og hefur verið lögð áhersla á það af minni hálfu að hún kanni sérstaklega þessa hlið málanna. Af hálfu fjmrn. hefur vinna verið lögð í samstarf við aðrar þjóðir um þessi mál m.a. á vettvangi OECD. Fjármálaráðherrar Norðurlandanna hafa ákveðið, innan ramma verkefnis OECD um skaðlega skattasamkeppni, að beita sér fyrir sérstakri aðstoð við ýmis ríki í Karíbahafi á sviði skattamála og fyrir gagnkvæmum upplýsingaskiptum. Þessi ríki eru sum hver þekktar skattavinjar með lítt þróuðu skattkerfi. Stundum hafa þau verið skálkaskjól fyrir misindismenn í fjármálum en nú hafa þau lýst yfir vilja til samstarfs við OECD.

Málshefjandi drap á svokallaða CFC-löggjöf sem sum ríki innan OECD hafa sett til að sporna gegn því að skattstofn sé fluttur úr tilteknu ríki til lágskattasvæðis. Það er rétt sem fram kom hjá honum að reglur af því tagi hafa verið til athugunar hér á landi. Slíkar reglur geta hins vegar verið með ýmsum hætti og ég bendi enn á að slíkar reglur tryggja ekki að til þeirra náist sem ráðnir eru í að hafa þær að engu og veita ekki nauðsynlegar upplýsingar.

Herra forseti. Hið nýja og opna umhverfi í viðskiptum og fjármálum á ekki að vera gróðrarstía spillingar og skattundandráttar heldur þvert á móti farvegur fyrir heiðarlega starfsemi öllum til ávinnings. Það er leitt ef í ljós kemur að einhverjir hafa misnotað það frelsi og þann trúnað sem þeim hefur verið sýndur að þessu leyti. Slíkt framferði er að sjálfsögðu ekki líðandi og það verður ekki liðið. Ef breyta þarf lögum til að uppræta slíkt þá munum við að sjálfsögðu beita okkur fyrir því. Ef efla þarf rannsóknar- eða eftirlits\-aðila í þessu skyni þá munum við að sjálfsögðu tryggja aukið fjármagn til þess. Um þetta ætti að geta verið góð sátt á Alþingi og í þjóðfélaginu og þetta er að sjálfsögðu réttmæt krafa íslenskra skattgreiðenda.