Skattaskjól Íslendinga í útlöndum

Fimmtudaginn 06. mars 2003, kl. 13:57:00 (4471)

2003-03-06 13:57:00# 128. lþ. 90.94 fundur 474#B skattaskjól Íslendinga í útlöndum# (umræður utan dagskrár), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 90. fundur, 128. lþ.

[13:57]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Alltaf er jafnstórkostlegt að hlusta á málflutning Vinstri grænna. Nú er hv. fyrirspyrjandi og málshefjandi búinn að draga þessa umræðu, sem hófst með málefnalegum skoðanaskiptum, niður í það svað að leggja að jöfnu íslenskar skattareglur og það sem hann gerði hér að umtalsefni í upphafi, skattaparadísir í Karíbahafi, möguleika manna til að smeygja sér inn í þær með ólögmætum hætti.

Hvað við eigum að gera í því efni til þess að sporna gegn því? Við erum í samstarfi við OECD um margt. Meðal annars hafa alþjóðlegu viðskiptafélögin verið sett á lista sem menn eru að ræða um í góðu sín á milli hvort séu eðlileg fyrirbæri. En það er ekki hægt að leggja þetta að jöfnu, hv. þm., við kjarna þess máls sem hér er til umræðu. (ÖJ: En er ekki ...?) Hv. þm. talar eins og hann vilji taka upp aftur gamla gjaldeyriseftirlitið. Hv. þm. talar þannig að öll viðskipti séu brask. Öll viðskipti eru brask, segir hv. þm. Allir sem vinna fyrir sér í fjármálaheiminum eða í viðskiptum eru braskarar og allt sem gert hefur verið til að auka og efla frjálsræði er brask. Það kallar hann braskvæðingu samfélagsins. Þetta er auðvitað alveg ótrúlegur steinaldarmálflutningur.

Það sem við þurfum að gera er að koma í veg fyrir að menn misnoti það frelsi sem þeir hafa fengið til að stunda alþjóðleg viðskipti öllum til heilla. Gæta þarf þess að menn misnoti ekki þau réttindi sem þeir hafa fengið til þess að gera þjóðinni gott í tengslum við atvinnustarfsemi og viðskipti. Við þurfum að koma í veg fyrir skattsvikin og skattundandráttinn sem því miður virðast dæmi um. Við þurfum að koma í veg fyrir slíka spillingu. Ég sagði áðan að ég teldi að þingmenn gætu allir verið sammála það.

Hinu, málflutningi þingmannsins um braskið, vísa ég aftur heim í braskbúlluna hjá Vinstri grænum. (ÖJ: Nú þekkjum við gamla Sjálfstfl. aftur.)