Skattaskjól Íslendinga í útlöndum

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 13:46:24 (4466)

2003-03-06 13:46:24# 128. lþ. 90.94 fundur 474#B skattaskjól Íslendinga í útlöndum# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[13:46]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Það hlýtur að vekja hroll, óhug og vandlætingu hjá almennu launafólki og lífeyrisþegum að heyra daglega fréttir af flutningi á fjármagni í milljarðavís úr íslensku atvinnulífi og íslensku efnahagslífi í skattaskjól erlendis, skattaskjól sem jafnvel hafa verið skipulögð af íslenskum fjármálastofnunum. Er þetta gert af ráðnum hug til þess að komast hjá eðlilegri skattgreiðslu til íslensks samfélags? Herra forseti. Hér er verið að tala í hundruðum milljóna eða milljörðum króna.

Þegar kemur að almennum launamönnum er annað upp á teningnum. Ég þekki dæmi um mann sem hefur launatekjur sínar hér á landi en lítils háttar atvinnutekjur í Færeyjum. Þar eru tvísköttunarsamningar á milli. Hann greiðir 43% í skatta af sínum litlu tekjum í Færeyjum en þarf líka að greiða skatt af sömu tekjum hér, yfir 10%. Þarna er um litlar upphæðir að ræða hjá launamanni. Það er hundelt en auðvitað eiga menn að greiða skatta eftir öllum lögum og reglum.

Herra forseti. Það er gott að vera með frelsi í viðskiptum og fjármagnsflutningum að því marki sem siðferði okkar getur borið. Við hljótum öll að krefjast siðferðis og réttlætis sem nær til allra hvað lýtur að vörslu og meðferð fjármagns.