Skattaskjól Íslendinga í útlöndum

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 13:40:13 (4463)

2003-03-06 13:40:13# 128. lþ. 90.94 fundur 474#B skattaskjól Íslendinga í útlöndum# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[13:40]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það er athyglisvert að ef undandráttur frá skatti er af sambærilegri stærðargráðu og hann var fyrir tíu árum síðan þegar úttekt var gerð á umfangi skattsvika, þá má áætla hann nú yfir 30 milljarða kr. Alþingi samþykkti fyrir ári síðan tillögu frá þingmönnum Samfylkingarinnar um að ný úttekt verði gerð á umfangi skattsvika, skattsniðgöngu og dulinni efnahagsstarfsemi. Sú vinna er nú í gangi og gefur hún færi á að endurmeta aðferðir, skattrannsóknir og eftirlit og stoppa í glufur í skattalögunum sem leitt hafa til skattundandráttar, en niðurstaðan á að liggja fyrir í júlímánuði næstkomandi.

Eignarhaldsfélögum hérlendis í eigu Íslendinga hefur fjölgað verulega og full ástæða er til að skoða hvort það hafi leitt til skattsniðgöngu eða undandráttar frá skatti sem bregðast þarf við með auknu eftirliti og hertum lagaákvæðum. Það er auðvitað ekki þolandi að nauðsynlegt frelsi sem þarf að ríkja í fjármagnsflæði milli landa sé nýtt til skattundandráttar eða skattalög veiti svigrúm til skattsniðgöngu og umsvifamiklir fjármagnseigendur og stóreignamenn nýti sér skattaskjól í öðrum ríkjum til að koma eignum sínum undan skatti. OECD hefur skilgreint að svæði sem bjóða upp á svokallaða skattaparadís séu á milli 30--40 talsins auk þess sem fjölmargar áþekkar skattareglur finnast í Evrópu. Kannski þurfum við líka að horfa í eigin barm og skoða hvort erlend félög noti Ísland sem milligönguaðila í flutningi fjármagns milli landa í skattalegum tilgangi eins og t.d. með því að stofna hér dótturfélög sem hafa enga atvinnustarfsemi hér á landi en eru stofnuð eingöngu í skattalegum tilgangi til þess að flytja fjármagn til útibúa sem stofnuð eru á lágskattasvæðum til að losna við skattskyldu í heimalandi sínu. Við erum ekki í góðri aðstöðu til að grípa til ráðstafana til að vernda skattstofna okkar ef við veitum á sama tíma beina eða óbeina aðstoð við skattundanskot í öðrum löndum.